Fjármálaráðherra vill lögleiða gengistryggð lán til óvarinna neytenda

Fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem miðar að því að lögleiða gengistryggð lán til neytenda sem hafa ekki varnir gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir slíkum lánum. Einnig er með frumvarpinu opnað fyrir gengistryggð lán með veði í íbúðarhúsnæði neytenda sem óvarðir eru fyrir gengisáhættu. Það yrði mikið óheillaspor ef þetta frumvarp verður óbreytt að lögum.

Þeir ríku verða ríkari
Í frumvarpinu er áskilnaður um að aðeins þeir neytendur geti tekið gengistryggð lán sem hafi nægar tekjur til að ráða við verulegar gengis- og vaxtabreytingar sem fylgt geta slíkum lánum. Þau munu því aðeins standa efnafólki til boða.

Hvatinn til að taka gengistryggt lán og ávaxta í krónum er býsna sterkur. Efnaður einstaklingur sem tekur gengistryggt veðlán upp á 50 mkr. gæti hæglega verið að fá 1 milljón í vaxtamun árlega. (Forsendur: 50 mkr lán á 2% vöxtum, ávaxtað á 30 daga bankareikning með 4% vöxtum). Ef 1000 heimili leika þennan leik með samtals 50 milljarða verður gróði þeirra 1 milljarður á ári. En hver tapar?

Seðlabankinn tapar og þar með ríkissjóður og samfélagið allt
Bankar fá nú greidda 5% vexti á innstæður sínar í seðlabankanum. Þessir 50 milljarðar væru nokkuð líklegir til að rata þangað enda eru vextirnir góðir og seðlabankinn traustur lántaki. Seðlabankinn myndi því borga 2,5 milljarða í vexti af fjárhæðinni. Seðlabankinn gæti því greitt 2,5 milljörðum minni arð í ríkissjóð en ella. Svo virðist sem fjármálaráðherra sé því að draga úr tekjum ríkisins með þessu frumvarpi.

Óvarðir lántakendur geta ógnað stöðugleika gjaldmiðilsins
Ef stór hópur óvarinna lántaka óttast um að framundan sé veiking á krónu þá reyna þeir að draga úr gengistapi sínu með því að kaupa gjaldeyri og selja krónur. Ef 50 milljarðar af krónum eru seldir á gjaldeyrismarkaði á fáeinum dögum myndi það í sjálfu sér leiða til skyndilegrar veikingar á gengi krónunnar. Veikari króna leiðir til hækkunar á erlendum varningi, sem leiðir til verðbólgu og verðbólga leiðir til hækkunar á verðtryggðum skuldum. Með því að opna á veitingu gengistryggðra lána til neytenda sem hafa engar gengisvarnir er því verið að magna upp sveiflur á gengi krónunnar í stað þess að draga úr þeim. Það er dapurlegt að ríkisstjórnin vilji bjóða þessari hættu heim.

Þeir tekjuháu munu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu
Seðlabankinn notar stýrivaxtatækið til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þegar stýrivextir hækka verður dýrara að taka lán og fólk því líklegra til að bíða með framkvæmdir eða fara hægar í fjárfestingar. Verði frumvarp fjármálaráðherrans að lögum munu þeir tekjuháu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti seðlabankans. Þeir munu því geta haldið sinni „þenslu“ óbreyttri, en í staðin verða allir hinir í samfélaginu að þola þeim mun meira aðhald af hálfu peningastefnunnar.

Á svo að byrgja brunninn eftirá?
Eins og í fyrri útgáfum frumvarpsins er ákveðinn varnagli til staðar, ákvæði sem heimilar Seðlabanka, að fengnu samþykki fjármálastöðugleikaráðs (þar sem fjármálaráðherrann er í forsæti), að leggja til ýmsar takmarkanir á veitingu gengistryggðra lána til óvarinna lántaka í þágu fjármálastöðugleika. Seðlabankinn mun þó vart geta sett slíkar varúðarreglur fyrr en fjármálastöðugleika er ógnað. Teldist það nægileg ógn við fjármálastöðugleika ef einstaklingar hefðu tekið óvarin gengislán upp á samtals 50 milljarða? Það veit enginn hvar línan verður dregin. Þótt ákvæðið sé jákvætt skapar það óneitanlega hvata fyrir auðmenn til að taka sem stærsta stöðu áður en Seðlabankinn og Fjármálastöðugleikaráðið geta komið sér saman um að loka á þetta.

Hvað eru aðrar þjóðir að gera?
Það er ekki bara litla Ísland sem hefur lent í vanda vegna gengistryggðra lána. Þótt Austurríki sé með evru ákváðu þúsundir austurríkismanna að taka lán í svissnenskum frönkum sem báru afar freistandi vexti. Í janúar 2015 hækkaði svissnenski frankinn skyndilega um 20% og þessi hópur lántaka lenti í miklum vandræðum og sá vandi snéri einnig að lánveitendum vegna vanskila. Hundruð þúsunda pólverja lentu einnig í vandræðum af sömu ástæðu. Í þessum ríkjum og fleirum hefur verið reynt að sporna við veitingu gengistryggðra lána til óvarinna lántaka. T.d. settar stífari skorður við veðhlutföllum gengistryggðra lána og stífari kröfur um eiginfjárbindingu lánastofnana sem veita þau.

Viðbót 3.3. 2017: Í greinargerð frumvarpsins segir að ESA hafi krafist þess að bann við gengistryggðum lánum verði afnumið á Íslandi. Eðlilegast væri að mæta þeirri kröfu með því að afnema bannið, en setja skilyrði um að slík lán séu aðeins veitt þeim sem eru varðir gegn gengisáhættu t.d. með eignum eða tekjum í þeim miðli sem gengistryggða lánið miðast við. ESA hefur hvergi krafist þess að gengið sé svo langt að opna á veitingu gengistryggðra lána einnig til óvarinna neytenda.

Sterk andstaða við málið á síðasta kjörtímabili
Keimlíkt frumvarp og það sem hér er til umræðu var lagt fram tvívegis á síðasta kjörtímabili af þáverandi fjármálaráðherra. Stór hluti þingmanna var mjög andvígur því að heimila veitingu gengistryggðra lána til óvarinna lántaka og ekki tókst að ljúka málinu. Við vinnslu málsins á síðasta kjörtímabili barst fjöldi umsagna m.a. frá Seðlabankanum, þar sem eindregið er varað við afleiðingum þess að opna á veitingu gengistryggðra lána til neytenda sem ekki hafa gengisvarnir.

Erfitt er að skilja hvers vegna fjármálaráðherra sækir svo stíft að opna fyrir lánategund sem seðlabankinn varar eindregið við og valdið hefur miklu tjóni í fjölmörgum ríkjum.

Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný heildarlög um fasteignalán. Ætlun fjármálaráðherrans var þá líkt og nú að heimila gengistryggð íbúðalán til óvarinna lántaka. Þá tókst með mikilli baráttu og samstöðu þingmanna að koma inn breytingu til að koma í veg fyrir að slík lán yrðu veitt óvörðum lántökum. Verði nýja frumvarpið að lögum er sú breyting afturkölluð þannig að efnafólkið geti tekið slík lán. Það væri sannarlega mikil afturför.

—-

Framvindu máls 300 á yfirstandandi löggjafarþingi.
Sambærilegt mál 384 á 145 löggj.þ.
Sambærilegt mál 561 á 144. löggj.þ. Sjá líka hér: umsagnir seðlabankans.