Nú er rúmt ár síðan Össur afhenti stækkunarstjóra ESB umsókn (Samfylkingarinnar) í Evrópusambandið. Hvað sem samningum og undanþágum líður þá snýst þetta mál fyrst og fremst um aðild Íslands að ESB. Ef við eigum að móta okkur upplýsta afstöðu til aðildar þá þurfum við að skilja reglurnar eins og þær eru – en hvenær fáum við að sjá þær?
Segja má að Lissabon sáttmálinn innihaldi leikreglur ESB klúbbsins. Hann er nýjasti sáttmáli Evrópusambandsins og byggir á stjórnarskrá þess sem tók reyndar aldrei gildi enda var henni hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi.Þótt Lissabon sáttmálinn sé nánast samhljóða hinni óvinsælu stjórnarskrá ESB þá var ákveðið að bera hann ekki undir þjóðaratkvæði í aðildarríkjunum. Ekki er víst að íbúar aðildarríkjanna hefðu samþykkt sáttmálann og framkvæmdastjórn ESB taldi greinilega vissara að láta ekki á það reyna.Þjóðþing aðildarríkjanna samþykktu flest sáttmálann nema í Írlandi en írsk lög kröfðust þjóðaratkvæðis. Svo fór að írska þjóðin hafnaði sáttmálanum. ESB breytti þá sáttmálanum lítillega, efldi kynningarstarfið verulega og ári síðar var kosið aftur. Þá sögðu Írar já og Lissabon sáttmálinn varð staðreynd.
Þess má reyndar geta að þjóðþing aðildarlandana fengu aldrei að sjá Lissabon sáttmálann í heild sinni áður en þau samþykktu hann. Þess í stað var sáttmálinn lagður fram sem 3000 breytingatillögur við óteljandi eldri lagagreinar. Því verður vart trúað að margir hafi lesið eða skilið efnið og kannski var það einmitt ætlun forystumanna ESB að sem fæstir gætu kynnt sér það.
Nú er hægt er að finna Lissabon sáttmálann á netinu á erlendum málum en Utanríkisráðuneytið hefur af einhverjum ástæðum ekki séð ástæðu til að þýða þessan mikilvæga sáttmála sambandsins á Íslensku eða kynna hann þjóðinni. Öll töf á þýðingu sáttmálans á Íslensku styttir að sjálfsögðu þann tíma sem Íslendingar hafa til að kynna sér og skiptast á skoðunum um grundvallarleikreglur ESB klúbbsins. Er það kannski meiningin?
Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn getað upplýst hvenær Lissabon sáttmálinn verður aðgengilegur á Íslensku.
Í lokin er rétt að velta því fyrir sér hversu margir af þeim þingmönnum sem studdu aðildarumsókn Íslands í ESB höfðu áður lesið og skilið Lissabon sáttmálann?