Í aðdraganda kosninga fékk ég stundum þá spurningu hvort þeir sem hefðu þegar fengið leiðréttingar af einhverju tagi, ættu einnig kost á þeirri almennu leiðréttingu sem Framsóknarflokkurinn boðaði. Í dag spurði háttvirtur Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar sömu spurningar varðandi þá leiðréttingu sem ríkisstjórnin boðaði.
Í svari mínu lagði ég áherslu á að ég vissi ekki frekar en aðrir þingmenn hvað starfshópurinn sem vinnur að tillögum muni leggja til í nóvember og einnig að ég vildi ekki grípa fram fyrir hendurnar á hópnum.
En Helgi spurði líka hver mín persónulega afstaða væri og svar mitt var:
„Ég man eftir því að hafa fengið þá spurningu áður á fundum í aðdraganda kosninga. Þá svaraði ég á þá leið að mér þætti réttlátt að menn nytu ekki tvisvar sinnum leiðréttingar heldur væri þetta hugsað til þess að jafna aðstöðu manna.
Sumir hafa lent í því að fá leiðréttingu fyrir dómstólum, fyrir héraðsdómi og Hæstaréttar, af því að þeir voru með ólögleg lán. Vilja menn innifela þá líka, að þeir fái líka lækkun? Að sjálfsögðu ekki, þarna er verið að reyna að jafna leikinn. Hafi menn þegar fengið einhverja leiðréttingu á forsendubrestinum þurfa þeir ekki að fá hana aftur, það er mín afstaða. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendur nefndarinnar eða störf þingsins. Við munum taka afstöðu til allra þessara tillagna þegar þær koma til þingsins.“
Þetta svar hefur orðið tilefni til furðu mikils fréttaflutnings. Þó lýsir það aðeins afstöðu eins þingmans sem á líkt og fleiri þingmenn eftir að taka afstöðu til endanlegra tillagna ríkisstjórnarinnar þegar þær koma til þingsins.
RÚV: Fólk fái ekki tvöfalda skuldaleiðréttingu
MBL: Fólk fái ekki leiðrétt tvisvar sinnum
VISIR: Fyrri leiðréttingar dragast frá leiðréttingum lána