Gerum kavíar úr laxahrognum

Laxalúxus Það er mikil sóun að henda hrognum úr nýveiddum laxi en það gera samt flestir sem ég þekki. Það er eins og menn átti sig ekki á því hvaða verðmæti þeir hafa í höndunum. Kavíar úr villtum laxi er alger lúxus og selst á 7.500 kr. kílóið.

Þegar líður á seinni hluta veiðitímabilsins eru hrognin farin að stækka og þá er um að gera að nýta þau í kavíar.

Það er einfalt og fljótlegt að gera kavíarinn hér er aðferðin:

Þú þarft:

  • 1 Stórt sigti
  • 2 Stórar skálar úr gleri eða stáli
  • 1.5 lítrar volgu vatni (38 c)
  • 200 gr salt

Skrefin:

Fyrst er að laga saltpækilinn: Blanda saman 2 lítrum af volgu vatni og 200 gr af salti í stóra glerskál.

Síðan er að hreinsa hrognasekkina að utan undir kalda krananum.

  Hrognasekkir í pækli

Svo er að setja hrognsekkina í saltpækilinn og láta þá liggja í honum í c.a. 30 mínútur. Þetta á að losa um sekki og himnur. Gott að opna sekkina varlega svo pækillinn komist að hrognum og himnum.

Eftir að hálftíminn er liðinn er pækillinn sigtaður frá hrognunum og geymdur.

Nú þarf að aðskilja hrognin frá himnunum. Þau eru nudduð varlega undir volgu rennandi kranavatni yfir sigti. Volga vatnið og nuddið losar hrognin úr himnunum. Mikilvægt að fjarlægja allar himnur. Ágætt að dýfa sigtinu í skál með volgu svo himnur fljóti upp, en hrogn eru þyngri en vatn og sökkva.

Þegar öll hrognin eru orðin laus og hrein eru þau sett í saltpækilinn og látin standa þar í einhverja stund til að saltast: 10 mínútur ættu að duga.

Að lokum eru hrognin síuð frá pæklinum og sett í krukkur. Þau eru nú tilbúin til neyslu en ættu líka að geymast ágætlega í ísskáp – trúlega í nokkrar vikur.

Laxakavíar er frábær með blinis, sýrðum rjóma og smátt söxuðum lauk og einum dropa af sítrónusafa. Líka fínn á ristað franskbrauð með smjöri eða kex með kotasælu.

Ekki sakar að skola þessu niður með freyðivíni eða vodka.