Því hefur verið haldið á lofti sem kosti að smáríki hafi hlutfallslega meiri áhrif innan ESB en ef eingöngu væri miðað við íbúafjölda. Þegar Lissabon sáttmálinn, hin nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins, tók gildi 1. desember árið 2009 varð ljóst að áhrif fámennari aðildarríkja Evrópusambandsins myndu skerðast verulega.
Neitunarvald er eitt sterkasta tækið sem smáþjóð getur beitt til að fá sitt fram eða standa gegn ákvörðunum sem varða hagsmuni þess. Tilvist neitunarvalds knýr aðila til að komast að samkomulagi. Með gildistöku Lissabon sáttmálans féll neitunarvald niður á 68 sviðum. Í stað þess að allir þurfi að vera samþykkir mun meirihluti duga til ákvörðunar og þar ræðst atkvæðamagn af fjölda íbúa. Þegar neitunarvald er fellt niður bitnar það fyrst og fremst á áhrifum fámennra aðildarríkja ESB.Atkvæðamagn í ráðherraráðinu skal framvegis miðast við mannfjölda
Með Lissabon breytist atkvæðavægi við ákvarðanatöku stórveldum í hag. Sem dæmi: áður hafði Írland 7 atkvæði í ráðherraráðinu (2,0%) en Þýskaland 29 atkvæði (8,4%). Frá og með 1. nóvember 2014 verður atkvæðamagn hins vegar miðað við mannfjölda og þá fær Írland 0,89% atkvæða en Þýskaland 16,41% atkvæða – Þetta þýðir að áhrif Þýskalands tvöfaldast en áhrif Írlands minnka um 60%. Malta hafði áður 0,9% atkvæða en missir rúm 90% þeirra og fer í 0.08%Hvernig gátu smáríkin fallist á Lissabon sáttmálann?
Niðurfelling neitunarvalds og breytt atkvæðamagn felur í sér stórkostlega rýrnun á áhrifum smáríkja innan ESB. Það er með algerum ólíkindum að smáríkin skyldu samþykkja sáttmála sem skerti áhrif þeirra svona gríðarlega. Hvað voru þau eiginlega að hugsa? Hvers vegna fór Lissabon sáttmálinn ekki í þjóðaratkvæði neins staðar nema á Írlandi fyrst hann breytti svona miklu?
Frekari skerðing í kortunum
Því miður er full ástæða til að óttast að áhrif smáríkja skerðist enn frekar í framtíðinni án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslna komi. Ennþá hafa smáríkin 1 fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB, eins og stóru ríkin. Það stóð reyndar til að fækka fulltrúum úr 27 í 20 með Lissabon sáttmálanum en Írar felldu hann í þjóðaratkvæði og þá var hætt við að fækka fulltrúum. Hins vegar varð sú breyting að í stað þess að hvert land geti tilnefnt einn fulltrúa í framkvæmdastjórnina munu þau aðeins gert “tillögu” að fulltrúa en framkvæmdastjórnin sjálf mun eiga lokaorðið um hverjir veljast í hana. Þannig er nú það.
Ísland yrði áhrifaminnsta aðildarríkið
Hvað sem minnkandi vægi smáríkja líður þá yrði Ísland lang-áhrifaminnsta aðildarríkið. Íbúafjöldi gefur Íslandi aðeins 0.062% atkvæðamagns í ESB. Íbúar ESB eru líka 1.607 sinnum fleiri en Íslendingar og einnig má nefna að meðalríki í ESB er 60 sinnum fjölmennari en Ísland. Ísland yrði sannkallað dverg-aðildarríki og með áhrif í samræmi við það.
Evrópusambandið hefur verið í sífelldri þróun frá upphafi og líklegast er að hún haldi áfram. Eitt af meginmarkmiðum ESB er sífellt nánari samruni aðildarríkja. Lissabon sáttmálinn fól í sér nánari samruna á fleiri sviðum en líka stórfellda rýrnun á áhrifum smærri aðildarríkja . Það er vissara að reikna með að næstu sáttmálar gangi lengra í sömu átt.
Niðurstaðan er sú að sem aðili að ESB myndi Ísland ekki hafa nein teljandi áhrif og erfitt að ímynda sér að afstaða Íslands myndi skipta úrslitum í nokkru máli. Önnur aðildarríki munu því varla sjá sér mikinn ávinning í því að tryggja sér stuðning okkar og við getum því ekki vænst sérstaks stuðnings frá þeim. Hagsmunir hinna stóru munu ráða för.
Ef við göngum í ESB verðum við að trúa því að okkar hagsmunir muni alltaf fara saman við hagsmuni hinna stóru því innan ESB munum við ekki hafa áhrif, hvorki til að stöðva ákvarðanir sem eru okkur í óhag né koma í gegn ákvörðunum sem verja hagsmuni Íslands sérstaklega. Er það óhætt?