Hefðbundnar ráðstefnur ganga jafnan þannig fyrir sig að fjöldinn allur mætir til að hlusta á fáeina sérfræðinga miðla af visku sinni um tilegin málefni. Það er gott, en einhver bandaríkjamaður fór samt að velta því fyrir sér allri þeirri þekkingu sem ráðstefnugestir hefðu að miðla hver öðrum.
óRáðstefna (e. unConference) gengur einmitt út á að stefna saman fólki til að ræða málin sín á milli, en hefðbundnum fyrirlestrum er gefið frí. Reyndar er einn stuttur fyrirlestur í byrjun þar sem leikreglur óRáðstefnu eru útskýrðar.
Þátttakendur mæta á óRáðstefnu til að miðla af reynslu sinni og leita svara við spurningum. Ekki er ákveðið fyrirfram hvaða málefni eru tekin fyrir, þátttakendur ákveða það bara sjálfir á staðnum.
Ef sem dæmi einhver er að velta því fyrir sér hvernig sé best að stofna fyrirtæki í Bandaríkjunum getur hann varpað þeirri spurningu inn í hópinn og þá gefa þeir sig fram sem hafa einhver svör og líka þeir sem vilja heyra svörin og umræðan er byrjuð.
Þannig verða til margir mismunandi málefnahópar samtímis. Fólk röltir á milli hópa og staldrar við í þeim hóp sem það getur spurt eða lagt til mála. Röltir svo áfram í næsta hóp þegar svörin eru komin eða byrjar nýjan hóp um nýtt viðfangsefni.
Þeir sem tekið hafa þátt í óRáðstefnum tala gjarnan um tækifærin sem skapast. Svör fást við spurningum, ný viðskiptasambönd verða til og jafnvel vísar að nýjum fyrirtækjum eða störfum.
Ekki veit ég til þess að óRáðstefna hafi verið haldin á Íslandi, en laugardaginn 3. nóvember mun Landsbankinn standa fyrir einni slíkri sem kallast Iceland Innovation Unconference 2012. Fjöldi fólks úr hinum ýmsu atvinnugreinum hefur boðað komu sína og ég ætla að nota tækifærið og spyrja það nokkura spurninga.