Viðtalið við Lárus Blöndal

lblond Fréttablaðið birti þann 5. febrúar viðtal við Lárus Blöndal undir fyrirsögninni “Dómsmál margfalt áhættusamara”. Margt er undarlegt í þessu viðtali en það hefst þannig:

Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi kunna að fá bakþanka vegna þeirra vaxtakjara sem þau hafa boðið Íslendingum í Icesave-deilunni.  Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefnd Íslands um Icesave, segir það umfram hans væntingar að náðst hafi saman um þau vaxtakjör sem Íslendingum bjóðast í samningnum.
Lárus áréttar að íslenska samninganefndin líti þannig á að Bretar og Hollendingar taki þátt í fjármagnskostnaði með Íslendingum. Þeir kynni málið hins vegar þannig heima fyrir að þeir séu að fá endurgreitt lán.
„Undir þeim formerkjum  lítur mjög  sérkennilega  út  að þeir skuli samþykkja að fá endurgreitt lán með 2,64 prósenta vöxtum meðan lán sem Írum bjóðast eru með 5,8 prósenta vöxtum. Þetta getur augljóslega valdið vandræðum og Lee Buchheit  [formaður samninganefndar Íslands] hefur haft af því áhyggjur hvernig þetta muni þróast þegar fleiri lönd þurfa fjárhagslega fyrirgreiðslu,“
Það er afar sérstakt að Lárus skuli minnast á þá vexti sem Írum bjóðast á láni frá Bretum og Evrópusambandinu. Kjörin á þeim “björgunarpakka” hafa einmitt verið harðlega gagnrýnd. Raunverulegur fjármögnunarkostnaður er líklega undir 3% en samt eru Írar látnir borga 5,8% í einhverju allt öðru skyni en að bjarga þeim úr vanda.
Ólíkt Icesave þá er ljóst að ef Írar taka lán á þeim kjörum, þá er engin vafi á að þeir skuldi andvirðið. Í Icesave málinu er hins vegar deilt um hvort okkur beri yfir höfuð að ábyrgjast skuld einkabankans. Flestir telja meiri líkur en minni á því að við myndum vinna slíkt mál. Í raun er undarlegt að við skulum fallast á að greiða nokkra vexti þegar skylda okkar er ósönnuð.
Fljótt, fljótt skrifum uppá – áður en þeir sjá að sér
Lárusi og Bucheit tókst að semja um verulega lækkun vaxta og voru aðalrök þeirra að deila mætti um hvort krafan væri lögleg. Ef nokkra vexti ætti að greiða ættu þeir í mesta lagi að endurspegla útlagðan fjármagnskostnað viðsemjenda, ekkert umfram það. Viðsemjendur féllust á þessi góðu rök. En í viðtalinu við Fréttablaðið viðrar Lárus áhyggjur af því að Bretar og Hollendingar kunni nú að sjá eftir því.
“Lárus og telur, að eftir því sem vikurnar líði aukist hættan á að Bretum og Hollendingum detti í hug að betra sé að komast út úr málinu frekar en að búa til fordæmi sem aðrar þjóðir gætu vísað í.”
Ætli Bretar og Hollendingar hefðu gert slíkan samning ef þeir teldu hann ekki ásættanlegan? Væru þeir ekki nú þegar búnir að koma sér út úr samningnum ef þeir vildu?
Þetta með fordæmisgildi samningsvaxta v. Icesave kröfu, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sé lögvarin, hlýtur að teljast frekar langsótt. Evrópusambandið ákveður vexti í “björgunaraðgerðum” á pólitískum grundvelli þar sem allt önnur sjónarmið ráða ferð og Icesave skiptir þar engu máli.
Annar snúningur ekki í boði?
Lárus er svartsýnn á að hægt sé að ná betri samningi.
„Það kæmi mér mjög á óvart ef Bretar og Hollendingar væru tilbúnir til að setjast niður aftur,“
Það er eflaust rétt hjá Lárusi að samninganefndirnar hafa lokið sínu starfi og hafa því ekkert fleira um að ræða að óbreyttu. Það þýðir hins vegar ekki að þjóðin getir ekki sett skilyrði fyrir sínu samþykki.
Lárus telur að ef Alþingi samþykki ekki samninginn muni viðsemjendur fara dómstólaleiðina. Það getur reyndar vel verið, enda standa þeir þá ekki frammi fyrir öðrum valkosti. Lárus gleymir alveg þeim möguleika að bjóða viðsemjendum okkar upp á einhvern valkost við dómstólaleiðina.
Það sem vantar: Valkostur fyrir Breta og Hollendinga
Samninganefndin gerði sitt besta en niðurstaðan er samt óásættanleg fyrir Íslendinga. Líklega átti samninganefnd viðsemjenda erfitt með að hemja sig í kröfunum, en það þýðir samt ekki að yfirvöld í Bretlandi og Hollandi vilji halda niðurstöðu nefndarinnar til streitu. Samninganefnd er eitt og yfirvöld annað.
Það er óhjákvæmilegt að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en núverandi samningsdrögum verður að öllum líkindum hafnað ef þau verða lög fyrir þjóðina. Ef Alþingi vill í raun vinna að lausn Icesave deilunnar á það tvo kosti.
  1. Beita landsmenn hræðsluáróðri og blekkingum í þeirri von að þeir samþykki vondan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða
  2. Setja fyrirvara við samninginn sem gerir áhættuna viðráðanlega og líklegt væri að landsmenn samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Verði leið 2. farin munu Bretar og Hollendingar hafa samþykktan samning í höndunum – góðan valkost við dómstólaleiðina. Það er auðvitað ekki víst að þeir myndu fallast á útkomuna, en það er alveg eins líklegt. Þeir gætu líka prúttað eða farið hina margumræddu dómstólaleið sem er þó ólíklegast.
Ef þeir velja dómstólaleiðina er það samt ekki endanleg niðurstaða. Dómsmál tæki langan tíma og mörg tækifæri gæfust til að taka upp viðræður á ný.
Ef við töpum málinu, sem er ólíklegt, er heldur ekki víst að við töpum því illa. Minnstar líkur eru á slæmu tapi.