Katrín Júlíusdóttir tók við lyklunum að Fjármálaráðuneytinu í dag. Hún lét það verða sitt fyrsta verk að grafa undan trausti á gjaldmiðli þjóðarinnar í viðtali við Bloomberg fréttastofuna.
Bloomberg birti í dag frétt um ráðherraskiptin undir fyrirsögninni „Iceland sees end of krona days as joining euro only option“. Í fréttinni er víða vitnað orðrétt í fjármálaráðherrann. Afstöðu hennar má túlka þannig að krónan sé slæmur gjaldmiðill og lítil von um úrbætur, evran sé eina lausnin en hún standi ekki til boða í bráð.
Skynsamir erlendir fjárfestar sem lesa þannig frétt hljóta að forðast landið, ef þeir taka mark á orðum ráðherrans.
Allt bölsýnistal ráðherra um krónuna er til þess fallið að veikja gengið, eða draga úr styrkingu hennar. Veikari króna er tjón fyrir þjóðina sem þarf þá að leggja harðar af sér til að eiga fyrir erlendum varningi og skuldum.
Að lokum má benda á að afnám gjaldeyrishafta verður þeim mun erfiðara eftir því sem eigendur króna eru svartsýnni á þróun gjaldmiðilsins.
Það er erfitt að ímynda sér hvaða hagsmuna ráðherrann telur sig gæta með því að mála svo dökka mynd af framtíð krónunnar. Þetta er býsna alvarlegt mál og skylda Alþingis að krefja ráðherrann skýringa.
Það er mikið óþarfaverk að grafa undan trausti á krónunni, en það þýðir samt ekki að það sé æskilegt að „tala gjaldmiðilinn upp“ með óraunhæfu bjartsýnistali. Ráðherrann þarf að finna milliveg og forðast að baka þjóðinni tjón.
Hér eru nokkur ummæli ráðherrans úr frétt Bloomberg:
“There’s a risk that while Iceland continues to use the krona we’ll always have capital controls,”
“I’m not saying that it’s impossible to abolish the controls and re-float the krona by using other supportive measures. However, in my opinion, the smart thing to do is continue working toward European Union membership and euro adoption.”
“For a country that wants to have strong commercial links to the international community, it’s hard to utilize the krona as the country’s currency,”
“That’s a fact. Our currency is extremely volatile and sensitive toward external factors.”