Fjármálakreppur eru býsna algengar. Um 100 lönd hafa gengið gegnum fjármála- eða gjaldmiðilskreppu á undanförnum 40 árum. Því miður bendir fátt til þess að slíkar kreppur séu úr sögunni. Það mætti vissulega gera ýmislegt til að minnka líkur á kreppum, en í þessum pistli verður hins vegar rætt um hugmynd þeirra Markus Miller’s og Joseph Stiglitz um hvernig megi draga úr því tjóni sem kreppum fylgir.
Við venjulegar aðstæður er ólíklegt að vel rekin fyrirtæki lendi í gjaldþroti. En þegar efnahagsáfall dynur yfir geta tugir þúsunda aðila lent í vanskilum samtímis óháð því hvernig staðið var að rekstrinum. Gjaldþrotaleiðin er dýr og tekur langan tíma að ljúka hverju búi. Sé sú leið farin með stóran hluta atvinnulífsins, getur það í sjálfu sér leitt til keðjuverkana, þannig að enn fleiri fyrirtæki fari á hausinn, atvinnuleysi verði enn meira og kreppuaástand vari mun lengur. Því má halda fram að þannig tapi kröfuhafar mun meiru en ef þeir hefðu strax gefið afslátt af kröfum sínum og þannig haldið sem flestum fyrirtækjum í rekstri.
Hugmynd Miller’s og Stiglitz gengur einmitt út á setja í lög ákvæði um hálf-sjálfvirka lækkun allra skulda ef gjaldmiðill lands fellur umfram viss mörk. Þeir hafa sýnt framá að slík almenn skuldalækkun fækki mjög þeim fyrirtækjum sem fara í þrot, hagkerfið nái sér þannig fyrr eftir áfallið og kröfuhafar fái þegar upp er staðið meira upp í kröfur.
Þeir Miller og Stiglitz segja lítið um hvernig eigi að útfæra slíka löggjöf. Væntanlega þyrfti að ákveða hve mikið gjaldmiðill þyrfti að falla, eða þjóðartekjur að dragast saman, til að vera til að virkja ákvæði um lækkun skulda. Einnig þyrfti að tilgreina hvað skuldir myndu lækka mikið við tiltekið fall og fleira í þeim dúr.
Miller og Stiglits kynntu þessa hugmynd fyrst árið 1998. Það hefði án efa verið til bóta ef þannig ákvæði hefði verið til staðar í hruninu 2008, það hefði dregið úr gjaldþrotum og atvinnuleysi. Lærum nú af reynslunni og setjum hér lög um sjálfvirka skuldaleiðréttingu í tæka tíð fyrir næstu kreppu.
Heimild:
Bankruptcy protection against macroeconomic shocks: the case for a “super Chapter 11” Marcus Miller, University of Warwick and Joseph Stiglitz World Bank Revised December 1999