Þrátt fyrir að ESB sé samband lýðræðisríkja má sambandið þola vaxandi gagnrýni fyrir að vera sjálft ekki nógu lýðræðislegt. Talað er um að sambandið þjáist af verulegum lýðræðishalla og almennir kjósendur hafi sáralítil áhrif á stefnu þess.
Kjarni lýðræðisins er sá að kjósendur hafi síðasta orðið um stjórnun og lög ríkisins. Kjósendur taki þátt í kosningum, kjósi nýjan meirihluta sem myndar nýja ríkisstjórn og semur ný lög. Þennan kjarna lýðræðisins virðist vanta í stjórnun og lagasetningu Evrópusambandsins.
Þótt Evrópubúar kjósi til Evrópuþings á fimm ára fresti, þá er það ekki þingið sem setur lögin. Það er framkvæmdastjórn ESB sem hefur frumkvæðisrétt að lagasetningu og semur öll lög sambandsins en sú framkvæmdastjórn er ekki lýðræðislega kjörin. Evrópuþingið sem er kosið í almennum kosningum hefur ekki vald til að semja lög þótt það geti gert athugasemdir við löggjöf framkvæmdastjórnarinnar eða neitað að samþykkja þau.
Framkvæmdastjórnin hefur í raun öll tögl og haldir í rekstri og mótun Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin er skipuð 27 fulltrúum og tilnefnir hvert aðildarríki einn þeirra. Fulltrúarnir skipta með sér málaflokkum líkt og ráðherrar í ríkisstjórn. Forseti framkvæmdastjórnar er síðan valinn af leiðtogaráðinu en í því sitja forsætisráðherrar aðildarríkjanna. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er í raun leiðtogi Evrópusambandsins. Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar er José Barroso en hann tók fyrst við því hlutverki árið 2004.
Það er ljóst að almennir kjósendur hafa ekki neitt um það að segja hverjir eru valdir í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Kjósendur geta því ekki veitt framkvæmdastjórninni það aðhald sem þykir sjálfsagt í lýðræðisríkjum. Kannski er þessi staðreynd ástæðan fyrir síminnkandi þátttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins. Í fyrstu kosningunum árið 1979 tóku 63% þátt en árið 2009 var þátttaka komin niður í 43%.
Þar sem lýðræðislegt aðhald skortir er talsverð hætta á að framkvæmdavaldið fari sínar eigin leiðir og missi jarðsamband við kjósendur. Þetta gæti verið að gerast í Evrópusambandinu. Skoðanakannanir benda til þess að almenningur í aðildarríkjum vilji ekki færa frekari völd til Brussel. Á sama tíma vinnur ESB að sífellt meiri samruna og miðstýringu. Gjá milli fólksins og leiðtoganna?
Tilburðir ESB til að innleiða nýja stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið geta vart talist lýðræðislegir. Stjórnarskránni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005 og var þá dregin til baka. Tveimur árum síðar var Lissabon sáttmálinn tilbúinn en hann fól í sér 95% af efni stjórnarskrárinnar. Í þetta sinn ákvað ESB að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og þess í stað myndu þjóðþingin fjalla um hann. Á sama tíma sýndu skoðanakannanir að kjósendur vildu fá sáttmálann í þjóðaratkvæði.
Aðeins á Írlandi var Lissabon sáttmálinn settur í þjóðaratkvæði og var honum hafnað. ESB lét það ekki á sig fá og boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu rúmu ári síðar um lítið breyttan sáttmála. Þá var Írska þjóðin í áfalli eftir efnahagshrun og var ekki í aðstöðu til að standa gegn vilja ESB.
Nú hefur Ísland sótt um aðild að ESB og margir bíða spenntir eftir því að kíkja í pakkann og sjá hvaða undanþágur Ísland fái frá reglum sambandsins. Það má vel vera að Ísland fái allar þær undanþágur sem talsmenn aðildar hafa gert sér vonir um.
En eitt mun pakkinn ekki innihalda og það er lýðræðislegt Evrópusamband.