Ekki er ljóst hvort þrotabú gömlu bankanna greiða kröfuhöfum út í blöndu af gjaldmiðlum og krónum, eða eingöngu krónum. Greiði þrotabúin alfarið út í krónum gefur það Seðlabanka einstakt tækifæri til að leysa gjaldeyrishöftin, um leið og dregið er úr hættu á því að kröfuhöfum þrotabúa verði mismunað.
Slitastjórnum þrotabúa ber samkvæmt lögum að gera upp allar kröfur í íslenskum krónum. Venjulega fara greiðslur einnig út í krónum, enda dregur það úr líkum á mismunun á milli kröfuhafa vegna gengisbreytinga sem orðið geta á útgreiðslutímabilinu. Þetta skiptir máli því kröfuhöfum verður ekki greitt út á sama tíma. Við þetta bætist að íslenskir kröfuhafar eru skilaskyldir á gjaldeyri en ekki erlendir sem eykur á mismunun verði greitt út í gjaldmiðlum.
Lög gera reyndar ráð fyrir því að útgreiðslur úr þrotabúum séu bundnar höftum, sem þýðir að erlendir kröfuhafar geta ekki tekið þann gjaldeyri úr landi sem þeir fá hjá þrotabúum. Seðlabankinn er að vinna að reglum um þetta og ekki víst hver útkoman verður. Best væri samt að búin greiddu alfarið í krónum.
Þrotabúin eiga líklega ígildi kr 1700 milljarða í erlendum eignum en kr 1000 milljarða í innlendum eignum (nokkur óvissa um raunstærðir). Greiði búin alfarið út í krónum þyrftu þau að kaupa krónurnar af Seðlabankanum og greiða fyrir þær með 1700 milljörðum í gjaldeyri. Kröfuhafar væru þá allir í sömu aðstöðu með krónur í höndum. Tækifærið felst í því að ef Seðlabankinn fær andvirði 1700 milljarða í gjaldeyri þá er hann kominn í aðstöðu til að grynnka verulega á gjaldeyrishöftum með stóru uppboði.
Ef sem dæmi 2000 milljarða vilja fara úr landi þá yrðu afföllin í slíku uppboði um 15% frá núverandi gengi. Þeim sem ekki vildu flytja fé sitt úr landi með þeim affölum sem byðust í uppboðinu væri heimilt að færa fjármagn úr landi síðar, en greiða þá útgönguskatt til ríkisins. Skatturinn yrði í fyrstu t.d. 5% hærri en afföllin í útboðinu til að hvetja menn til að taka þátt í útboðinu. Útgönguskatturinn væri þá 20% í upphafi en færi svo lækkandi mánaðarlega. Hraði lækkunar gæti svo ráðist af útstreymi, ef það væri lítið mætti lækka útgönguskattinn hraðar. Þannig væru höftin brátt úr sögunni með lágmarks kostnaði fyrir ríkið og skattgreiðendur.
Það má vissulega sjá fyrir sér ýmsar aðrar útfærslur á losun hafta, en það er samt algert lykilatriði að þrotabúin greiði kröfuhöfum sínum í krónum til að lágmarka mismunun kröfuhafa og færa Seðlabanka það tækifæri að bjóða upp gjaldeyri þrotabúanna. Það má ekki gleymast að “snjóhengjan” svokallaða, sem nú kallar á höft, varð til í gömlu bönkunum sem slitastjórnir eru nú að skipta á milli kröfuhafa. Snjóhengjan hefur á vissan hátt verið slitin úr samhengi við þrotabúin og sett á herðar almennings í landinu.
Það er ekki of seint að afstýra því óréttlæti að almenningur borgi höftin. En þá verður að tryggja að þrotabúin greiði kröfuhöfum alfarið út í krónum og Seðlabankinn fái gjaldeyri þrotabúana til að leysa þjóðina úr gjaldeyrishöftum.