Eins og fram kom í pistli í lok júní á þessu ári, þá sendi Efnahags- og viðskiptanefnd skriflega fyrirspurn til Fjármálaeftirlits um viðskiptahætti Dróma og hvort þeir væru í samræmi við lög.
Í svari Fjármálaeftirlitsins til nefndarinn kom meðal annars fram að Fjármálaeftirlitið hefði mál Dróma til athugunar. Þann 29. október birti svo Fjármálaeftirlit gagnsæistilkynningu á heimasíðu sinni þar sem greint er frá athugun á starfsháttum Dróma hf. Þar kemur fram að eftirlitið telur Dróma ekki fara að lögum og að Drómi hyggist kæra þá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins.
Í gagnsæistilkynningu FME segir meðal annars:
Athugunin leiddi í ljós að Drómi hf. hefði ekki hlutast til um afléttingu veðbanda þegar krafa hefði talist að fullu greidd miðað við endurútreikning þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 18. gr. vaxtalaga. Jafnframt kom í ljós að Drómi hf. hefði í einu tilviki afturkallað endurútreikning, en í því máli hafði lánþegi stefnt félaginu til afléttingar veðbanda sem hvíldu á eign hans í samræmi við 6. mgr. 18. gr. vaxtalaga.
Drómi hf. telur sig óbundinn af ákvæðum vaxtalaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 þar sem tiltekin ákvæði þeirra brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
Hlutverk dómstóla er að úrskurða um hvort lög teljist samræmast stjórnarskrá. Eftirlitsskyldir aðilar þurfa að gæta þess að hlíta lögum sem sett hafa verið með stjórnskipulega réttum hætti, þ. á m. vaxtalögum. Ef eftirlitsskyldur aðili telur að lög standist ekki ákvæði stjórnarskrár þarf viðkomandi aðili að láta reyna á þá afstöðu fyrir dómstólum.
Í niðurlagi tilkynningarinnar kemur fram:
Því lagði Fjármálaeftirlitið fyrir Dróma hf. að grípa til ráðstafana í samræmi við ofangreinda niðurstöðu og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir þeim.
Athygli er vakin á því að Drómi hf. hefur ákveðið að höfða mál til ógildingar á framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Þar til niðurstaða fæst úr málshöfðun Dróma á hendur eftirlitinu, Dróma að vera skylt að fara að gildandi lögum og tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Annars getur Fjármálaeftirlitið gripið til viðeigandi ráðstafana svo sem dagsekta, stjórnvaldssekta eða beint kröfu til Héraðsdóms um að slitastjórn verði vikið frá í hluta eða heild.