Brotaforðakerfi í molum

Sífelldar upp- og niðursveiflur á fjármálamörkuðum vekja grun um að fjármálakerfið sé í raun óstöðugt í eðli sínu. Góðu fréttirnar eru að það er hægt að gera það stöðugra með einföldum hætti.

Allir vita að hlutverk banka er að taka við innlánum og ávaxta þau með því að lána féð út. Færri vita  að bankar lána ekki bara út innlánin. Þeir búa að auki til viðbótarfjármagn úr engu og lána það út gegn vöxtum. Þetta er að sjálfsögðu mjög ábatasamt fyrir bankana og skýrir að einhverju leyti hvers vegna almenningur verður sífellt skuldugri. Það er ekki óalgengt að bankar láni út tíu sinnum hærri fjárhæð en sem nemur upprunalegum innlánum til þeirra. Þetta ótrúlega fyrirkomulag kallast brotaforðakerfi (fractional reserve) því “forði” bankana af innlánum er aðeins brot af því fjármagni sem þeir lána út.

Bankar hafa á einhvern undraverðan hátt fengið einkaleyfi til að prenta peninga á meðan öðrum er það sérstaklega bannað að viðlögðum þungum refsingum. Seðlabankinn gefur vissulega út seðla og mynt, en það eru í raun bankarnir sem búa til megnið af fjármagninu sem efnahagslífið þarf. Bankar búa fjármagnið til úr engu og rukka af því vexti. Staðan er því sú að nær allt fjármagn í landinu verður upphaflega til sem vaxtaberandi skuldir við bankana. Kannski var þetta ekki vandamál þegar bankar voru sameign þjóðarinnar og ágóðinn rann til samneyslu, en það verður að staldra við ef bankar í einkaeigu hafa einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu og innheimta vexti af því.

Þegar allt leikur í lyndi, bjóða bankar mikið fjármagn á lágum vöxtum. Fyrirtæki og neytendur freistast til að taka lán fyrir misgóðum fjárfestingum og jafnvel neyslu. Svo blakar fiðrildi vængjum einhverstaðar í fjarlægu landi og allt er breytt. Einhverjir tapa á glæfralegum fjárfestingum, bankar fara að innheimta skuldir af krafti, ótti um verðfall á mörkuðum breiðist út, bankar hækka vexti, hlutabréf lækka í verði og fjármagnskortur gerir vart við sig, sum fyrirtæki ráða ekki við hækkandi vexti og fara á hausinn. Samdráttur eða kreppa tekur við. Bankar hirða fyrirtæki og fasteignir á hrakvirði upp í skuldir – skuldir sem þeir bjuggu til úr engu.

Til að stöðva þessa hringekju offramboðs og skorts á fjármagni þarf að taka af bönkum leyfið til að framleiða fjármagn. Setja þarf 100% bindiskyldu á bankana. Verði það gert, munu bankar þurfa að einbeita sér alfarið að því að ávaxta innlán með því að lána þau út til arðbærra verkefna. Framleiðsla fjármagns yrði ekki í þeirra höndum heldur Seðlabankans.

Bankar myndu þá geta boðið upp á tvenns konar bankareikninga: annarsvegar vaxtalausa hlaupareikninga sem væru ávallt lausir til úttektar, og hinsvegar vaxtaberandi bundna sparireikninga. Bankar gætu eingöngu lánað út og ávaxtað það fé sem lagt væri á bundna sparireikninga. Bundnir reikningar væru bundnir til viss tíma eða uppsegjanlegir með vissum tímafyrirvara.

Með fullri bindiskyldu væru áhlaup á banka ástæðulaus því bankar myndu ávallt eiga nægt fé til að greiða út innistæður á hlaupareikningum. Þörf fyrir innistæðutryggingar væri því úr sögunni. Illa reknir bankar gætu farið á hausinn, en það myndi ekki valda keðjuverkun eins og er í dag. Kerfið væri stöðugt.

Með þessu væri búið að aðskilja tvö ólík verkefni: framleiðslu fjármagns og ávöxtun sparifjár. Illa reknir bankar gætu þá ekki lengur falið misheppnuð útlán með framleiðslu meiri peninga.

Seðlabankinn myndi hafa það hlutverk að stilla af magn peninga og fjármagns í samræmi við stærð hagkerfisins. Þetta myndi hann gera með útgáfu myntar og rafeyris án vaxtaútgjalda fyrir ríkissjóð (þjóðina). Sú leið væri mun beinni og skilvirkari en að fitla við stýrivexti og bindiskylduhlutfall. Verðbólga og verðlag yrði mun auðveldari viðfangs, því bankarnir væru ekki að freistast til að auka stöðugt fjármagn í umferð.

Brotaforðakerfið er sveifluvaldandi og gefur einkabönkum einkaleyfi til að framleiða fjármagnið í landinu. Það er löngu tímabært að íhuga aðra valkosti. Hversu lengi ætlum við að sætta okkur við óstöðugleika, verðbólgu og að allt fjármagn í landinu sé fengið að láni á vöxtum frá bönkum sem búa það til úr engu?

Nánari upplýsingar um fulla bindiskyldu:
Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Full-reserve_banking

“Towards a 21st century banking and monetary system” :
http://www.positivemoney.org.uk/wp-content/uploads/2010/11/NEF-Southampton-Positive-Money-ICB-Submission.pdf