Fjármögnun á netinu

Á þessu ári voru samþykkt lög í Bandaríkjamenn sem auðvelda aðgengi sprota- og smáfyrirtækja að fjármagni. Lögin ganga undir nafninu “Jumpstart Our Business Startups act” eða JOBS lögin.
Frá árinu 1933 hefur almenna reglan verið sú að hlutafélög mega ekki bjóða almenningi hlutabréf til kaups, nema þau séu skráð, sem er bæði dýrt og tímafrekt.
Með JOBS lögunum varð til undanþága sem vaxtarfyrirtæki geta nýtt til að afla fjármagns með sölu hlutafjár á internetinu, án þess að skylda stofnist til skráningar á markað. Undanþágunni er lýst í III. kafla JOBS laganna en hann fjallar um hópfjármögnun (e. Crowdfunding). 
Undanþágan er veitt með skilyrðum
Fyrirtæki má ekki afla meira en 1 m USD með hópfjármögnun á hverju 12 mánaða tímabili. Hámark er á því hvað hver fjárfestir má verja miklu til kaupa á hlutabréfum á ársgrundvelli. Þett hámark er miðað við tekjur og eignir umfram skuldir, og má ekki fara yfir 10% af þessum stærðum og þak er sett við 100.000 USD á ári.
Hlutabréf skal bjóða með milligöngu fjármögnunarvefs (e. funding portal) sem er uppfyllir kröfur SEC.
Kröfur til hlutafélaga – útgefenda
Útgefandi þarf að skila útboðsgögnum til SEC, til fjármögnunarvefsins og fjárfesta sem þarf að innifela: Nöfn innherja, viðskiptaáætlun, ársreikninga, lýsingu á því í hvað skal nota peningana, lágmarksfjárhæð útboðsins, söluverð hluta og hvernig það er ákveðið, sölulaun til fjármögnunarvefs og fleira.
Ekki má auglýsa hlutabréfin til sölu utan fjármögnunarvefsins, nema til fagfjárfesta.
Takist að ljúka fjármögnun er útgefanda skylt að skila ársreikningi árlega til SEC og fjárfesta.
Kröfur til fjármögnunarvefsvæða
Birta tilteknar upplýsingar og fræðsluefni fyrir fjárfesta, Kanna bakgrunn útgefanda og innherja. Tryggja að gögn liggi frammi í 21 dag áður en sala hefst. Halda peningum þar til uppgefið lágmarksölu er náð. Endurgreiða fjárfestum ef lágmarksala næst ekki á sölutímanum. Vernda persónuupplýsingar fjárfesta. Ekki ráða eða greiða laun til sölufólks.  Aðstandendur og stjórnendur fjármögnunarvefs mega ekki hafa hagsmuna að gæta hjá útgefendum sem nýta þjónustuna. Lögin fela SEC að setja nánari reglur um skyldur fjármögnunarvefs.
Lögin fela SEC (Securities and Exchange Commission) að setja nánari reglur um framkvæmdina. Nú er beðið eftir að þær reglur verði birtar, en verði þær of stífar er hætt við því að undanþágan missi marks.
Á Íslandi myndi hópfjármögnun, þ.e. sala hlutabréfa til almennings á netinu, líklega varða við lög um verðbréfaviðskipti. Ef hlutir eru boðnir fleiri en 100 almennum fjárfestum skapast skylda til að láta útbúa og birta vandaða lýsingu sem myndi kosta nokkrar milljónir í vinnslu.
Regluverkið gerir nær útilokað fyrir íslensk sprotafyrirtæki að afla hlutafjár hjá almenningi. Bankar lána ekki til sprotafyrirtækja og sjóðir eru fáir og geta ekki annað nema örfáum sprotum. Regluverkið heldur aftur af frumkvöðlum og verðmætasköpun, en við höfum tækifæri til að bæta úr því og JOBS lögin eru ágæt fyrirmynd.