Umsögn um 67. grein frumvarps um stjórnarskrá

Sent efnahags- og viðskiptanefnd 9. desember 2012

Umsögn um 67. grein frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 – Mál nr. 415.

Í 67. grein eru settar afar víðtækar takmarkanir við því hvaða málum kjósendur geti vísað til þjóðaratkvæðis. Þessar takmarkanir sem eru bæði matskenndar og ólýðræðislegar, munu fyrirsjáanlega leiða til vandamála.

Svo virðist sem Stjórnlagaráði hafi verið þessi hætta ljós, enda er í greininni tekið fram að ágreiningi um túlkunaratriði skuli vísað til dómstóla. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða óvissa, tafir og kostnaður bíður kjósenda sem þurfa að fara dómstólaleiðina til að fá skorið úr um slíkan ágreining.

Ákvæðið um að túlkun dómstóla skuli ráða hvort kjósendur fái að tjá sig um einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, virðist opna á þann möguleika að dómstólar fái óbeint löggjafarvald. Dómstólar geta endað í þeirri aðstöðu að þurfa að skera úr um hvort kjósendur megi beita málskoti eða frumkvæði um lagasetningu sem hafa myndi áhrif á dómstólana sjálfa beint eða óbeint. Slíkt fyrirkomulag gengur gegn þrískiptingu valdsins.

Þrátt fyrir að 67. gr. beri yfirskriftina “Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæða- greiðslu” þá segir greinin ekkert sem máli skiptir um framkvæmdina en vísar í staðinn þeim atriðum til löggjafans án fyrirvara eða leiðsagnar.

Að fenginni reynslu í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni (sjá viðauka) er einmitt full ástæða til að stjórnarskrá gefi stjórnvöldum og löggjafanum sem minnst svigrúm til að draga úr málskotsvaldi kjósenda með óheppilegri lagasetningu.

Það, að undanskilja ákveðna málaflokka málskots- og frumkvæðisrétti er takmörkun á beinu lýðræði og í raun lítt dulbúin mógðun við skynsemi almennra kjósenda. Það er lítil bót í því að forsetavaldið sé ekki háð sömu takmörkunum.

Það getur ekki verið ásættanlegt að þjóðin þurfi til framtíðar að reiða sig á afstöðu og kjark eins manns þegar hún telur nauðsynlegt að ganga gegn vilja Alþingis og vísa mikilvægum málum til þjóðaratkvæðis.

Virðingarfyllst,

Frosti Sigurjónsson, rekstrahagfræðingur
félagi í Advice hópnum