Nánast allt flug í heiminum
Það var árið 2005 að Dohop leit dagsins ljós og hefur þessi flugleitarvél síðan þá rakað inn verðlaunum og fáar, ef nokkrar leitarvélar standast henni snúning. Dohop er með flugáætlanir yfir 600 flugfélaga í gagnagrunninum, hverju sinni samtals um 50 milljón skráðar flugferðir sem tengja 3.000 stóra og smáa flugvelli um alla jarðkringluna.
„Við erum með gríðarstórt reikniverk sem vinnur úr milljörðum mögulegra tenginga til að finna á augabragði hvernig komast má fljótast og ódýrast á áfangastað,“ segir Frosti, en í dag fær leitarvélin hátt í hálfa milljón gesta í mánuði hverjum og hafa auglýsingatekjur vaxið hratt undanfarin ár. „Vefsíðan er aðgengileg á yfir 20 tungumálum, gestir koma frá nær öllum löndum heims og fer fjölgandi ár frá ári.“
Eru að selja auglýsingar
Dohop selur ekki flugmiðana sjálft, heldur vísar gestum áfram á sölusíður flugfélaganna eða lággjalda-ferðaskrifstofa. Tekjur fyrirtækisins koma í gegnum seldar auglýsingar. „Tekjumódelið hjá okkur er svipað og hjá Google – við miðlum gagnlegum upplýsingum á netinu, sem laðar að tiltekinn markhóp og seljum svo auglýsingar. Notendahópur Dohop.com er nokkuð skýrt afmarkaður: fólk sem er á þeirri stundu að leita sér að flugferð, og jafnvel hóteli og bílaleigubíl – og flestir auglýsendur okkar koma úr ferðaiðnaði,“ segir Frosti en stutt er síðan Dohop bætti við þeim möguleika að finna bíl og gistingu.
Hjá Dohop starfa í dag 12 manns, allir á Íslandi. Sjálf leitarvélin er hýst á Bretlandi og í Bandaríkjunum, en sú ákvörðun var tekin eftir ítrekaðar bilanir á nettengingu milli Íslands og umheimsins á árunum 2006 og 2007. „En um leið og tengingar Íslands verða traustari munum við geta réttlætt að færa þennan hluta rekstursins aftur hingað til lands.“
Flugfélögin vilja tæknina
Frá opnun hefur Dohop verið í stöðugri þróun. Fyrst innihélt leitarvélin aðeins flugferðir lággjaldaflugfélaga, en ári síðar bættust við áætlanir hefðbundinna flugfélaga, og brátt innihélt Dohop nærri allar flugferðir í heiminum. „Þetta gekk upp, en var tímafrekt og flókið verkefni. Við erum svo heppin að eiga í hópnum mikla snillinga sem náðu að leysa hverja þrautina á fætur annarri.“
Útkoman er tækni sem enginn hefur enn getað leikið eftir. „Við höfum vissa sérstöðu á markaðnum, og erum með það góða leitarvél að við erum farin að leigja tæknina út til flugfélaga til að nota á þeirra eigin vefsíðum,“ segir Frosti en meðal annars Virgin Atlantic og Emirates hafa tekið leitarvél Dohop í sína þjónustu með þessum hætti.
Samkeppnin er hörð
Dohop þarf þó óneitanlega að takast á við krefjandi viðskiptaumhverfi og á enn langt í land með að jafna aðsókn vinsælustu leitarvélanna. „Í Bandaríkjunum er til dæmis stór flugleitarvél sem heitir Kayak, en hún leitar nær eingöngu að flugferðum innan Bandaríkjanna. Þeir eru sennilega 20 sinnum stærri en við, en hafa að sama skapi eytt um 300 milljón dollurum í að þróa fyrirtækið, og hefur mest af því farið í markaðssetningu,“ segir Frosti og bætir við að þessi grein leitar fari vaxandi og þeir sem þekki til á þessu sviði séu sammála um að notkun flugleitarvéla eigi eftir að margfaldast á næstu árum.
Frosti segir enda að áherslan til þessa hafi fyrst og fremst verið á þróun leitarvélarinnar, en nú muni færast aukinn kraftur í markaðssetningu. „Við þurfum að gera neytendur á erlendum mörkuðum meðvitaðri um Dohop. Það eina sem staðið hefur í vegi fyrir vexti fram til þessa er að ferðalangar vita ekki af síðunni, og eru vanir að kaupa sína miða til dæmis beint af ferðaskrifstofum á netinu sem selja fyrir eigin reikning en alls ekki endilega á hagstæðara verði en finna má á Dohop.“
Samfara markaðsstarfinu munu höfundar Dohop að sjálfsögðu halda áfram að bæta tæknina. „Við reynum að auka sérstöðu okkar og halda tæknilegu forskoti – höldum áfram að bæta og auka við. Einnig erum við að skoða spennandi leiðir til að auðvelda notendum síðunnar að skiptast á upplýsingum um flugáætlanir og geta sent leitarniðurstöður á auðveldan hátt til vina og ættingja,“ segir Frosti.
Ísland vantar áhættufjárfesta en ekki stórframkvæmdir
Að mati Frosta er nokkuð auðvelt og einfalt að stofna fyrirtæki eins og Dohop á Íslandi. „Stofnun fyrirtækis er tiltölulega ódýr, lítið bákn í kringum reksturinn og rekstrarumhverfið ekki flókið. Í Frakklandi er til dæmis iðulega sagt að fyrstu tveir starfsmennirnir sem þurfi að ráða séu lögfræðingur og endurskoðandi til að tryggja að ekki sé verið að brjóta ótal lög og reglugerðir í hverju skrefi sem tekið er,“ segir hann.
Fjarlægðir litlar milli fólks
Frosti sér merki um bætt fjárfestaumhverfi á Íslandi, en það gefur til dæmis bandarískum sprotafyrirtækjum forskot að hafa þar góðan aðgang að fjársterkum áhættufjárfestum. „Áhuginn er mikill á nýsköpun hér á landi og fer vaxandi. Nýleg lög frá Alþingi sem heimila skattafrádrátt vegna útgjalda við nýsköpun og þróun eru skref í rétta átt, þó þar hefði gjarna mátt ganga lengra.“
Í huga Frosta er þó einn helsti kosturinn við sprotastarfsemi á Íslandi sá að gott samband er á milli aðila, bæði í atvinnulífinu og fræðasamfélaginu. „Fjarlægðirnar eru meiri á milli fólks erlendis, og kannski ekki nema á stöðum eins og Sílikondal þar sem finna má sambærilegt umhverfi. Hér má finna á einum stað margt fjölhæft fólk sem er til í að hjálpa og vera með. Landið er einnig góður prufumarkaður fyrir hugmyndir. Það þarf varla nema eitt viðtal í Morgunblaðinu til að öll þjóðin viti hvað þú ert að gera, og maður veit líka að ef varan virkar ekki á Íslandi er næsta víst að hún virkar hvergi.“
Frosta er einnig í mun að hið opinbera noti ekki stórframkvæmdir til að leysa úr efnahagsvanda þjóðarinnar því þá líði sprotafyrirtæki oft fyrir það. „Stórar framkvæmdir sjúga til sín allt fjármagn og hugvit. Hjá fólkinu í landinu er enginn skortur á frumkvæði og vandinn mun leysast með mörgu smáu en ekki einu stóru.“