Á vefsíðu ESB um stjórnun fiskveiða má finna vinnublað sem telur upp helstu ágallana við sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þar kemur m.a. fram að 88% af fiskistofnum eru ofveiddir, þar af eru 30% stofna að hruni komnir. Auk gegndarlausrar ofveiði eru önnur helstu vandamál offjárfesting í skipum, óhóflegt brottkast, ólöglegar veiðar og almennur taprekstur í greininni svo eitthvað sé nefnt.
Fiskveiðistefna ESB leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hefur síðan þá verið endurskoðuð á 10 ára fresti nú síðast árið 2002. Þær úrbætur sem þá voru lagðar til hafa enn ekki komist í framkvæmd nema að litlu leyti.
Það hefur aldrei vantað vilja hjá Brussel til að innleiða góða fiskveiðistefnu. Árangurinn hefur hins vegar vantað.
Þótt ekki hafi enn tekist að koma úrbótum frá 2002 í framkvæmd er nú lagt í að ræða frekari úrbætur sem skuli innleiða árið 2012. Stefnumiðin hljóma eins og áður mjög vel, en í ljósi reynslunnar er vissara að fóstra efasemdir um árangurinn.
Fyrir þá sem vilja lesa sér til er upplagt að lesa Grænbókina Reform of the Common Fisheries Policy sem kom út þann 22. apríl sl. (28 bls.)
Nokkuð hefur borið á þeim misskilningi að ef Íslendingar ganga án tafar í ESB geti þeir haft mikil áhrif á þær úrbætur sem gerðar verða á fiskveiðistefnu sambandsins árið 2012. Þetta er ekki alls kostar rétt. Þótt við gætum viðrað skoðanir okkar munu raunveruleg áhrif á stefnu ESB fara algerlega eftir íbúafjölda landsins. Ísland mun ekki ná neinu í gegn sem ESB finnst ekki góð hugmynd hvort sem er.
Jafnvel þótt farið yrði að ráðum Íslendinga er ekki víst að það myndi duga. Getuleysi ESB til að framfylgja eigin fiskveiðistefnu í gegnum tíðina vekur ekki traust.