Aukinn séreignasparnað í stað hærri stýrivaxta

Screen Shot 2015-11-29 at 20.52.12Frá aldamótum hefur Seðlabankinn aðallega reitt sig á stýrivaxtatækið til að halda verðlagi stöðugu. Því miður fylgja hækkandi stýrivöxtum neikvæðar aukaverkanir, einkum þegar stýrivextir hér eru hærri en í öðrum löndum. Þess vegna er brýnt að innleiða fleiri stýritæki svo Seðlabankinn geti dregið úr ofnotkun stýrivaxtatækisins. Hér verður rætt um hvernig mætti nota breytilegan séreignasaparnað til sveiflujöfnunar.

Hvernig virka stýrivextir?

Stýrivextir eru vextir sem bönkum bjóðast á innlán og útlán sín í Seðlabankanum. Í dag býður Seðlabankinn bönkum 5,75% vexti á innlán sem eru bundin í 7 daga. Ef banki þarf að fá daglán í Seðlabanka eru vextirnir 7,5%. Banki veitir vart lán til viðskiptavina sinna á lægri vöxtum en hann fær hjá Seðlabankanum. Þannig setja stýrivextir Seðlabankans grunn að þeim vöxtum sem bankar eru tilbúnir að bjóða almenningi og fyrirtækjum.

Fræðin gera ráð fyrir að hærri stýrivextir dragi úr eftirspurn eftir lánsfé sem dregur þá úr neyslu og fjárfestingum sem dregur úr hækkun verðlags. Við bætist að þeir sem eru skuldugir þurfa að greiða hærri vexti en áður og hafa því minna aflögu til neyslu og þannig dregur einnig úr eftirspurn þeirra. Í reynd er verið að gera hluta ráðstöfunartekna skuldara upptækar og gefa þær bönkum í þágu verðstöðugleika. Þetta hentar bönkum vel enda hagnast þeir því meira sem stýrivextirnir hækka.

Helstu aukaverkanir stýrivaxta

Stýrivaxtahækkanir auka ójöfnuð í samfélaginu því þær bitna aðallega á skuldugum en gagnast fjárfestum eins og Vilhjálmur Birgirson verkalýðsleiðtogi benti á í nýlegum pistli. Almennt er ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði skuldugra en síðar á æfinni og því bitna stýrivextir harðar á ungum fjölskyldum. Ung og vaxandi fyrirtæki þurfa einnig á meira lánsfé að halda en þroskuð fyrirtæki og hækkandi stýrivextir geta hamlað eðlilegri fjárfestingu í uppbyggingu atvinnulífsins. Bent hefur verið á að hér þurfi að fjárfesta meira í tækni til að auka framleiðni vinnuafls, en slík fjárfesting borgar sig ekki ef vaxtastigið í landinu er of hátt.

Þegar stýrivextir hér eru umtalsvert hærri en í öðrum löndum getur það leitt til innstreymis á kviku erlendu fjármagni. Innstreymið getur leitt til styrkingar á gjaldmiðlinum umfram það sem raunhagkerfið getur staðið undir. Þá verða útflutningsgreinar ósamkeppnishæfar, neysla á innfluttum varningi vex úr hömlu. Viðskiptahalli getur orðið verulegur og það getur leitt til óhóflegrar skuldsetningar þjóðarbúsins. Of mikil skuldsetning getur leitt til þess að erlendir fjárfestar kjósi að forða sér úr landi og mikið magn af fjármagni streymir þá úr landi sem leiðir til gengisfallls. En vandamál hárra stýrivaxta eru fleiri.

Seðlabankinn tapar á háum stýrivöxtum

Eftir hrun hefur verið gnótt af lausu fé í bankakerfinu. Bankar hafa því ekki þurft á daglánum að halda frá Seðlabanka en hafa þess í stað ávaxtað hundruði milljarða í innlánum hjá Seðlabankanum sem hann greiðir nú 5,75% vexti af. Til að greiða vextina hefur Seðlabankinn þurft að búa til nýtt fjármagn sem bætist við vandann. Ég hef ítrekað bent á þetta og hvatt Seðlabankann til að nota vaxtalausa bindiskyldu til að draga úr tapinu, svipað og tíðkast hjá meirihluta erlendra seðlabanka. Seðlabanki Íslands hefur því miður ekki gripið til aðgerða og tapið heldur áfram.

Séreignasparnaður til sveiflujöfnunar

Í stað þess að hækka stýrivexti mætti draga úr eftirspurnarþenslu með því að hvetja eða skylda landsmenn til aukins sparnaðar. Slíkar hugmyndir hafa verið til skoðunar á Nýja Sjálandi þar sem háir stýrivextir hafa leitt til of mikillar styrkingar gjaldmiðilsins og fleiri vandkvæða. Með auknum séreignasparnaði er hægt að draga úr neyslu flestra en ekki bara þeirra sem skulda eins og gerist við stýrivaxtahækkun. Aukinn séreignarsparnaður gæti þannig dregið úr hækkun verðlags án þess að auka ójöfnuð. Með stýrivaxtahækkun færist aukið fé frá skuldara til lánveitenda og skuldarinn sér þá peninga ekki framar en með séreignasparnaði væri upphæðin lögð í sjóð sem er í eigu einstaklingsins sjálfs og gæti því nýst honum í framtíðinni. Með þessari leið myndu landsmenn leggja meira fyrir í góðærum í persónulegan varasjóð sem hægt væri að nota þegar á móti blæs.

Útfærslur

Taka þarf afstöðu til ýmissa atriða: Hver ætti að beita stýritækinu? Ríkisstjórnin, Seðlabankinn eða ætti sparnaðarhlutfallið að lúta fastri reglu út frá hagstærðum hvers tíma. Ákveða þarf hvort beita ætti skattalegum hvötum eða skyldu til að leggja í séreignarsjóð eða jafnvel nota blöndu af þessu tvennu. Einnig þyrfti að ákveða við hvaða skilyrði séreignasjóðurinn væri laus til ráðstöfunar fyrir einstaklinginn. Hugsanlega mætti taka til greina efnahagsleg skilyrði: hagvaxtarstig, verðbólgu, viðskiptajöfnuð. Breyttar aðstæður í lífi einstaklingsins gætu einnig réttlætt notkun sparnaðarins t.d. kaup á fyrstu eign, lækkun skulda, starfslok vegna aldurs eða áföll sem hafa áhrif á fjárhagslega afkomu einstaklingins. Í raun þyrfti ekki að taka langan tíma að greina kosti og galla við ólíkar útfærslur. Útfærslan gæti líka þróast eftir því sem reynsla kemur á þessa leið.

Það verður líklega seint vinsælt að beita stýritækjum sem draga úr þenslu. Almenningur er þó líklegri til að sætta sig við að spara meira ef valkosturinn er að greiða bönkum sífellt hærri vexti.