Það virðist sjálfgefið að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flýta rafbílavæðingu á Íslandi. Við eigum nóg af rafmagni en þurfum að flytja inn bensín og díselolíu á núverandi bílaflota. En málið er ekki alveg svona einfalt.
Rafbílar eru verulega dýrari í innkaupum (gjaldeyri) en sambærilegir bensín- og díselbílar. Bensín- og díselbílar þurfa hinsvegar innflutt eldsneyti allan líftímann. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er innkaupsverð bensínbíls plús allt það bensín sem þarf að kaupa inn á líftíma bílsins, mun lægra en innkaupsverð rafmagnsbíls. Munurinn er verulegur en fer vonandi lækkandi eftir því sem rafbílatæknin verður ódýrari.
Um leið og rafbílar verða þjóðhagslega hagkvæmari en bensínbílar er sjálfsagt að stjórnvöld stilli aðflutningsgjöld þannig að rafbílar verði fremur fyrir valinu hjá neytendum. Í dag er hins vegar erfitt að réttlæta neyslustýringu í átt að rafbílum. Lífskjör þjóðarinnar versna í hvert sinn sem rafbíll verður fyrir valinu. Rafbíll kostar þjóðina meira gjaldeyrisútstreymi en sambærilegur bensínbíll á líftímanum.
Það sem við gætum hins vegar gert núna og ættum líklega að gera meira af, væri að flytja inn bensínbíla sem geta einnig gengið fyrir metanóli, etanóli og alls kyns blöndum af þessu. Flestir bílaframleiðendur bjóða upp á slíka bensínbíla með sáralitlum viðbótarkostnaði. Hér á landi er þegar hafin framleiðsla á metanóli til íblöndunar í bensín og útlit er fyrir mjög vaxandi framleiðslu. Metanól er framleitt úr koltvísýringi og rafmagni, og það er nóg af þeim hráefnum hérlendis.