Efasemdir um nýtt fangelsi á Hólmsheiði

Ég verð að játa að ég hef efasemdir um að rétt sé að hefja byggingu fangelsis á Hólmsheiði, sem uppfyllir ýtrustu kröfur á sama tíma og heilbrigðiskerfi okkar riðar til falls. Hér er vonandi málefnalegt innlegg í þá umræðu.

Nýja fangelsið myndi kosta um 2 milljarða fullbúið með 56 klefum. En á sama tíma verða lagðir niður 28 klefar í fangelsum á Kópavogi og á Skólavörðustíg þannig að viðbótin yrði aðeins 28 klefar.

Menn geta séð í hendi sér að viðbót um 28 klefa er vart lausn á þeim brýna biðlistavanda sem við er að glíma. Alls eru nú 455 dómþolar á boðunarlista. Ekki er gert ráð fyrir stækkunarmöguleika á Hólmsheiði í framtíðinni og því liggur beint við að stækka þurfi Litla Hraun á næstu árum til að taka á biðlistavandanum þótt fangelsi á Hólmsheiði verði byggt.

Fangelsi á Hólmsheiði er meðal annars ætlað að leysa úr vistun gæsluvarðhaldsfanga sem geta verið 10-20 talsins á hverjum tíma. Lögmenn og rannsakendur eiga tíð erindi við gæsluvarðhaldsfanga og það væri mun styttra að fara upp á Hólmsheiði en á Litla Hraun. En það tekur samt 20 mínútur að keyra frá Hverfisgötu upp á Hólmsheiði og sumir hafa því spurt hvort ekki mætti spara þessi ferðalög algerlega með því að bæta gæsluvarðhaldsálmu við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Mætti skoða þann möguleika?

Á Hólmsheiði væri hægt að aðskilja fanga sem ekki geta verið á sama tíma á sameiginlegum svæðum.  Þetta getur verið mikilvægt t.d. vegna hættu á að til átaka komi milli óvinagengja. Kynferðisafbrotamenn, sumir á gamalsaldri, geta líka átt á hættu að verða fyrir ofbeldi af hálfu annara fanga.  Þarf kannski að vista þá í sér fangelsi?

Það myndi þurfa að gera verulegar breytingar á Litla Hrauni til að aðskilja fanga þar. En slíkra breytinga er væntanlega þörf á Litla Hrauni þótt Hólmsheiði verði byggð. Á Litla Hrauni er hinsvegar til staðar sú aðstaða sem þarf að byggja upp á Hólmsheiði, t.d. smiðja, skóli fyrir fanga og læknisaðstaða. Það er væntanlegra hagkvæmara að hafa stærra fangelsi á einum stað en að búa til annað lítið fangelsi með allri aðstöðu.

Erlendir fangar eru um 20-30 talsins og menn hafa spurt hvers vegna þeim sé ekki vísað úr landi. Margir þeirra eru harðir afbrotamenn sem eiga yfir höfði sér dóma í heimalandinu en kjósa frekar að afplána hér. Viljum við bjóða þeim sjálfdæmi í því? Það kostar 11 milljónir á ári að vista hvern fanga. Við gætum sparað 200-300 milljónir á ári með því að vísa öllum erlendum föngum úr landi, afhenda þá stjórnvöldum í heimalandi og banna þeim að koma aftur hingað. Með þessu móti væri líka búið að skapa pláss fyrir 20-30 íslenska fanga.

Á biðlista eftir fangelsisvist eru nú 455 manns. Aðeins 10% af þeim hafa fengið dóm vegna ofbeldis-, eða kynferðisbrots. Stærsti hópurinn, eða 44% er með dóm vegna umferðarlagabrots eða nytjatöku. Meirihluti biðlistans uppfyllir líklega skilyrði til að afplána dóm sinn með samfélagasþjónustu. Lausn gæti falist í því að setja meiri kraft í að koma dómþolum í samfélagsþjónustu.

Annað stórvirkt og ódýrt úrræði er rafrænt eftirlit sem hér á landi er aðeins í boði fyrir þá fanga sem eru búnir að afplána í fangelsi hluta dóms. Í nágrannalöndum okkar er hins vegar góð reynsla af því að setja hættulitla fanga beint í rafrænt eftirlit án vistunar áður. Með því móti sparast um 20 þúsund á sólarhring á hvern dómþola. Ef við setjum 130 manns í rafrænt eftirlit í stað fangelsis, þá sparast á einu ári 1 milljarður auk þess sem hratt myndi saxast á biðlistann mikla.

Það sem virðist brýnast núna er að grynnka á biðlistanum mikla en Hólmsheiði virðist ekki leysa úr þeim vanda nema að litlu leiti. Lausnin er að stórauka úrræði eins og samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit. Þannig má spara gríðarlega fjármuni og rannsóknir sýna að þannig minnka líkur á endurteknum brotum. Einnig þarf að gera átak í því að senda erlenda fanga til síns heimalands.