Peningaþenslan er komin af stað, aftur. Bankar hafa aukið laust fé í umferð um 10% á aðeins hálfu ári. Þessi þróun er áhyggjuefni og kallar á skjót viðbrögð. Í aðdraganda hrunsins óx peningamagn hratt, þrátt fyrir háa stýrivexti. Peningastefna Seðlabankans, sem á þeim tíma byggði á stýrivaxtatækinu, kom hvorki í veg fyrir gengdarlausa peningaþenslu bankanna, né það hrun er af henni leiddi. Hvað getum við lært af þeirri reynslu?
Bindiskylda er stýritæki sem Seðlabanki gæti beitt til að draga úr peningaþenslu. Bindiskylda hefur verið óbreytt 2% allt frá árinu 2003 en þá var hún lækkuð úr 4%.
Aukin bindiskylda gæti verið ódýrara tæki til að draga úr peningaþenslu, en það tæki sem Seðlabankinn beitir. Nú hefur Seðlabanki selt bönkum 120 milljarða af innstæðubréfum sem bera 5.7% vexti. Tilgangurinn með því er að binda laust fé. En kostnaðurinn við þetta stýritæki er gríðarlegur fyrir Seðlabankann. Samkvæmt tölum DataMarket er kostnaðurinn frá því í janúar 2009 til dagsins í dag orðinn 28 milljarðar. Sá kostnaður leggst á Ríkissjóð og þar með skattgreiðendur og heimilin í landinu.
Með virkri notkun bindiskyldu gæti Seðlabanki dregið úr peningaþenslu og jafnframt lækkað útgjöld sín um nokkra milljarða árlega. Vissulega á Seðlabankinn að vera sjálfstæður í mótun peningastefnu, en það þýðir ekki að hann eigi að vera undanskilinn því markmiði að ná sem bestum árangri án óþarfa útgjalda.