Það virðist algengt að aðalsamningamenn þeirra þjóða sem nýlega hafa gengið í Evrópusambandið, taki við æðstu embættum í sambandinu. Nokkrir þeirra hafa orðið fulltrúar í framkvæmdastjórn sambandsins, en lengra verður vart náð í Brussel enda launakjörin í samræmi við það.
Þessi háttur Evrópusambandsins, að bera aðalsamningamenn aðildarríkja á gullstóli í kjölfar aðildar, setur okkar ágæta aðalsamningamann í nokkuð undarlega stöðu.
Aðalsamningamaðurinn á auðvitað fyrst og fremst að gæta hagsmuna Íslands og vera hafinn yfir allan vafa um að hagsmunir hans fari ekki saman við hagsmuni Íslands. Samningamaður getur stundum þurft að sýna Evrópusambandinu talsverða hörku ef bestu samningar eiga að nást fyrir Íslands hönd. Vandinn er sá að þegar hann beitir Evrópusambandið hörðu, gæti hann þar með verið að útiloka sjálfan sig frá æðstu embættum innan Evrópusambandsins. Hafi hann á annað borð einhvern metnað til slíkra metorða.
Það er óheppilegt að setja aðalsamningamann í þá aðstöðu að hagsmunir hans og Íslands fari hugsanlega ekki saman að öllu leyti. Þótt Evrópusambandið virðist ekki sjá neitt óeðlilegt við slíka aðstöðu, þá ættum við að útiloka að sú staða sé uppi og þá er sama þótt samningamaðurinn sé traustur og drengur góður.
Hugsanlega hefur utanríkisráðherra vor þegar séð fyrir þessu og samið þannig við aðalsamningamanninn að hann myndi afsala sér öllum metorðastöðum hjá Evrópusambandinu eftir aðild. Kannski.
Það er reyndar engin ástæða til að ætla annað en að Stefán Haukur Jóhannesson, sem er okkar aðalsamningamaður, sé afar traustur. Það má meira að segja vel vera að hann hafi engann áhuga á metorðastöðum hjá Evrópusambandinu. En engu að síður tel ég óheppilegt fyrir alla aðila að setja nokkurn mann í aðstöðu sem felur í sér hagsmunaárekstur af þessu tagi.
Þetta má reyndar leysa, hafi það ekki þegar verið gert. Í ráðningarsamning mætti setja ákvæði í þessum dúr: „Ég heiti því að vinna að hagsmunum lands og þjóðar af heilindum… Komi til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið mun ég ekki taka við launuðu starfi hjá Evrópusambandinu næstu 20 árin.“ Kannski mætti láta nægja að útiloka „æðstu metorðastöður“ í slíku ákvæði, samkvæmt einhverri nánari skilgreiningu. Eflaust má útfæra þetta með ýmsum hætti – aðalatriði er að útiloka hagsmunaárekstur.
Svipað ákvæði mætti líka vera í erindisbréfum allra sem eru í samninganefnd okkar við Evrópusambandið. Hugsanlega mætti stytta tíma lægra settra samningamanna í 10 ár.
Aðildarsinnar, jafnt sem andstæðingar aðildar og samningamenn sjálfir, hljóta að fagna því ef hægt væri að taka af allan vafa um hagsmunaárekstra af þessu tagi.