Hugmyndin kann að virðist galin við fyrstu sýn, en þegar betur er gáð gætu ýmsir kostir fylgt því að framleiða eldsneyti hérlendis úr raforku. Með því mætti spara gríðarlegan gjaldeyri, nýta útblástur frá álverum og auka orkuöryggi landsins.
Örugg eftirspurn innanlands til margra áratuga
Orkuspá til ársins 2050 bendir til þess að olíunotkun Íslands muni ekki dragast saman nema um 20% næstu áratugina, úr 500 í 400 þúsund tonn. Á þessu ári kaupum við inn eldsneyti fyrir hátt í 80 milljarða, allt greitt í gjaldeyri og allt bendir til þess að eldsneyti muni halda áfram að hækka í verði.
Tækni til að umbreyta raforku í eldsneyti í örri þróun
Hér á landi hefur Carbon Recycling International sett upp verksmiðju sem framleiðir metanól úr CO2 og rafmagni. Metanól er eldsneyti sem má nota sem íblöndunarefni í bensín, allt að 3% á óbreytta bensínbíla. Hægt væri að keyra venjulega bíla á hreinu metanóli með litlum breytingum.
Í Þýskalandi hefur raforka frá vindmyllum, verið notuð til framleiðslu á metangasi með ágætum árangri. Bandaríkjamenn eiga gríðarlegar gasbirgðir og þar er lagt kapp á að þróa aðferðir til að breyta gasi í fljótandi eldsneyti fyrir farartæki.
Við umbreytingu raforku yfir í eldsneyti tapast vissulega hluti af orkunni, en það er samt aukaatriði ef eldsneytið reynist ódýrara í framleiðslu en innflutt eldsneyti. Það kostar líka orku að vinna olíuna sem við flytjum inn. Hér eru það endanlegu verðin sem skipta máli og innflutt olía á bara eftir að verða dýrari.
Útblæstri álvera breytt í eldsneyti
Framleiðslugeta álvera á Íslandi er 800.000 tonn. Það kemur kannski einhverjum á óvart að fyrir hvert eitt tonn af framleiddu áli verða til eitt og hálft tonn af koltvísýringi, sem er gróðurhúsalofttegund.
Góðu fréttirnar eru þær að koltvísýringi má umbreyta í eldsneyti með raforku. Álver gætu þannig sloppið við að greiða kolefnisskatt af þeim útblæstri sem nýttur væri til eldsneytisframleiðslu. Væntanlega gæti sá sparnaður runnið að miklu leiti til eldsneytisframleiðandans.
Jarðhitavirkjanir gefa einnig frá sér gríðarlegt magn af koltvísýringi, svo það er miklu meira en nóg af því hráefni til að anna allri eldsneytisframleiðslu fyrir landið.
Orkuöryggi landsins hættulega lítið
Í ESB er skylt að aðildarríki eigi 90 daga birgðir af eldsneyti og vart er sú krafa sett að ástæðulausu. Ísland á að jafnaði 35 daga birgðir sem virðist hættulega lítið, ekki síst með hliðsjón af því að við búum á eyju langt út í hafi og framleiðum ekkert eldsneyti.
Ólíklegt er að eldsneyti verði skyndilega illfáanlegt, en ef til þess kæmi yrði tjónið gríðarlegt. Hægt væri að draga verulega úr líkum á slíku tjóni ef hér væri framleiðsla sem gæti annað þó ekki væri nema viðkvæmasta hlutanum af eldsneytisþörf landsins.
Tímabært að skoða málið
Ísland mun næstu áratugi vera háð jarðefnaeldsneyti.
Með því að framleiða eldsneyti úr rafmagni mætti nýta útblástur koltvísýrings frá álverum og jarðhitavirkjunum, spara dýrmætan gjaldeyri, efla innlendan iðnað, skapa fjölda nýrra starfa og auka orkuöryggi landsmanna.
Kanna þarf hvort innlent eldsneyti geti verið samkeppnishæft í verði. Það er alls ekki útilokað, en það má heldur ekki gleyma að meta til fjár aukið orkuöryggi, minni mengun og afleidd áhrif af störfum við framleiðsluna.