Nú er loks útlit fyrir að Covid19 sýkingum fari fækkandi hér á landi. Með sama áframhaldi mun sýkingum fækka og þær að lokum hverfa alveg. Hvað tekur þá við? Hvernig komum við samfélaginu og hagkerfinu aftur í eðlilegt horf?
Þótt ég telji vissulega að það hefði mátt stöðva faraldurinn miklu fyrr með mun markvissari aðgerðum, líkt og tókst á Færeyjum, þá fagna ég því innilega að nýjum smitum virðist loks fara fækkandi dag frá degi. Þann árangur má vissulega rekja til aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, en einnig þess að undanfarnar vikur hafa nær engir ferðamenn komið til landsins og einnig þess að almenningur virðist almennt hafa farið mjög gætilega.
Hjarðónæmi er ekki fær leið
Í upphafi virtist stefna stjórnvalda vera sú að leyfa veirunni að smitast út í samfélagið til að byggja upp hjarðónæmi, en reyna á sama tíma að hlífa viðkvæmum hópum við smiti. Sóttvarnalæknir ræddi um að „hægja á faraldrinum“ svo að spítalar gætu haft undan að hjálpa þeim sjúklingum sem á því þyrftu að halda. Veiran hefur líklega reynst töluvert skæðari en búist var við. Sjö hafa dáið, margir tapað heilsu og illa hefur gengið að hlífa viðkvæmum hópum.
Úrtaksskimun Íslenskrar erfðagreiningar í byrjun apríl, sýndi að einungis 0,6% samfélagsins væri með veiruna. Af þessu og fleiru má ætla að mjög lágt hlutfall samfélagsins hafi smitast og myndað mótefni og langur vegur í að hér myndist hjarðónæmi. Ljóst væri að hundruðir myndu deyja áður en hjarðónæmi gæti náðst. Minna er því rætt um að hægja á faraldrinum, en meira rætt um að stöðva hann.
Þess má geta að enn hafa ekki fundist sannanir þess að þeir sem læknast af Covid19 myndi langtímaónæmi gegn smiti og því alls ekki á vísan að róa með að hægt sé að ná hjarðónæmi gegn sjúkdómnum.
Forgangsmál að uppræta veiruna hratt
Það hlýtur því að vera algert forgangsmál stjórnvalda að uppræta veiruna með hraði, því fyrr verður ekki hægt að aflétta aðgerðum að fullu. Það er mögulegt að uppræta veiruna því fái hún ekki að smitast milli manna deyr hún fljótlega út. Veiran lifir ekki nema fáeina daga í umhverfinu.
Þegar veiran hefur verið upprætt í landinu, er loks hægt að aflétta aðgerðum svo mannlíf, skólastarf og atvinnulíf geti komist í eðlilegra horf.
Hvað með erlenda ferðamenn?
Þegar landið er orðið laust við veiruna, er mikilvægt að verja þá stöðu með öllum ráðum. Það þarf þó ekki að þýða að landinu verði harðlokað þar til bóluefni finnst.
Gera má ráð fyrir að fleiri löndum muni takast að uppræta veiruna hjá sér og mögulegt sé að taka upp ferðalög milli ósýktra landa. Ferðamenn yrðu samt eflaust skimaðir bæði áður en þeir stíga upp í vél og við komu. Veiruleitin bætist við vopnaleitina.
Það væri einnig hugsanlegt að opna fyrir komu ferðamanna frá sýktum löndum en þeir yrðu þá að sæta veiruskimun og gista í sóttkví fyrstu tvær vikur dvalar. Sóttkvíin gæti t.d. verið gisting á sérhæfðu sóttkvíarhóteli í fallegu umhverfi, út úr alfaraleið. Þar væri að sjálfsögðu gætt að ítrustu sóttvörnum og starfsfólkið sjálft í sóttkví . Auðvitað yrði að hugsa fyrir mjög mörgu við útfærslu á slíkri þjónustu til að hún skapaði ekki hættu á nýju veirusmiti út í samfélagið, en möguleikinn er fyrir hendi.
Framþróun í tækni til að greina smit er nú mikil og hröð. Í náinni framtíð verður hægt að fá öruggar niðurstöður úr veiruskimun á nokkrum mínútum og án flókins tæknibúnaðar. Það verður því mögulegt að skima ferðamenn bæði við komu til landsins og á meðan á dvöl stendur. Ferðamenn sem greinast með smit gætu valið um að fara aftur til síns heima eða dvelja hér á einangrunarhóteli undir eftirliti lækna. Það yrði þá í raun ný tegund af ferðaþjónustu.
Það er vissulega að mörgu að hyggja og margt sem þarf að undirbúa vel ef við ætlum að taka á móti erlendum ferðamönnum í bráð. Gera þarf t.d. breytingar á Leifsstöð til að koma í veg fyrir blöndun farþega frá smituðum og ósmituðum löndum og koma þarf upp tækni og aðstöðu til að skima fyrir veirusmiti hjá ferðamönnum svo eitthvað sé nefnt.
Getum við farið í ferðalög til útlanda?
Takist að uppræta veiruna hér, ættu landsmenn að vera velkomnir til flestra annarra landa. Samt má reikna með að flest ríki muni vilja skima fyrir veirusmiti hjá ferðamönnum áður en þeim er hleypt inn í landið.
Við heimkomu frá útlöndum þarf að skima alla komufarþega fyrir veirusmiti og þeir sem hafa verið í smituðu landi, eða átt leið um smitað land, þyrftu að fara í sóttkví þar til öruggt er að veiran er ekki til staðar.
Líklega þarf að setja viðurlög við því að gefa upp rangar upplýsingar við heimkomu eða við brotum á sóttkví.
Hátækni, veirulyf og bóluefni
Þegar spænska veikin geisaði fyrir rúmlega hundrað árum var ekki til öll sú tækni og þekking sem við búum að í dag. Tæknin gerir okkur kleift að greina veirusmit, rekja þau hratt og í raun stöðva sýkingu áður en hún kemst á skrið í samfélaginu.
Ekker lyf er til við Covid19 sjúkdómnum, en fjölmörg teymi vísindamanna vinna að rannsóknum og þróun á slíku lyfi. Þeir virðast hafa verið fúsir til að miðla þekkingu sín á milli og jafnvel þvert á landamæri í áður óþekktum mæli. Gervigreind er nýtt m.a. til að leita að efnasamböndum sem gætu haft virkni gegn veirunni og stjórnvöld heimsvelda hafa veitt vísindamönnum aðgang að ofurtölvum til að hraða rannsóknum. Takist að þróa veirulyf sem gerir Covid19 sjúkdóminn hættulítinn hverfur um leið þörfin til að hefta útbreiðslu hans. Slíkt lyf gæti fundist eftir nokkrar vikur, mánuði eða ár.
Sérfræðingar eru flestir sammála um að bóluefni verði vart fáanlegt fyrr en eftir eitt eða tvö ár.
Tökum nú til óspilltra málanna
Það var aldrei góð hugmynd að „fá eitthvað smit út í samfélagið„. Stöðvum veiruna hvar sem hún finnst og eyðum henni af landinu. Því fyrr sem það tekst því fyrr getur mannlíf og atvinnulíf hér farið að rétta úr kútnum.
Ef við viljum fá hingað erlenda ferðamenn án þess að bera smit inn í landið þurfum við að þróa nýjar lausnir og taka frumkvæði í því efni. Þetta leysir sig ekki sjálft.