Sóttvarnarlæknir hefur frá upphafi covid-19 faraldursins talið að ekki verði komið í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Stór hluti landsmanna muni á endanum smitast. Sóttvarnarlæknir hefur sagt mikilvægt að reyna að hægja á útbreiðslu veirunnar, fletja út kúfinn svo heilbrigðiskerfið ráði við verkefnið. Nú hafa hinsvegar nokkur ríki í Asíu sýnt að hægt er að stöðva útbreiðslu veirunnar. Það sama gætum við gert ef stjórnvöld taka þá stefnu.
Margt hefur tekist vel í baráttunni við veiruna, ekki síst öflug skimun og smitrakning meðal Íslendinga sem komu heim frá hættusvæðum og settir voru í sóttkví. Verra var að erlendir ferðamenn frá sömu svæðum voru hvorki skimaðir né settir í sóttkví. Þeir gátu því borið veiruna um landið.
Almenningur hefur fengið gagnlegar upplýsingar um hvernig fólk geti dregið úr hættu á að smitast. Flest nágrannaríkin hafa nálgast verkefnið á svipaðan hátt og Ísland en með misjöfnum árangri. Á Ítalíu tókst veirunni að breiðast út og í gær voru 2500 látnir. Á Spáni eru fleiri en 500 látnir og ljóst að nú stefnir hratt í óefni í fleiri löndum. Þau hafa gripið til örþrifaráða, lokunar landamæra, lokunar ríkisstofnana og samkomubanns. Tjónið af völdum veirunnar og síðbúnum viðbrögðum stjórnvalda er orðið fordæmalaust og er vart séð fyrir endann á ástandinu.
Víkjum nú að nokkrum asíuríkjum sem gripu skjótt til aðgerða með það skýra markmið að stöðva veiruna. Aðgerðir þeirra voru markvissar og árangurinn frábær. Singapore er fimmtán sinnum fjölmennara land en Ísland, afar þéttbýlt og mikill samgangur við Kína þar sem veiran braust út. Í Singapore greinast nú helmingi færri nýsmit hvern dag en í okkar fámenna landi. Íbúar Hong Kong eru 7,5 milljónir og þeir eru í nánum samskiptum við Kína. Engu að síður hefur þeim lánast að hemja veiruna og þar greinast einnig færri nýsmit en hér. Jafnvel Kína með sinn 1,4 milljarð íbúa er með færri nýsmit en Ísland. Suður Kórea er með 51 milljón íbúa og þeir hafa skimað álíka hátt hlutfall íbúa en þar greindust 74 smit í dag, helmingi fleiri en hjá okkur. Þeir eru 142 sinnum fjölmennari þjóð en við.
Þessi dæmi sanna að það er hægt að stöðva veiruna og þessi ríki geta vísað okkur veginn. Fyrst þessi mannmörgu samfélög gátu stöðvað veiruna á nokkrum vikum, þá getum við það líka. En hvað þarf til?
Það þarf nú þegar að hverfa frá þeirri stefnu að reyna að stýra veirunni og smiti hennar um samfélagið, því sú aðferð hefur nú þegar mistekist hrapallega og kostað þúsundir mannslífa í nágrannaríkjum okkar. Þessi stefna hefur ekki verið leyndarmál:
„Við verðum eiginlega að fá eitthvað smit í samfélagið, því þetta er svona eins og bólusetning. Þannig að við getum reiknað það út að við þurfum kannski eins og 60% af þjóðinni til að smitast til að búa til ónæmi svo við fáum þetta svokallaða hjarðónæmi, þannig að veiran muni ekki þrífast áfram.“ sagði sóttvarnarlæknir í viðtali við Kastljós RÚV 15. mars.
Sama stefna kom fram hjá Sir Patrick Vallance, vísindalegum ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í viðtali við Sky fréttastöðina 13. mars og í sjónvarpsávarpi forsætisráðherra Hollands til þjóðarinnar að kvöldi 16. mars.
Allir þrír lögðu mikla áherslu á að ekki mætti stöðva útbreiðslu veirunnar algerlega, því þá myndi veiran einfaldlega gjósa upp síðar þegar slakað yrði á vörnum.
Svo virðist því sem þessi aðferðafræði hafi verið hönnuð af færustu sérfræðingum Evrópu og henni fylgt samviskusamlega af evrópuríkjum þar til nýlega að veiran fór úr böndum og fólk fór að deyja í þúsundatali. Þessi mistök færustu sérfræðinga verða eflaust rannsóknarefni um ókomin ár.
Samtök ónæmisfræðinga í Bretlandi hafa skorað á stjórnvöld að hverfa frá þessari stefnu. Það sé áhættusamt að leyfa veirunni að breiðast út, erfitt að stýra útbreiðslunni og ekki víst að hjarðónæmi myndi nást enda hafi veiran þegar stökkbreyst og gæti gert það aftur. Það eigi að stöðva útbreiðslu strax og halda veirunni í skefjum þar til búið væri að finna lækningu eða bóluefni.
Hvað þarf að gera til að stöðva veiruna á Íslandi?
Veikleiki veirunnar er sá að hún deyr út nema hún fái að smita sífellt fleiri. Asíuríkin nýttu sér þennan veikleika. Kína beitti strax hörðu samkomubanni til að hindra útbreiðslu. Nú er byrjað að slaka á því. Öll ríkin hófu strax markvissa skimum, fyrst með hitamælum en svo með sýnatöku eftir tilefnum. Fólk er hitamælt hvar sem það kemur með snertilausum hitamæli. Þeir sem mælast með hita geta farið á greiningarstöð þar sem frekari greining fer fram. Smit eru rakin hratt með aðstoð upplýsingatækni. Gætt er að því að sóttkví sé virt, GPS tækni og smáforrit notuð til að auðvelda eftirlit og svo mætti lengi telja. Allt er þetta vel kynnt og aðgengilegt þeim sem hafa áhuga t.d. í grein New York times.
Það mun sjálfsagt taka nokkrar vikur að finna öll smit. Á þeim tíma þarf að takmarka samgang fólks til að draga úr hættu á frekari smitum. Skima þarf alla sem koma inn í landið frá útlöndum og setja í sóttkví þá sem eru frá hættusvæðum. Það ætti að vera auðveldara nú þegar mörg ríki hafa lokað landamærum sínum og ferðalög eru í lágmarki. Þegar loks hefur náðst utan um nær öll smit er hægt að draga úr takmörkunum á samgangi fólks. Það er gert í skrefum sem hægt er að bakka með fari veiran á kreik. Reikna má með að nýsmit stingi sér upp öðru hvoru en þá verða allir viðbúnir og smitin rakin fljótt og vel. Úrtaksskimun getur nýst til að finna leynd smit. Hættu á smiti verður þannig haldið í algeru lágmarki og við getum nánast farið að lifa eðlilegu lífi á nýjan leik. Verðum þó áfram viðbúin að grípa inní ef veiran kemst á kreik og hefta útbreiðslu hennar jafn óðum. Að lokum munu finnast lyf við covid-19 sem geta dregið svo úr dánartíðni að óhætt verði að draga úr árvekni gagnvart veirunni. Þetta getum við og eigum að gera og byrja strax áður en fleiri smitast.
Stöndum saman og stöðvum þessa veiru!