Drómi er eignarhaldsfélag sem fer með eignasafn SPRON og Frjálsa. Í eignasafninu eru meðal annars lán sem SPRON og Frjálsi veittu viðskiptavinum sínum fyrir hrun. Þessir viðskiptavinir hafa ítrekað kvartað undan því að Drómi, sem er slitastjórnin, gangi lengra í sínum innheimtuaðgerðum en þær lánastofnanir sem eru í hefðbundnum rekstri.
Reynist þetta rétt, þarf að kanna hvort slitastjórn Dróma hafi þar með brotið lög. Með tilkomu 3. gr. laga 78/2011 bættist grein 101 a. við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í þeirri grein kemur efnislega fram að Fjármálaeftirlitið beri að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja eins og Dróma. Ennfremur stendur í 1. mgr.: “Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.”…”Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Héraðsdómur skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.”
Svo virðist sem Drómi hafi reiknað niður gengistryggð lán tiltekins hóps viðskiptavina sinna með fyrirvara. Fyrirvarinn setur þennan hóp einstaklinga í verulega óvissu um fjárhagslega framtíð sína. Ekki er vitað til þess að önnur fjármálafyrirtæki hafi gert samsvarandi fyrirvara við endurútreikning gengislána í samræmi við lög 151/2010. Viðskiptavinir Dróma eru því að þessu leiti í allt annari og verri stöðu en viðskiptavinir annara fjármálastofnanna.
Efnahags- og viðskiptanefnd hefur sent Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum varðandi þetta mál þar sem óskað er eftir svari eigi síðar en 3. júlí.