Skuldir heimila geta lækkað um 1-2% með því að tilgreina álag vegna greiðslukorta

visamasterVerðtryggðar skuldir heimilanna voru ríflega1.400 milljarðar í mars á þessu ári. Miðað við það myndi lækkun neysluvísitölu, þótt ekki væri nema um eitt prósent lækka skuldir heimila um heila 14 milljarða. Það er einmitt hugsanlegt að hægt sé að ná fram slíkri lækkun einfaldlega með því að kaupmenn breyti venjum sínum og hætti að innifela álag vegna kortaviðskipta í almennu söluverði.

Í verslun og viðskiptum hér á landi innifelur almennt verð sérstakt álag vegna greiðslukortaviðskipta. Uppistaðan í álaginu er fjármagnskostnaður sem kaupmaður þarf að bera vegna greiðslufrests til þeirra neytenda sem greiða með greiðslukortum (t.d. VISA). Hagstofan hefur stuðst við almennt verð í sínum verðmælingum enda ekki öðru til að dreifa. Ef við gefum okkur að álag vegna greiðslukortaviðskipta liggi á bilinu 1-2% af vöruverðinu er ljóst að lánskjaravísitalan myndi lækka um 1-2% ef álagið væri tekið út úr almenna verðinu. Það gæti skilað 10 – 20 milljarða lækkun á skuldum heimilanna.

Eftir breytinguna, myndu aðeins þeir sem staðgreiða með debetkortum eða peningum fá hið almenna verð. Það verð innihéldi ekkert álag vegna lánsviðskipta og væri því lægra sem því nemur. En þeir sem greiddu með greiðslukorti myndu greiða álag, líklega 1-3% eftir atvikum. Slíkt álag vegna greiðslukorta tíðkast víða erlendis.

Skýringin á fyrirkomulaginu hér á landi virðist felast í viðskiptaskilmálum greiðslukortafyrirtækjanna. Í viðskiptaskilmálum Valitor eru línurnar lagðar:

6.1 Söluaðila er skylt að veita þeim sem greiða með gildum greiðslukortum sömu viðskiptakjör eða betri og hann veitir þeim sem greiða með öðrum greiðslumiðlum.
Óheimilt er að hækka verð á vöru eða þjónustu þegar kaupandi framvísar greiðslukorti við kaup.
6.2 Engin lágmarksfjárhæð er í viðskiptum þegar greitt er með greiðslukorti.
6.3 Söluaðila ber, þegar verð er auglýst eða sett fram á sölustað, að gæta þess að fram komi hið almenna verð sem öllum viðskiptavinum stendur til boða.
Söluaðila er í sjálfsvald sett hvort hann auglýsir samhliða staðgreiðsluafslátt. Veiti söluaðili staðgreiðsluafslátt skulu þeir sem greiða með innlendum debetkortum njóta hans. Auglýsi söluaðili eða setji fram aðeins eitt verð má viðskiptavinur sem framvísar greiðslukorti líta á það sem hið almenna verð er honum stendur til boða og má í engu tilviki hækka það.

Það kemur reyndar þægilega á óvart að viðskiptaskilmálar Borgunar banna ekki seljanda að leggja álag á verð vegna greiðslu með korti.

6.1 Ákveði seljandi að leggja álag á endurgjald fyrir selda vöru eða þjónustu vegna greiðslu með korti, skal koma skýrt fram á fyrstu stigum viðskipta að lagt sé á álag og hvert það sé. Álag skal á hverjum tíma endurspegla kostnað af viðskiptunum.

Vandinn virðist því liggja Valitor meginn.

[Viðbót 21. ágúst: Málið er samt flóknara og vandinn liggur ekki hjá Valitor, heldur í lögum um greiðsluþjónustu nr. 120 / 2011. Þar stendur í 3. mgr. 47. gr að „Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.“ Valitor túlkar þetta ákvæði þannig að þeir sem greiða með greiðslukorti skuli ekki greiða álag hjá kaupmanni vegna þess og vísa til greinargerðar með lögunum. Lög þessi byggja á EU tilskipun 2007/64/EC „on payment services in the internal market“ Þar stendur í 3. tölulið 52. greinar:

The payment service provider shall not prevent the payee from requesting from the payer a charge or from offering him a reduction for the use of a given payment instrument. However, Member States may forbid or limit the right to request charges taking into account the need to encourage competition and promote the use of efficient payment instruments.

Af þessu ákvæði er ljóst að Íslandi er í sjálfsvald sett hvort það setur takmörk eða bönn við álagi vegna tiltekins greiðslumiðils eða ekki. Við innleiðingu tilskipunarinn var hins vegar ákveðið að innleiða bannið, sem að mínum dómi er ekki neytendum í hag.

Það er að sjálfsögðu æskilegt að fólk sem greiði með debet korti fái að njóta sama verðs og fólk sem greiðir með peningum. Enda er í báðum tilfellum er um staðgreiðslu að ræða, en sé greitt með greiðslukorti (e. credit card) er hinsvegar um greiðslufrest að ræða og sá sem fær greiðslufrestinn á að mínum dómi að bera vaxtakostnaðinn af því, en ekki þeir sem staðgreiða eins og nú er.]

Ávinningurinn af því að birta almennt verð án greiðslukortaálags væri mikill. Ekki bara vegna þess að skuldir heimilanna gætu lækkað um 10-20 milljarða. Breytinging gæti líka verið hvati til meiri sparnaðar hjá neytendum. Þegar kostnaðurinn við greiðslukortin yrði augljós og neytendur hefðu val um að spara sér hann, myndu væntanlega fleiri en áður kjósa staðgreiðslu og sleppa við að greiða dulinn fjármagnskostnað í útgjöldum sínum.