Schengen vandinn vex – engin viðbragðsáætlun?

SchengenGríðarlegur vandi steðjar að Schengen svæðinu og engin lausn í sjónmáli. Ráðamenn aðildarríkja og sérfræðingar keppast við að spá endalokum landamærasamstarfsins. Þegar svo háttar hlýtur það að vera skylda íslenskra stjórnvalda að undirbúa áætlun um það hvernig brugðist yrði við hugsanlegum truflunum í Schengen samstarfinu eða jafnvel endalokum þess. Tekjur Íslands af ferðamönnum voru 300 milljarðar á síðasta ári og því afar miklir hagsmunir í því að landamæraeftirlit verði ekki fyrir truflun. 

Hinn fordæmalausi fjöldi flóttafólks sem vill komast inn á Schengen svæðið hefur skapað alvarlegan ágreining milli aðildarríkjanna og grafið undan stuðningi almennings við Schengen. Takist Grikkjum ekki að stemma stigu við straumi flóttafólks frá Tyrklandi hótar framkvæmdastjórn ESB að vísa Grikklandi úr Scengen. Þetta er ósanngjarnt, ekki síst í ljósi þess að Merkel bauð flóttamenn velkomna til ESB og færi betur á að ESB legði Grikkjum lið í stað þess að hafa í hótunum. Frakkar saka Ítali um að hleypa flóttafólki óhindrað í gegn og hóta að koma á landamæraeftirliti milli landana. Danir hafa tekið upp vegabréfaeftirlit á landamærunum við Svíþjóð. Tyrkir hafa gert kröfu um frjálsa för inn á Schengen svæðið og áformað er að íbúar Georgíu og Úkraínu fái inngöngu á Schengen svæðið án vegabréfsáritunar. Ef Úkraínumenn vilja sækjast eftir hæli á Íslandi yrði erfitt að senda þá til baka vegna stríðsástands í austurhluta Úkraínu.

Framkvæmdastjórn ESB áformar nú sérstaka Schengen landamæralögreglu sem hefði vald til aðgerða án þess að spyrja viðkomandi ríki leyfis. Ljóst er að í þessu felst valdframsal sem ekki samrýmist stjórnarskrá Íslands. Ísland mun því annað hvort þurfa undanþágu eða yfirgefa Schengen.

Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir um framtíð Schengen svæðisins verður að telja algert forgangsmál að Innanríkisráðuneytið undirbúi vandaða viðbragðsáætlun sem miðar að því að lágmarka tjón hér á landi vegna frekari vandamála og truflana í Schengen samstarfinu. Á fundum utanríkisnefndar hef ég ítrekað vakið athygli nefndarinnar sem og fulltrúa innanríkisráðuneytisins á vandanum og kallað eftir aðgerðum.