Landsbankinn, Arionbanki og Íslandsbanki eru taldir of stórir til að falla. Það þýðir að ef einhver þessara þriggja banka yrði gjaldþrota, þá myndi ríkissjóður koma til bjargar og lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.
Það má segja að á innstæðum í þessum þrem stærstu bönkum verði ekki komist hjá ríkisábyrgð. Eðlilegt væri því að þessir bankar greiddu ríkisábyrgðargjald í ríkissjóð í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt gjald myndi skila nokkrum milljörðum í ríkissjóð og jafna aðstöðu á bankamarkaði.
Njóti banki ríkisábyrgðar í reynd, án þess að greiða ríkisábyrgðargjald, þá má jafna ábyrgðinni við ríkisstyrk. Það er vafamál hvort tilefni sé til að ríkið styrki stærstu bankana sérstaklega og spurning hvort smærri bankar, sem ekki njóta sömu fyrirgreiðslu, eigi að sætta sig við slíka mismunun á markaði.
Í hruninu lýsti þáverandi ríkisstjórnin því yfir á ögurstundu að ríkisábyrgð væri á öllum innstæðum í innlendum bönkum. Yfirlýsingin dugði til þess að stöðva peningaflótta úr bönkunum. Hún bindur þó vart ríkissjóð, þar sem hún var aldrei samþykkt sem lög frá Alþingi. Ekki veit ég til þess að bankar hafi greitt ríkisábyrgðargjald vegna yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna mætti afturkalla til að taka af allan vafa í hugum fólks.
Innstæðutryggingasjóði er ætlað að koma innstæðuhöfum til bjargar ef banki fellur. Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem bankar greiða og á honum er ekki bakábyrgð ríkisins. Í hruninu voru um 20 milljarðar í sjóðnum, sem hefði kannski dugað til að bjarga litlum banka eða sparisjóði, en ekki neinum af stóru bönkunum.
Ríkissjóður mun því þurfa að hlaupa undir bagga ef stór banki fellur, jafnvel þótt bankinn hafi greitt samviskusamlega í tryggingasjóð innstæðna.
Ríkisábyrgð á innstæðum í stóru bönkunum virðist því miður óumflýjanleg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Best væri því að horfast í augu við þá staðreynd, skilgreina ríkisábyrgðina nánar og sjá til þess að stóru bankarnir greiði vegna hennar sanngjarnt gjald í ríkissjóð.
Innstæður í stóru bönkunum 30.6.2013
Arion banki 467 milljarðar
Íslandsbanki 476 milljarðar
Landsbanki 449 milljarðar
Samtals: 1.392 milljarðar
Ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast allar þessar innstæður. Líklega gæti meiri hluti þessara innstæðna beðið á meðan fallinn banki væri settur í gjaldþrotameðferð. Takmarka þyrfti ábyrgðina við þær innstæður sem brýnast væri að tryggja. Til dæmis mætti hugsa sér að hámarkstrygging á hvern einstakling væri 3 milljónir kr. og hjá lögaðilum mætti tryggja innstæður að hámarki 3 milljónir á hvert stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þannig gæti stór hluti einstaklinga og fyrirtæki þraukað, kannski í 3-6 mánuði, á meðan greitt væri úr mesta vanda bankans, eða eignir hans seldar upp í forgangskröfur.
Mjög gróft áætlað, mætti líklega takmarka ríkisábyrgð á innstæðum stóru bankanna við 4-500 milljarða í heild. Með því mætti afstýra mesta tjóninu af falli stórs banka. Væri ríkisábyrgðargjaldið 1% af þeirri fjárhæð myndi það skila 4-5 milljörðum árlega í ríkissjóð.