Sænski rafhlöðuframleiðandinn Northvolt, óskaði eftir greiðslustöðvun 21. nóvember. Northvolt var stofnað 2016 með stórtæk áform um að gera Evrópu samkeppnishæft við Kína í framleiðslu á rafhlöðum.
Northvolt fékk frá upphafi mikinn meðbyr. Bílaframleiðandinn Volkswagen fjárfesti í upphafi fyrir 1.4 milljarða EUR og BMW pantaði rafhlöður fyrir 2 milljarða EUR, Scania og Volvo studdu við. Evrópski fjárfestingabankinn lánaði 350 m EUR. Goldman Sachs fjárfesti fyrir 860 m EUR. Stjórnmálamenn kepptust við að eigna sér heiðurinn og efasemdaraddir fengu lítinn hljómgrunn.
Fljótlega reis voldug verksmiðja í Svíþjóð og var stefnt að fyrstu afhendingu á rafhlöðum árið 2021. Það ár hermdi Reuters að virði fyrirtækisins væri talið $12 milljarðar og gæti hækkað í $20 milljarða eftir skráningu á markað. Í árslok 2022 náði framleiðslugetan 1 þúsund sellum á viku sem jókst svo í 20 þúsund sellur á viku árið 2023. Þess ber að geta að meðalstór rafmagnsbíll þarf um 5 þúsund sellur. Mögulega þyrfti Northvolt að framleiða 5-7 milljón sellur á viku til að skila hagnaði. Markmiðið var að framleiða 50 þúsund sellur á viku fyrir árslok 2024 en það náðist ekki. Samningur við BMW að verðmæti 2 milljarðar EUR féll niður.
Eftir stofnun sótti Northvolt árlega aukið fjármagn og styrki. Fyrirtækið lagði ríka áherslu á loftslagsmarkmiðin og fékk hæstu mögulegu einkunn „dökk grænt“ hjá grænum matsfyrirtækjum árið 2023. Í janúar 2024 seldust grænvottuð skuldabréf Northvolt fyrir 5 milljarða USD en 23 bankar komu að útgáfunni, auk NIB og EIB. Í fréttatilkynningu um útgáfuna státar Northvolt af fyrirliggjandi pöntunum upp á $55 milljarða. Þar sem skuldabréfin fóru ekki á almennan markað liggur fjárfestakynningin ekki á lausu, en fróðlegt væri að vita hvað stjórnendur sögðu fjárfestum að væri framundan á þessum tímapunkti.
Sama ár, í september 2024 sagði fyrirtækið upp 1600 starfsmönnum, hægði á framkvæmdum og frestaði uppbyggingu á viðbótar verksmiðju. Tveim mánuðum síðar óskaði fyrirtækið eftir greiðslustöðvun. Nú er unnið að því að útvega fjármagn til að bjarga því sem bjargað verður. Ekki er vitað hve mikið fæst upp í kröfur og skuldir, en hluthafar virðast hafa afskrifað hlutabréf um 90%. Auk þegar nefndra fjárfesta höfðu lífeyrissjóðir frá ýmsum löndum fjárfest verulega, auk sjóðastýringafyrirtækja svo sem Black Rock sem fjárfestir fyrir lífeyrissjóði víða um heim m.a. íslenska. Svo er ótalið fjármagn og styrkir frá ríkissjóðum sem studdu við verkefnið frá upphafi. Alls er talið að 10-12 milljarðar Evra hafi runnið til fyrirtækisins frá upphafi.
Peter Carlsson, forstjóri og stofnandi Northvolt steig til hliðar þegar fyrirtækið sótti um greiðslustöðvun en fregnir herma að hann hafi selt 5% af sínum hlutabréfum fyrir nokkrum árum.
Greiðslustöðvun Northvolt er áfall fyrir sænskt efnahagslíf og eflaust álitshnekkir fyrir þá stjórnmálamenn og fræðimenn sem kepptust við að lofa verkefnið frá fyrsta degi. Þeir fáu sem þorðu að setja fram efasemdir fengu lítinn hljómgrunn.
Vonandi tekst að bjarga Northvolt en málið vekur margar spurningar. Var búið að leysa tæknileg vandamál áður en afköst voru aukin? Hafði teymið og verkefnið einhverja yfirburði sem gátu veitt Northvolt rafhlöðum forskot á keppinauta sem höfðu margra ára reynslu? Var tryggur aðgangur að hráefnum? Var nægilegt aðhald í kostnaði?
Gættu fjárfestar nægilega að grundvallarforsendum í áætlunum Northvolt eða skoðuðu þeir bara dökkgræna stimpilinn?