Í skýrslu minnihluta nefndar um afnám verðtryggingar er meðal annars vakin athygli á því hversu flókið verkefni það er að mæla verðbreytingar. Hætta sé á ofmati. Ofmat vísitölu sem næmi aðeins 1,5% á ári myndi leiða til tilfærslu eigna upp á 25,5 milljarða frá skuldsettum heimilum til lánastofnana. Það myndi þýða tugi eða jafnvel hundruð þúsund í hækkun skulda árlega á hvert skuldsett heimili.
Á blaðsíðu 25 í skýrslu minnihluta verðtryggingar er fjallað um vísitölubjaga eða hættu á ofmælingu verðbólgu. Skekkjuvaldarnir eru flokkaðar í staðgöngubjaga, kaupháttarbjaga, nýjungabjaga og gæðabjaga. Þessum skekkjuvöldum er lýst nánar í skýrslunni.
Einnig er vakin athygli á Boskin skýrslunni sem leiddi í ljós árið 1996 að í Bandaríkjunum hafði neysluvísitala verið ofmetin um 1,1% á ári.
Gríðarlegir hagsmunir velta á því að neysluvísitalan sé rétt mæld hér á landi, en þó er ekki er vitað til þess að fram hafi farið óháð úttekt eða endurskoðun á útreikningi hennar. Það hlýtur að vera tímabært að óháður aðili verði fenginn til að meta hvort neysluvísitalan sé rétt mæld.