Ættu stjórnendur að nota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi?

Flestir hafa skoðanir á pólitík og auðvitað eru stjórnendur fyrirtækja þar engin undantekning. Það kemur stundum fyrir að stjórnendur beiti vörumerki og áhrifum fyrirtækisins til að vinna sínum pólitísku skoðunum fylgi í samfélaginu. Hér er því haldið fram að slíkt sé í misnotkun á aðstöðu og geti leitt til tjóns bæði fyrir eigendur og samfélagið.

Stórfyrirtæki eru iðulega í eigu fjölmargra hluthafa. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að allir eigendur hafi sömu skoðun í pólitík, hvað þá að meirihluti hluthafa sé sammála pólitískum skoðunum stjórnandans. Tillitsemi við ólíkar skoðanir hluthafa er því gild ástæða fyrir því að stjórnendur gæti hlutleysis í störfum sínum.

En tillitsemi er þó ekki eina ástæðan. Flest fyrirtæki hafa hagsmuni af því að höfða til sem flestra viðskiptavina, en ef fyrirtækið tekur afgerandi pólitíska afstöðu getur slíkt virkað fráhrindandi fyrir tiltekinn hluta viðskiptavina með tilheyrandi tapi fyrir fyrirtækið.

Dæmi eru um að stjórnendur stórfyrirtækja beiti stjórnvöld þrýstingi og hóti jafnvel að fara með fyrirtækin úr landi. Þar er illa farið með áhrifastöðu og traust eigenda.Það væri líka óheppilegt fyrir lýðræðið í landinu ef fyrirtækjum væri almennt beitt með þessum hætti. Eftir því sem fyrirtæki beita sér meira, því minni verða áhrif kjósenda.

Farsælast er að stjórnendur sneiði hjá því að blanda fyrirtækjum í pólitísk álitamál. Þeir geta að sjálfsögðu tjáð sig opinberlega um pólitík, en þá er réttast að taka fram að um persónulegar skoðanir sé að ræða, en ekki afstöðu fyrirtækisins.