Stjórnvöld taki sér tak

Á ráðstefnu hjá Arion banka um framtíð krónunnar voru flestir frummælendur á því að slæm króna væri afleiðing af slæmri stjórn efnahags- og peningamála. Fjórir þingmenn, þar af tveir ráðherrar sem báðir heita Katrín voru í pallborði og hvöttu þjóðina og sjálfa sig til að taka sér tak í óráðssíuni. Það væri eina vitið.

Það lofaði sannarlega góðu að ráðherrar ætluðu að taka sér tak. En svo komu kvöldfréttirnar. Katrín fjármálaráðherra hafði sama dag kynnt fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013-2015. Þar á blaði er meðal annars fasteignaliður upp á 13,5 milljarða. Í honum eru ýmsar nýbyggingar sem ég dreg mjög í efa að séu forgangsmál fyrir þjóð, sem hvorki hefur hefur efni á að manna heilbrigðisstofnanir sínar né tækjavæða þær sem skyldi.

Þarf okkar fámenna land að byggja hátæknifangelsi fyrir 2 milljarða núna?

Er forgangsmál í dag að byggja hús fyrir íslensk fræði upp á 2,4 milljarða?

Er þetta rétti tíminn til að setja 1,3 milljarð í menntavísindahús?

Samtals kosta þessar nýbyggingar 5,7 milljarða og engin leið að sýna fram á að þær skili hagnaði. Stærsti hlutinn af þessum milljörðum mun alveg óhjákvæmilega renna úr landi í formi gjaldeyris til kaupa á byggingarefni.

Gjaldeyri ættu stjórnvöld aðeins að nota til fjárfestinga sem geta skapað þjóðinni auknar gjaldeyristekjur, eða sparað gjaldeyrisútlát.

Geymum allan lúxus og loftkastala þar til við höfum efni á honum. Ef stjórnvöld láta eftir sér óþarfa af þessu tagi mun það óhjákvæmilega koma niður á brýnustu nauðsynjum.

Stjórnvöld þurfa að taka sér tak í óráðssíunni.