Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til laga sem ætlað er að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt því munu nýsköpunarfyrirtæki fá skattfrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og þeir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum geta fengið skattafslátt. Því miður gengur frumvarpið svo skammt að ólíklegt má telja að það hafi teljandi áhrif á nýsköpun í landinu þótt það verði að lögum.
Það ber þó að taka viljann fyrir verkið og enn er von til þess að bætt verði úr ágöllum enda þarf ekki að breyta miklu til að lögin skili tilætluðum árangri, störfum fjölgi og tekjur ríkissjóðs aukist.
Upphafsgrein lagana mætti vera skýrari en hún lýsir markmiðinu sem er „að bæta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknar- og þróunarstarf“. Skýrara væri ef þarna kæmi líka fram eitthvað mælanlegt markmið eins og t.d. „að skapa 1000 ný störf í nýsköpun á árinu 2010“.
Óljós skilyrði
Því miður eru skilyrðin óljós og flókin og fyrirtæki geta ekki verið viss um það fyrirfram hvort þau uppfylla skilyrðin eða ekki. Rannís er því falið að meta hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði lagana. Rannís gæti þurft marga mánuði til verksins. Á meðan bíða fyrirtæki í óvissu.
Það væri mun betra ef skilyrðin væru svo skýr að flest fyrirtæki gætu beðið endurskoðanda sinn að skera úr um málið. Rannís gæti þá einbeitt kröftum sínum að því að skera úr um þau jaðartilfelli sem upp koma.
Útilokar flest sprotafyrirtæki
Skilyrði fyrir skattfrádrætti vegna þróunarkostnaðar eru m.a. þau að fyrirtækið leggja út 20 mkr til rannsókna- og þróunar á komandi 12 mánuðum. Þetta útilokar fyrirtæki sem hafa færri en 3-4 við rannsóknarstörf.
Fyrirtæki þurfa að vera enn stærri til þess að kaupendur að hlutabréfum þeirra njóti skattfrádráttar. Þau skulu hafa varið 40 milljónum á ári til rannsóknar- og þróunar undanfarin tvö ár. Þetta útilokar augljóslega fyrirtæki sem eru yngri en tveggja ára og væntanlega líka þau sem hafa haft færri en 8 starfsmenn í þróunarstörfum undanfarin tvö ár.
Það verður að teljast afar óheppilegt ef lögin nýtast ekki smærri fyrirtækjum með stutta sögu t.d. þeim fjölmörgu sprotafyrirtækjum sem hafa sprottið upp í kjölfar hrunsins.
Skiptir litlu máli fyrir stærri fyrirtæki
Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um frádrátt vegna þróunarkostnaðar geta dregið 15% af útlögðum kostnaði frá skatti. Þó er sett hámark við 50 mkr. sem þýðir að hámarks frádráttur fyrir hvert fyrirtæki er ekki nema 7.5 milljónir sem er rúmlega kostnaður við einn auka starfsmann á ári.
Stærri fyrirtæki munu því ekki ráða marga nýja starfsmenn á grundvelli þessara laga, sem er mjög miður.
Hámörk skattafsláttar vegna fjárfestingar eru allt of lág
Einstaklingar geta árlega dregið frá skattskyldum tekjum sínum 300 þúsund kr. af kaupverði nýrra hlutabréfa í nýsköpunarfélögum. Þessi upphæð er því miður allt of lág. Nýsköpunarfyrirtæki þyrfti samkvæmt þessu að afla 20 nýrra hluthafa til að fjármagna eitt stöðugildi við rannsóknir. Það væri miklu vænlegra ef fjárhæðin væri 1-3 milljónir á mann.
Lögin gefa heldur ekkert svigrúm fyrir rekstur sjóðs til að fjárfesta í Nýsköpunarfyrirtækjum en slíkur sjóður gæti boðið einstaklingum áhættudreifingu, lagt faglegt mat á fyrirtækin og þau myndu fá einn stóran hluthafa í stað fjölmargra smárra. Þetta er galli.
Hvers vegna þrenn áramót?
Það má færa góð rök fyrir því skilyrði að fólk eigi hlutabréfin yfir tvenn áramót en krafa um eignarhald yfir þrenn áramót (rúmlega tvö ár) gerir lítið annað en að fæla einstaklinga frá því að taka þá áhættu sem felst í því að kaupa hluti í nýsköpunarfélögum. Sjá Mál 82
Hvers vegna svona flókið?
Þessi lög eru sögð byggja á Norskri fyrirmynd. Ekki vil ég amast við því að við leitum í reynslubanka nágrannaþjóða, en kannski er þetta kerfi ekki einfaldasta leiðin til að ná markmiðinum.
Ef menn vilja hvetja Nýsköpunarfyrirtæki til að vera djarfari í sókn og atvinnusköpun þá mætti líka læra af reynslu frænda okkar í Kanada. Þar fá nýsköpunarfyrirtæki einfaldlega endurgreidd 30% af útborguðum launum við rannsóknir þróunarstörf. Nánast sama fjáræð og starfsmaðurinn greiðir í tekjuskatta. Ekkert hámark eða lágmark á fjölda starfsmanna. Kerfið er einfalt og öll nýsköpunarfyrirtæki sitja við sama borð.