Hvað kostar að ganga úr ESB?

Það er vissara að gera sér grein fyrir því hvort það er yfirleitt hægt að ganga úr ESB ef við göngum þar inn. Samfylkingin afgreiðir þessa spurningu vef sínum með þessum orðum:

Rétt er:

Engin ESB-þjóð hefur óskað eftir að segja sig úr ESB – nema Grænlendingar sem gengu úr ESB árið 1985. Þeir njóta þó óbeinna ávinninga af aðild – þar með af tengingu við evruna – með ríkjasambandi sínu við Danmörku. Úrsögn Grænlendinga var vandalaus á sínum tíma. Ekkert formlegt úrsagnarákvæði er þó í samningum ESB, en slíkt ákvæði er að finna í Lissabonsamningnum frá 2007 sem enn bíður staðfestingar.

Ljóst er að úrsögn er engum pólitískum vandkvæðum háð – en það er athyglisvert að slíkur kostur er ekki ræddur í alvöru í neinu ESB-ríki, jafnvel ekki Bretlandi þar sem aðildin hefur verið hvað umdeildust.

Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985. Grænland er auðvitað hluti af Danaveldi og þetta þýðir því í raun að Danmörk hafi ákveðið að halda hluta af sínum auðlindum utan ESB. Hvers vegna gera þeir það?

Samfylkingin hefur ekki áhyggjur af „pólitískum vandkvæðum“ við úrsögn. En hvað þá með efnahagsleg vandkvæði? Á ekki að svara því líka?

Það að úrsögn sé ekki á dagskrá hjá neinu ESB ríki getur seint talist gott svar við spurningunni um hvort það sé hægt að ganga út úr ESB.

Staðreyndin er sú að innganga í ESB myndi ógilda þá milliríkjasamninga sem Ísland á við önnur lönd enda tækjum við upp þá samninga sem ESB hefur gert. Það hefur tekið áratugi að byggja upp þessa milliríkjasamninga og þeir verða ekki endurvaktir við það eitt að ganga aftur úr ESB.

Við úrsögn myndi Ísland ekki geta tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið, heldur værum við á byrjunarreit í utanríkismálum. EES samningurinn væri ekki lengur til. Úrsögn úr ESB myndi þýða einangrun og gríðarlega óvissu. Það er óhemju slæm staða.

Auk þess væri Evran ekki lengur í boði og við yrðum að taka upp aðra mynt eða endurvekja krónuna. Úrsögn úr ESB þýðir því algera óvissu í gengismálum.

ESB hefur engan hag af því að gera úrsögn eitthvað auðvelda fyrir aðildarríki ESB.

Samfylkingunni hlýtur að vera ljóst að það er nánast óhugsandi að segja sig úr ESB ef við göngum þar inn. Hvers vegna kýs hún þá að segja kjósendum að það sé „engum pólitískum vandkvæðum háð“ ?

VöruflokkarESB