Lýðræði er tækifæri

Sagt er að öll vandamál feli í sér tækifæri

Þau vandamál sem þjóðin glímir við um þessar mundir eru ekki bara í stærra laginu, þau eru risavaxin. En þeim fylgja líka margvísleg tækifæri. Við þurfum bara að vera með augun opin til sjá þau og hafa kjark til að grípa þau.

Þótt fæstir hafi séð hrunið fyrir, virðast flestir skilja svona eftirá séð hvað fór úrskeiðis, hver mistökin voru og hvernig hefði mátt afstýra því öllu: Bankarnir fengu að vaxa allt of mikið, eftirliti með fjármálafyrirtækjum var ábótavant, regluverkið gallað og svo framvegis og svo framvegis.

Allt er þetta rétt, en þessi miklu mistök eigi sér samt rót sem liggur mun dýpra. Þar til við ráðum bót á þeim undirliggjandi vanda þá megum við búast við áframhaldandi ógöngum af öllum stærðum og gerðum.

Hrunið hefur nú opnað augu mín (og trúlega annara líka) fyrir afar stóru vandamáli – ehem… ég meina auðvitað mjög stóru tækifæri – sem einskorðast alls ekki við Ísland – því það er útbreitt um heiminn.

En hvað er ég að tala um? Er heimurinn eitthvað í ólagi? Já hann er í ólagi.

Heimur rangra ákvarðana
Hvers vegna tekur mannkynið svona rangar ákvarðanir? Hvers vegna erum við að kaffæra hnöttinn okkar í mengun? Hvers vegna fara þjóðir í stríð? Hvernig getur nokkur ríkisstjórn fallist á að verða skattlenda annarra ríkja? Hvernig dettur nokkurri fullvalda þjóð í hug að selja annari þjóð réttinn til að setja sér lög?

Þetta er allt mjög öfugsnúið því sé hinn almenni borgari er spurður, þá vill hann alls ekki kaffæra heiminn í mengun, hann vill alls ekki fara í stríð, og hann vill alls ekki borga skatta til erlendra ríkja. Hinn almenni borgari vill ekki færa völd yfir sínu lífi til annara ríkja, þvert á móti, hann vill meira lýðræði og geta haft meiri áhrif á eigin hagsmuni. Hvers vegna er svona mikill munur á vilja borgaranna og gerðum ríkjanna?

Skýringin er sú að borgarar hafa engin áhrif. Skortur á lýðræði er hið stóra vandamál, ekki bara í einræðisríkjum, heldur í nær öllum ríkjum sem kenna sig við lýðræði – ekki síst á Íslandi.

Staðnað lýðræði og úrelt stjórnarskrá
Í stað þess að þróast áfram með aukinni menntun, læsi og upplýsingatækni hefur lýðræðið nánast staðið í stað.

Enn þann dag í dag eru kjósendur meðhöndlaðir eins og þeir séu hvorki læsir né skrifandi. Hlutverk kjósenda í lýðræði nútímans takmarkast við það eitt að pára táknið X við einhvern framboðslista á fjögurra ára fresti.

Með því að krota þetta X, gefa kjósendur stjórnvöldum hins vegar ótakmarkað umboð til að setja lög og gera samninga fyrir sína hönd – stjórnvöld geta jafnvel sagt öðrum þjóðum stríð á hendur án þess að spyrja kjósendur.

Umboðið geta kjósendur ekki afturkallað hversu illa sem stjórnvöld fara með það. Að kosningum loknum geta hinir kjörnu leiðtogar í raun gert allt þveröfugt við það sem þeir lofuðu að gera – umboðið heldur.

Spillingaröflin eiga því miður greiða leið að kjörnum leiðtogunum og þau ganga skipulega til verks. Það verður alltaf hagkvæmara fyrir spillingaröflin að hafa áhrif á fáeina valdhafa en allan almenning.

Hér á landi var það Sambandið sem hafði öll völd, síðan var það Kolkrabbinn svo kvótakóngarnir og loks útrásarvíkingarnir. Það var almenningur sem tapaði á valdabrölti þessara aðila.

Núna eru það kröfuhafarnir með Hollendinga, Breta og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í fararbroddi sem vilja mjólka íslenskan almenning og notar til þess vinstri stjórn – sem er óneitanlega snilldarbragð. Ísland hefur breyst í vaxtanýlendu og ríkisstjórnin er þarfasti þjónn kröfuhafanna.

Hvernig gat þetta gerst? Jú við búum við úrelta stjórnarskrá sem færir ríkisstjórninni óheft vald til að gera hvað sem hún vill í fjögur ár án þess að spyrja kjósendur álits. Þar með er voðinn vís.

Þróum lýðræðið áfram
Það er bráðnauðsynlegt að Ísland fái nýja og betri stjórnarskrá sem kemur á opnu og skilvirku lýðræði þar sem almenningur hefur fullan aðgang að öllum upplýsingum og tekur virkan þátt í mótun valkosta og ákvarðanatöku.

Íslenska þjóðin hefur ýmislegt til að bera sem auðveldar okkur að taka frumkvæði í því að þróa lýðræðið áfram. Smæðin kom ekki í veg fyrir Íslendingar kæmu á fót einu fyrsta löggjafarþingi í heimi. Í raun auðveldar smæðin okkur að gera breytingar. Þjóðin er öll læs, menntastig hátt og almenn færni í notkun upplýsingatækni með því besta sem gerist í heiminum. Lýðræði gæti þróast hraðar hér en í flestum öðrum ríkjum.

Íslensk stjórnvöld eru hins vegar alveg jafn ólíkleg og stjórnvöld í öðrum löndum til að hafa frumkvæði að því að færa aukið vald til kjósenda.

Ef hin nýja stjórnarskrá á að leiða til verulegra lýðræðisumbóta þarf þjóðin sjálf að semja hana – en ekki valdhafarnir.

Við þurfum að hefjast handa strax og aðferðin gæti verið einhvern vegin svona: Við stofnum samtök sem hafa það eina hlutverk að semja nýja og lýðræðislegri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þetta yrði unnið yrir opnum tjöldum með þátttöku innlendra og erlendra sérfræðinga og þeirra áhugamanna sem vilja leggja hönd á plóg. Notum Internetið. Notum þjóðfundi.

Það tæki varla nema tæpt ár að semja drög að nýrri stjórnarskrá sem taka myndu gömlu stjórnarskránni fram í öllum meginatriðum.

Hin nýju stjórnarskrárdrög yrðu kynnt rækilega fyrir þjóðinni og samhliða því safnað undirskriftum þeirra sem vilja bera hana undir þjóðaratkvæði.

Það gæti gerst að Alþingi og forsetinn myndu styðja framtakið á endanum en það væri ekki nauðsynlegt.

Um leið og 20 þúsund Íslendingar hafa óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu verður hún auglýst og framkvæmd.

Heyrst hefur að Decode og Íslendingabók búi yfir tækni sem gerir þjóðaratkvæðagreiðslur fljótlegar, öruggar og ódýrar í framkvæmd.

Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður jákvæð þá tekur ný stjórnarskrá gildi á tilgreindum degi.

Allar líkur eru á því að ný stjórnarskrá myndi leiða til verulegra lýðræðisumbóta og þar með væri búið að draga mjög úr hættu á spillingu valdsins og ógæfulegum ákvörðunum í framtíðinni. Almenningur væri bæði upplýstur og með úrslitavaldið í málefnum landsins. Undirrót vandans væri þar með úr sögunni.

Með þessu væri Ísland líka að taka ákveðið frumkvæði og ef aðrar þjóðir myndu fylgja fordæmi okkar myndi það leiða til jákvæðrar þróunar lýðræðis í heiminum.

Það væri gott!