Stjórnvöld víða um heim vara við sýndarfé.

Bitcoin sýndarféGrein sem birtist í DV-kjallari þann 25. mars 2014:
Þann 19. mars gáfu íslensk stjórnvöld út aðvörun um þá áhættu sem fylgir sýndarfé (e. virtual currencies) svo sem Auroracoin og Bitcoin. Tilefni aðvörunar nú er fyrirhuguð úthlutun sýndarfjárins Aurauracoin til Íslendinga á vegum aðila sem vinnur undir dulnefninu Baldur Friggjar Óðinsson.

Stjórnvöld fjölmargra landa hafa séð tilefni til að upplýsa almenning um þá áhættu sem felst í kaupum, varðveislu eða viðskiptum með sýndarfé. Notendur eru ekki varðir gegn tapi á sýndarfé, t.d. ef “markaðstorg” sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum, greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila.

Hvorki Bitcoin né Auroracoin eru viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Hér á landi má aðeins Seðlabanki gefa út gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar. Talsmenn Auroracoin fara ekki leynt með þann ásetning sinn að Auroracoin eigi að koma í stað íslenskra króna í viðskiptum en það væri einmitt brot á lögum um Seðlabanka.

Stjórnvöld í ESB og fjölmörgum löndum standa frammi fyrir því verkefni að ákveða lagalega stöðu sýndarfjár, þar á meðal hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með sýndarfé. Líklega munu notendur þurfa að greiða annað hvort virðisaukaskatt eða fjármagnstekjuskatt af viðskiptum með sýndarfé. Það myndi leiða til mikillar rýrnunar á verðmæti sýndarfjárins.

Sýndarfé gefur vissa nafnleynd og hefur því verið notað sem greiðslumáti í ólöglegum viðskiptum á netinu. Verði sett lög gegn sýndarfé mun það leiða til verðfalls.

Jafnvel þótt ekki væri yfirvofandi skattaleg eða lagaleg óvissa um sýndarfé, þá er margt annað sem veldur óvissu um sýndarfé. Verðgildi sýndarfjár hefur sveiflast gríðarlega. Eftir að hafa hækkað í verði um hundruði prósenta á nokkrum mánuðum, þar til það náði hámarki í desember sl., hefur bitcoin helmingast í verði á nokkrum mánuðum. Enginn gjaldmiðill hefur verið eins óstöðugur og bitcoin á þessum tíma.

Svo má líka nefna tap þeirra fjölmörgu sem áttu bitcoin hjá Mt. Gox sem var stærsti bitcoin miðlari heims þegar hann fór skyndilega í þrot. Talið er að tölvuhakkarar hafi náð að brjótast inn í Mt. Gox og ræna 850.000 bitcoinum sem þar voru geymd og metin voru á tugi milljarða króna.

Eins og þessi dæmi sýna þá er óvarlegt að treysta á sýndarfé. Líklega verða sett lög um sýndarfé og skattskyldu þess og þá er líklegt að verðmæti sýndarfjár falli hratt. Gengi sýndarfjár hefur verið mjög óstöðugut. Það hefur sveiflast um hundruði prósenta undanfarna mánuði. Miðlarar fyrir sýndarfé hafa ekki staðist árásir hakkara. Aðvörun stjórnvalda um áhættu sýndarfjár er því ekki að tilefnislausu.