Birtist á mbl.is 18. janúar 2013
Lífeyrissjóðirnir munu þurfa að fjárfesta fyrir 128 milljarða á árinu 2013. Sú spurning vaknar hvort þeir geti í raun og veru komið svo miklu fé í ávöxtun án þess að kynda undir verðbólu í skráðum verðbréfum.
Er verið að skapa fleiri störf?
Lífeyrissjóðir mega lögum samkvæmt aðeins hafa 10% af eignasafni sínu í óskráðum verðbréfum. Það þýðir á mannamáli að aðeins 12 af þessum 128 milljörðum sem dregnir voru af launum landsmanna verða fjárfestir í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. En það eru einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki sem skapa flest ný störf í hagkerfinu. Það eru smá og meðalstór fyrirtæki sem greiða megnið af laununum sem iðgjöldin voru dregin af. Er eitthvað vit í því að taka peninga af þeim og láta sparisjóði setja þá í verðbréf stórfyrirtækja sem síðan ofrísa og falla á markaði?
Er næsta bóla byrjuð?
Það getur hljómað traustvekjandi að lífeyrissjóðir fjárfesti aðeins í fyrirtækjum sem hafa bolmagn til að skrá skuldabréf eða hlutabréf í kauphöll. Vandinn hérlendis er sá að það eru allt of fá fyrirtæki í kauphöllinni. Eftirspurn eftir bréfum skráðra fyrirtækja er því miklu meira en framboð og því ætti ekki að koma á óvart þótt verðið fari hratt hækkandi. Allt bendir til þess að við séum byrjuð að blása í næstu bólu.
Þetta þarf ekki að vera svona
Það er auðvitað mikilvægt markmið að hver kynslóð leggi í lífeyrissjóð fyrir sjálfa sig. Það er bara vandséð að sú kynslóð sem nú glímir við afleiðingar efnahagshruns og stökkbreytt íbúðalán hafi nokkurt bolmagn eða aðstöðu til að leggja í lífeyrissjóð hvað þá ávaxta hann með traustum hætti innan fjármagnshafta.
Hvernig væri nú að lækka iðgjöldin tímabundið um c.a. helming, þar til höftin hafa verið losuð og efnahagslífið hefur komist á lappirnar?