Landlæknir kaupir umdeilt bóluefni

BólusetningNýlega bárust fréttir af því “að landlæknir hafi undirritað samning við lyfjafyrirtækið Glaxo Smith Kline um kaup á bóluefni gegn HPV-sýkingingum og leghálskrabbameini. Ákveðið hefur verið að bólusetja allar 12 ára stúlkur.”

Bóluefnið heitir Cervarix en samkvæmt tilkynningu frá Glaxo var það prófað á stúlkum á aldrinum 15-25 ára, en landlæknir hefur ákveðið að nota það á 12 ára stúlkur. Fréttin heldur áfram:

“Með bólusetningunni verður komið í veg fyrir sýkingar af völdum HPV sem valdið geta leghálskrabbameini. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir um 60-70% leghálskrabbameins og um 40% alvarlegra forstigsbreytinga þess. Hér á landi greinast árlega um 17 konur með leghálskrabbamein og um 300 konur með alvarlegar forstigsbreytingar.”

Þarna er beinlínis fullyrt að Cervarix komi í veg fyrir sýkingu af völdum HPV. Hið rétta er að bóluefnið ver gegn smiti af aðeins fimm afbrigðum veirunnar (HPV-16 og HPV-18) en afbrigðin eru mun fleiri. Bólusettir einstaklingar geta því smitast af öðrum HPV afbrigðum.

Hver er ávinningurinn?

Smokkurinn veitir fullkomnari vörn gegn HPV veirum en Cervarix bóluefnið, auk þess sem smokkurinn ver gegn mörgum öðrum kynsjúkdómum. Bólusetning gegn HPV þýðir því alls ekki að óhætt sé að sleppa smokknum.

Í upplýsingum frá GSK er tekið fram að Cervarix veitir ekki öllum vernd gegn HPV.

Í Bandaríkjunum er tíðni leghálskrabbameins 7/100.000 en tíðni alvarlegra aukaverkana af bólusetningu 3.4/100.000

Í Bandaríkjunum hafa 80% af 50 ára konum fengið HPV sýkingu en 95% virðast hreinsa veiruna úr líkamanum hjálparlaust. 5% fá forstigsbreytingar sem síðar geta leitt til leghálskrabbameins. Þessar forstigsbreytingar uppgötvast við reglubundna skimun, yfirleitt löngu áður en krabbamein myndast. Reglubundin skimun er mun öruggari leið en bólusetning og án aukaverkana.

Þrátt fyrir bólusetningu með Cervarix þurfa bólusettir einstaklingar að fara reglulega í skimun gegn leghálskrabbameini enda ver bóluefnið ekki gegn öllum afbrigðum HPV veirunnar og varnaráhrif þess endast ekki nema í nokkur ár.

Af þessu að dæma virðist ávinningur af bólusetningu gegn HPV harla lítill eða enginn, sérstaklega í ljósi þess að einstaklingar geta náð meiri árangri með því að stunda öruggt kynlíf og fara reglulega í skimun. Hvort tveggja atriði sem hafa engar aukaverkanir.

Hver er áhættan?

Bóluefni innihalda fjölda efna: óvirkar veirur og ýmis stoðefni sem vekja upp viðbrögð ónæmiskerfisins gegn veiruefninu. Auk þess innihalda bóluefni ýmis rotvarnarefni. Skiptar skoðanir eru um hve mikil áhætta fylgir því að hleypa slíkum efnum inn í líkamann.

Samkvæmt upplýsingum frá Glaxo getur bólusetning með Cervarix haft eftirfarandi aukaverkanir:
– Yfirlið, því getur fylgt skjálfti og líkaminn getur orðið stífur.
– Verkir, roði, bólga, þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkur, uppkösts og liðverkir.

Tekið er fram að ekki skuli gefa barnshafandi konum Cervarix.

Alvarlegar aukaverkanir þekkjast, hér eru tvö dæmi frá Bretlandi:

Ashleigh (12 ára)  fékk sinn fyrsta skammt af Cervarix þann 15 október 2008 og varð veik hálftíma síðar. Höfuðverkurinn var svo sár að hún hljóðaði. Næstu daga var hún með svima, síðar fékk hún verki í fætur sem voru svo sárir að hún féll við. Hún var lögð inn á Frimley Park Spítalann í tvo daga. Sjúkdómsgreiningin hljóðaði þannig: Svimi og vöðvaverkir líklega vegna bólusetningar. Smám saman versnaði ástand Ashleigh og að lokum gat hún ekki gengið fyrir verkjum. Heimild: Daily Mail 14. desember 2008.

Stacey (17 ára) fékk sitt fyrsta flogakast nokkrum dögum eftir bólusetningu með Cervarix. Á næstu vikum urðu köstin fleiri og að lokum greindist hún með heilaskaða. Nú er Stacey í endurhæfingu að endurlæra einföld atriði eins og að búa til samloku. Heimild: The Telegraph 3. október 2009.

Slík dæmi eru sem betur fer fátíð, líklega innan við 4 af 100.000 og í raun ekkert sem bendir til að Cervarix sé verra en önnur bóluefni að þessu leyti.

Stóra spurningin
Það sem einkennir Cervarix er hversu óljós ávinningur er af notkun bóluefnisins og sú spurning vaknar hvort það sé í raun réttlætanlegt að leggja út í þá fjárfestingu og áhættu sem fylgir þessari bólusetningu?