Skuldir heimila geta lækkað um 1-2% með því að tilgreina álag vegna greiðslukorta

visamasterVerðtryggðar skuldir heimilanna voru ríflega1.400 milljarðar í mars á þessu ári. Miðað við það myndi lækkun neysluvísitölu, þótt ekki væri nema um eitt prósent lækka skuldir heimila um heila 14 milljarða. Það er einmitt hugsanlegt að hægt sé að ná fram slíkri lækkun einfaldlega með því að kaupmenn breyti venjum sínum og hætti að innifela álag vegna kortaviðskipta í almennu söluverði.

Lesa áfram „Skuldir heimila geta lækkað um 1-2% með því að tilgreina álag vegna greiðslukorta“

Efasemdir um nýtt fangelsi á Hólmsheiði

Ég verð að játa að ég hef efasemdir um að rétt sé að hefja byggingu fangelsis á Hólmsheiði, sem uppfyllir ýtrustu kröfur á sama tíma og heilbrigðiskerfi okkar riðar til falls. Hér er vonandi málefnalegt innlegg í þá umræðu.

Nýja fangelsið myndi kosta um 2 milljarða fullbúið með 56 klefum. En á sama tíma verða lagðir niður 28 klefar í fangelsum á Kópavogi og á Skólavörðustíg þannig að viðbótin yrði aðeins 28 klefar. Lesa áfram „Efasemdir um nýtt fangelsi á Hólmsheiði“

Stóra hagsmunamálið

Printing-press-cartoonÉg velti því fyrir mér hvort almenningur myndi sætta sig við það að einkabönkum væri leyft að búa til peningaseðla að vild. Líklega myndu fáir sætta sig við það.  Samt er bönkum leyft að búa til innstæður að vild, innstæður sem við notum í staðinn fyrir peningaseðla. Afleiðingar af þessu fyrirkomulagi eru býsna alvarlegar: óstöðugt peningakerfi, viðvarandi verðbólga, þyngri vaxtabyrði allra í þjóðfélaginu og skuldir ríkissjóðs eru hundruðum milljarða hærri en annars væri. Myndi almenningur ekki krefjast umbóta ef hann vissi hvernig þessu er háttað? Lesa áfram „Stóra hagsmunamálið“

Sérstaða Íslands: Ekkert moskító

Moskítóflugan gerir ferðamönnum lífið leitt í flestum löndum öðrum en Íslandi og reyndar Færeyjum og Falklandseyjum líka. Eins og margir þekkja veldur bit moskítóflugunnar verulegum óþægindum og í sumum löndum getur það borið með sér alvarlega sjúkdóma.

All margir munu hafa ofnæmi fyrir moskítóbiti. Svo eru alltaf þessir óheppnu, líklega einn af hverjum tíu, sem virðist hafa sérlega bragðgott blóð og eru útstungnir þótt aðrir sleppi við bit. Bjóðum þetta fólk, og alla sem vilja vera lausir við moskító, velkomna í ferðalag til Íslands þar sem hægt er að eiga moskítólaust sumarfrí á fallegum stað.

Ísland hefur að mínum dómi alls ekki gert nóg af því að kynna sig sem moskítólaust land. Þessi sérstaða landsins er á fárra vitorði, en ef hún væri kynnt skipulega gæti það laðað hingað fleiri ferðamenn.

Heimildir: 

Vísindavefurinn: Hvaða lönd eru moskítólaus?

Wikipedia: Moskito

 

Pólitískir pistlar og hlutlægni RÚV

Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur flutt pistla í menningarþættinum Víðsjá á RÚV. Pistlar Hallgríms þann 15. júlí (Nýr Framsóknaráratugur) og 22. júlí (Fulltrúi hagsmuna verður fulltrúi þjóðar). Pistlarnir eru óvægin ádeila á Framsóknarflokkinn sem Hallgrímur segir vera spillingarflokk.

Í þættinum Vikulokin á RÚV 20. júlí, þar sem ég og Hallgrímur vorum meðal gesta kom meðal annars til tals hvort RÚV væri heppilegur vettvangur fyrir pólitíska pistla af þessu tagi. Hallgrími fannst RÚV heppilegur vettvangur, nefndi meðal annars málfrelsi og þörf fyrir ádeilu á stjórnvöld, en ég benti á að gæta þyrfti jafnræðis hjá RÚV í pólitískum áróðri.

Í lögum um RÚV stendur að RÚV skuli í starfháttum sínum „Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.“

Samkvæmt því mætti álykta að ef einum gestapenna er boðið að flytja pistla um sín pólitísku sjónarmið á RÚV, þá eigi fulltrúum annara pólitískra sjónarmiða að veitast jöfn tækifæri hjá RÚV. Hallgrími leist bara vel á það.  Kannski er það líka skásta lausnin úr því sem komið er, þótt eflaust kunni einhverjir að sakna pistla um menningu og listir þegar pólitíkin tekur öll völd í menningarþættinum Víðsjá.

Svo fór spjallið að snúast um fréttir RÚV sem mörgum finnast ekki alltaf nógu hlutlægar. Í lögum um RÚV segir að Ríkisútvarpið skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að „Veita víðtæka, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar“. Talsvert hefur borið á efasemdum um að RÚV takist nógu vel að gæta hlutlægni. Á Facebook er umræðuhópur sem veitir RÚV aðhald í þessu efni. Í hópnum eru hátt í 400 meðlimir sem setja inn færslur nánast daglega.

Andi laganna um RÚV er alveg skýr, gæta skal hlutlægni í fréttum og fréttaskýringum. Vandinn er hinsvegar sá að það er alls ekkert eftirlit með því að svo sé. Enginn formlegur farvegur hjá RÚV fyrir kvartanir. Það er auðvitað ekki viðunandi.

Hjá BBC og víða á norðurlöndum er faglegt eftirlit með hlutlægni í fréttum- og fréttaskýringum. Slíkt eftirlit miðar hvorki að ritskoðun né skoðanakúgun heldur að hlutlægni í fréttamennsku. Markmiðið er að fyrirbyggja að þjóðarfjölmiðli sé misbeitt í þágu sérhagsmuna eða pólitískra afla.

Það hlýtur að vera í verkahring stjórnar RÚV að tryggja að stofnunin fari að lögum um RÚV og farið sé að lögum hvað varðar hlutlægni. Stjórn RÚV ber því að koma á virku eftirliti í því efni. Stjórnin gæti byrjað á að skoða hvernig slíku eftirliti er háttað t.d. hjá BBC og öðrum fjölmiðlum í þjóðareign. Um það fjallar til dæmis þessi skýrsla frá BBC Trust.

 

Er Bitcoin valkostur sem gjaldmiðill?

BitcoinNýlega fleytti góður maður þeirri hugmynd að íslensk stjórnvöld ættu að skipta út krónunni og taka í staðinn upp rafeyrinn Bitcoin.

Hvað er Bitcoin?

Bitcoin er dulkóðaður rafeyrir sem byggir á opnum hugbúnaði og staðli. Bitcoin eru ekki sett í umferð af miðlægum seðlabanka eins og hefðbundnir gjaldmiðlar. Útgáfa á nýjum Bitcoin er einfaldlega í höndum þeirra sem vilja búa þau til, en til þess þarf gríðarlegt reikniafl. Heildarfjöldi Bitcoin er sagður takmarkast við 21 milljón bitcoin, en sá fjöldi gæti verið fundinn árið 2140. Hvert bitcoin skiptist í 100 milljón satoshi.

Er Bitcoin gjaldgeng mynt? 

Mjög fáar verslanir taka við greiðslum í Bitcoin enda myndi það krefjast sérstaks hugbúnaðar.  Hægt er að nota Bitcoin til að kaupa bjór á einhverjum ölstofum sem vilja laða til sín tölvunerði. Svo er líka hægt að kaupa föt á netinu en það hefur reynst erfitt að skipta stórum upphæðum milli Bitcoin og alvöru gjaldmiðla. Áhugamenn um Bitcoin binda vonir við að útbreiðsla og gjaldgengi muni vaxa með árunum, en það er harla lítið enn sem komið er.

Er Bitcoin stöðugt mynt?

Screen Shot 2013-07-09 at 6.21.02 PMÞað er trúlega erfitt að finna mikið óstöðugari mynt en Bitcoin. Sveiflurnar hafa numið hundruðum prósenta upp og niður undanfarna mánuði og virðast ráðast af spákaupmennsku. Meðfylgjandi línurit sýnir gengi Bitcoin gagnvart USD frá upphafi árs.

Hver hagnast á útgáfu Bitcoin?

Þeir sem geta fundið ný Bitcoin og sett þau í umferð geta hagnast á því. Sífellt erfiðara verður að finna ný Bitcoin. Það tók fjögur ár að finna fyrstu 11 milljón Bitcoinin en það er áætlað að það taki ríflega 100 ár að finna næstu 11 milljón Bitcoin.  Þeir sem komu fyrst inn í kerfið, eða fundu það upp hafa greinilega uppskorið ríflegt magn af auðfundnum Bitcoin. Þeir fyrstu geta þá hagnast gríðarlega þegar þeir selja. Ekki er vitað hverjir fundu upp Bitcoin kerfið. Af einhverjum ástæðum hafa þeir kosið að njóta nafnleyndar þannig að ekki er vitað með vissu hver hagnast mest á Bitcoin hugmyndinni.

Er upptaka Bitcoin brandari?

Í ljósi helstu staðreynda um Bitcoin hallast ég helst að því að sú hugmynd að Ísland taki upp Bitcoin í stað krónu sé ágætur brandari eða kannski bara ágæt ádeila. Krónu hafi verið svo illa stýrt í gegnum tíðina að betra væri að taka upp hið skelfilega Bitcoin, lítt gjaldgenga, landlausa og óstöðuga mynt sem háttvirtir senatorar í Bandaríkjunum telja vera  píramídasvindl.

Krónan hefur glímt við mikil vandamál og þau hafa ekki enn verið leyst, en fátt er svo vont að það geti ekki versnað til muna. Upptaka Bitcoin væri líklega ein leið til þess.

Svar komið frá Fjármálaeftirliti vegna Dróma

Eins og fram kom í fyrri pistli sendi Efnahags- og viðskiptanefnd skriflega fyrirspurn til Fjármálaeftirlits  hvort hugsanlegt sé að Drómi brjóti lög. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins stendur meðal annars þetta:

„Fjármálaeftirlitið vinnur nú að sérstakri athugun sem snýr m.a. að viðskiptaháttum Dróma hf. Í tengslum við þá athugun hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir frekari upplýsingum frá stærstu lánastofnunum til að unnt sé að leggja mat á þá almennu framkvæmd við endurútreikning lána samkvæmt lögum nr. 151/2010 sem tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.“

Af bréfinu að dæma er Fjármálaeftirlitið að afla upplýsinga um málið og hefur ekki nægar upplýsingar á þessu stigi til að svara spurningu Efnahags- og viðskipanefndar um það hvort Drómi hf hafi hugsanlega brotið lög.

Er Drómi að brjóta lög?

Drómi er eignarhaldsfélag sem fer með eignasafn SPRON og Frjálsa. Í eignasafninu eru meðal annars lán sem SPRON og Frjálsi veittu viðskiptavinum sínum fyrir hrun. Þessir viðskiptavinir hafa ítrekað kvartað undan því að Drómi, sem er slitastjórnin, gangi lengra í sínum innheimtuaðgerðum en þær lánastofnanir sem eru í hefðbundnum rekstri.

Reynist þetta rétt, þarf að kanna hvort slitastjórn Dróma hafi þar með brotið lög. Með tilkomu 3. gr. laga 78/2011 bættist grein 101 a. við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í þeirri grein kemur efnislega fram að Fjármálaeftirlitið beri að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja eins og Dróma. Ennfremur stendur í 1. mgr.: “Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.”…”Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Héraðsdómur skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.”

Svo virðist sem Drómi hafi reiknað niður gengistryggð lán tiltekins hóps viðskiptavina sinna með fyrirvara. Fyrirvarinn setur þennan hóp einstaklinga í verulega óvissu um fjárhagslega framtíð sína. Ekki er vitað til þess að önnur fjármálafyrirtæki hafi gert samsvarandi fyrirvara við endurútreikning gengislána í samræmi við lög 151/2010. Viðskiptavinir Dróma eru því að þessu leiti í allt annari og verri stöðu en viðskiptavinir annara fjármálastofnanna.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur sent Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum varðandi þetta mál þar sem óskað er eftir svari eigi síðar en 3. júlí.

Hætta á eignaverðsbólu innan hafta

Screen Shot 2013-05-03 at 12.41.27 PMÍ nýrri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika kemur fram að vegna haftanna og takmarkaðra fjárfestingakosta innanlands safnist sparnaður heimila og fyrirtækja upp hjá bönkunum, fjárfestingasjóðum og lífeyrissjóðum:

„Þvinguðum sparnaði lífeyrissjóðakerfisins þarf að finna farveg þótt spurn eftir fjármagni sé takmörkuð. … Við þessar aðstæður skapast veruleg hætta á eignaverðhækkunum umfram það sem skýrist af væntri arðsemi. Slíkar innistæðulausar hækkanir ganga til baka fyrr eða síðar.“ Lesa áfram „Hætta á eignaverðsbólu innan hafta“

Sögulegur sigur Framsóknar

Kosningar 2013Framsókn hlaut 24.4% atkvæða og nítján þingsæti, jafnmörg sæti og Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk 26,7% atkvæða. Í kosningunum árið 2009 fékk Framsókn aðeins 14,8% og níu þingsæti.

Leita þarf aftur til ársins 1979 til að finna svo góða útkomu Framsóknar á landsvísu, en í Reykjavík bætti flokkurinn verulega við sig og hefur ekki áður hlotið jafn mikið fylgi: 16,4% og tvö sæti í norður og 16,8% og tvö sæti í suður.