Vandamálunum fylgja tækifæri

timinn.is

Kári Örn Hinriksson – kari@timinn.is

Frosti Sigurjónsson er vel þekktur í íslensku viðskiptalífi en þessi dugmikli athafnamaður hefur komið að rekstri nokkurra stærstu og framsæknustu fyrirtækja landsins. Hann er frumkvöðull og meðstofnandi Dohop og Datamarket þar sem hann sinnir stjórnarformennsku auk þess að vera í stjórn Arctica Finance.

Næsta verkefni Frosta er að komast inn á Alþingi en hvað er það sem drífur hann áfram til þess að bjóða fram krafta sína þar?

„Ég hef áhuga á að leysa vandamál og fást við eitthvað nýtt,“ segir Frosti við blaðamann þegar spurninguna ber á góma. „Það er sannarlega nóg af vandamálum í stjórnkerfi landsins og stjórnmál eru eitthvað nýtt fyrir mér. Vandamálum fylgja alltaf tækifæri til að gera úrbætur og koma með nýjar lausnir. Eftir hrun hef ég varið verulegum tíma í að skoða vandamálin og íhuga lausnir og nú er ég reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum við að koma þeim í framkvæmd.“

Frosti leiðir lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum í vor en hann segist hafa kynnst flokknum fyrir alvöru í baráttunni gegn Icesave samningunum. „Ég setti á fót Advice hópinn til að kynna rökin gegn Icesave III. Í því máli stóð Framsóknarflokkurinn sig gríðarlega vel og ég kynntist mörgum góðum framsóknarmönnum í þessu starfi.”

Réttlátt, framkvæmanlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að leiðrétta skuldir heimilanna.

Þegar Frosti er spurður út í sitt helsta baráttumál nefnir hann erfiða skuldastöðu heimilanna sem hann segir standa í vegi fyrir því að því að hagkerfið komist á legg. „Það stendur hvergi í samningum á milli lántakenda og fjármálafyrirtækja að lántakendur taki að sér að tryggja þessi fyrirtæki fyrir efnahagskreppum með aleigu sinni og framtíðartekjum,“ segir Frosti en hann bendir á að tugir þúsunda heimila séu í erfiðleikum vegna stökkbreyttra lána og allt of mikillar eignatilfærslu frá þeim yfir á fjármálafyrirtækin. „Ef ekkert verður gert á hagkerfið okkar eftir að vera í hálfgerðri frystikistu næstu árin og það á eftir að verða mjög dýrt fyrir þjóðina. Því miður er ekki hægt að treysta því að dómstólar leiðrétti þetta óréttlæti, þannig að þetta er einfaldlega pólitískt verkefni sem ég legg mikla áherslu á að verði leyst. Það er bæði framkvæmanlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að leiðrétta það óréttlæti sem venjulegt fólk hefur orðið fyrir í kjölfar hrunsins.“

Frosti hættir ekki þar en hann telur að við munum sjá frekara efnahagshrun ef reglur um núgildandi peningamarkaðskerfi haldast óbreyttar. „Innlánsstofnanir eins og bankarnir hafa heimild til þess að búa til peninga úr engu en það varð okkur að falli í hruninu. Á árunum 2003 til 2008 var peningamagnið í landinu fimmfaldað af bönkunum. Það er brýnt að taka peningavaldið af viðskiptabönkunum og láta seðlabankann sjá um að stýra peningamagni í umferð út frá þjóðhagslegum hagsmunum og með stöðugleika að leiðarljósi. Það er ekki hollt fyrir íslenska þjóð ef einkabankar hafa það vald að geta stýrt krónunni sjálfir enda segir það sig sjálft að hagsmunir þeirra fara ekki endilega saman við hagsmuni þjóðarinnar.”

Krónan ekki vandamálið heldur hvernig farið hefur verið með hana.

Frosti telur að krónan sé ekki vandamál okkar Íslendinga heldur geti hún hjálpað okkur að takast á við efnahagsáföll í framtíðinni ef við umgöngumst hana af skynsemi með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi

„Það er engin hagfræðikenning sem segir að eitthvað myntsvæði sé of smátt. Vandi okkar hefur verið óstjórn á peningamagni krónunnar og hann má laga. Verðtrygging hefur einnig gert illt verra og skapað mikið óréttlæti þar sem lántakar einir eru látnir sitja uppi með afleiðingar peningaþenslu og óstjórnar í efnahagsmálum landsins. Krónan getur sparað þjóðinni tugi milljarða árlega sem annars færu í að leigja erlendan gjaldmiðil til nota innanlands, en þá þarf að koma böndum á stjórn peningamagns og láta ágóðann af peningamynduninni renna til þjóðarinnar en ekki einkabankanna.”

ESB er fyrir suma en ekki fyrir Ísland.

Það eru fáir sem gefa jafn skýr og aðdráttarlaus svör og Frosti þegar að hann er spurður út í Evrópusambandsmálin en hann er harður á því að Ísland eigi ekki að gerast aðildarríki í ESB þótt að það gæti hentað öðrum þjóðum en okkur. „Ef við værum Belgía, Frakkland eða Lúxemborg þá væri ekkert því til fyrirstöðu að ganga í ESB enda eru hagsmunir ríkja á þessu svæði mjög svipaðir. Aðstæður eru bara allt öðruvísi hér á landi og hagsmunir okkar mjög ólíkir þessum löndum. Við á Íslandi eigum svo mikið af hlutum sem ríki í ESB vantar: Orku, hráefni, hafsvæði, landsvæði og svo mætti lengi telja. Það er skortur á þessu öllu í Evrópusambandinu þannig að ef við leyfum því stóra batteríi að setja okkur lög, þá segir sig sjálft að við eigum eftir að tapa á því til lengdar.“

Lýðræði er Frosta mjög hugleikið og hann bendir á að vald kjósenda minnki við inngöngu í ESB. „Við sjáum hvernig ESB hefur þróast, það hafa sífellt fleiri málaflokkar flust frá aðildarríkjum til Brussel, sem þýðir að áhrif kjósenda í þessum málaflokkum fara sífellt minnkandi sem smáríki hefði Ísland sáralítil áhrif á ákvarðanir í Brussel. Ef við gengjum inn myndum við í raun láta af hendi fullveldi okkar og það er sérstaklega varasamt fyrir þjóð sem er jafn auðug og við Íslendingar.