Um stóíska ró

Stóismi er forngrísk og rómversk heimspeki sem boðar stjórn á sjálfum sér og þolgæði til að sigrast á eyðileggjandi tilfinningum.

Stóisminn boðar að dyggðir (visdómur, hugrekki, réttlæti og hófsemi) séu atriði sem leiði til hamingjuríks lífs. Flest annað svo sem auður, heilsa eða orðspor sé hvorki góð né slæm en ekki eftirsóknarverð í sjálfu sér.

Stóistar vilja lifa í samræmi við náttúruna, sem fyrir mennina þýðir að lifa skynsamlega. Skynsemi manna er talin hluti af guðlegri skynsemi eða logos sem stjórnar alheimum.

Stóisminn kennir aðferðir til að hafa stjórn á viðbrögðum við ytri atburðum. Gerður er greinarmunur á því sem hægt er að stjórna (eigin huga og aðgerðum) og ytri atburðum sem ekki er hægt að stjórna. Með þessu móti er hægt að ná yfirvegun í tilfinningum.

Það er ekki markmið stóisma að stefna að tilfinningaleysi heldur að forðast að ýktar tilfinningar raski hugarró.

Stóisminn boðar að viðurkenna og sættast við allt sem gerist, sem það væri nauðsynlegt og gott.

Samkvæmt stóisma eru allir mikilvægur hluti af samfélagi og bræðralagi manna.

Grunnkenning stóisma er að skilja á milli þess sem er í okkar stjórn (aðgerðir okkar, ákvarðanir, dómar, langanir) og þess sem er það ekki (hvað aðrir gera, flestir ytri atburðir). Þessi skilningur hjálpar til við að draga úr áhyggjum og reiði.

Stóismi felur í sér daglega iðkun og íhugun t.d. hverju við getum ráðið og hverju ekki. Einnig að velta fyrir sér hvað sé hið versta sem gæti gerst, til að meta það sem maður hefur og undirbúa sig fyrir mótlæti.

Mælt er með því að skrifa dagbók um eigin hugsanir, markmið og aðgerðir til að meta persónulegar framfarir í átt að dyggðum.

Markmið stóismans er að lifa lífinu í samræmi við hlutverkin sem lífið færir manni (sem foreldri, borgari, vinur o.s.frv.) og gera allt af heilindum og skyldurækni.

Meðal þekktra stóískra heimspekinga má nefna Zeno frá Citium, Epictetus, Seneca og Marcus Aurelius. Skrif þeirra bjóða upp á hagnýt ráð um hvernig á að lifa lífi af dyggð, friði og skynsamlegri gleði þrátt fyrir áskoranir lífsins.

Hér er til fróðleiks stutt samantekt á efni ritsins Um Reiði („De Ira“) eftir rómverska heimspekinginn Seneca sem var uppi árið 4 fyrir Krist til 65 eftir Krist :

Seneca skilgreinir reiði sem hættulegt og órökrétt tilfinningaviðbragð sem stafar af tilfinningu um óréttlæti eða skaða. Hann telur reiði vera „stutt æði“ sem rænir fólk rökhugsun og veldur eyðileggingu, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Seneca segir reiðina vera eyðileggjandi tilfinningu sem leiðir til ógnarverka og grimmdar, sundrungar í samskiptum og samfélagi. Hann minnir á að taumlaus reiði geti auðveldlega leitt til óbætanlegra mistaka.

Seneca boðar að reiði sé hvorki náttúruleg né nauðsynleg. Hún sé ekki nauðsynleg til að leiðrétta óréttlæti. Rökrétt hugsun og skynsemi séu betri verkfæri. Reiði sé ekki hjálpleg við að verja mann sjálfan eða aðra, þar sem hún leiði iðulega til meiri ógnar en gagns.

Fólki ber að greina tilfinningar sínar og taka nægan tíma til að róast áður en það bregst við. Seneca bendir á að reiði stafar oft af því að væntingar fólks til annarra séu óraunhæfar. Með því að iðka sjálfsaga og heimspekilegar hugleiðingar getur fólk tamið sér hugarró. Að líta á óréttlæti sem hluta af lífinu hjálpar einnig fólki að viðhalda andlegu jafnvægi.

Að lokum má nefna að í ritinu Reiði segir Seneca sögur af fólki og goðum sem missa stjórn á sér vegna reiði með slæmum afleiðingum. Seneca líkir reiðinni við sjúkdóm og leggur áherslu á að enginn sé óhultur nema hann temji sér aga. Reiðin sé ekki merki um styrk heldur veikleika og sá sem nær að hemja skap sitt verði sannarlega sterkur og dyggur einstaklingur.