Ekkert land framleiðir meiri raforku á íbúa en Ísland. Næst kemst Noregur með helmingi minni raforkuframleiðslu á hvern íbúa. Þrátt fyrir þetta eru uppi áform sem samanlagt myndu tvöfalda orkuframleiðslu Íslands nái þau fram að ganga. Megnið af þeim með vindorkuverum í erlendri eigu.

Áður en ég fór að skoða kosti og galla vindorkuvera var ég frekar jákvæður í garð þessar tækni sem sögð var bæði náttúruvæn og hagkvæm.
En fyrir nokkrum árum fóru að berast fréttir af mikilli og vaxandi óánægju meðal fólks í löndum sem höfðu slæma reynslu af vindorkuverum. Vindorkuverin voru að þeirra mati bæði mengandi og óhagkvæm.
Hér kemur listi yfir tíu atriði sem mæla gegn vindorkuverum og stjórnvöld þyrftu að vita af, áður en þau móta stefnu varðandi þennan umdeilda orkukost.
Ókostur 1 – Vindorka er ótrygg og gagnast illa
Notendur raforku þurfa fyririrsjáanleika en vindorka er í eðli sínu ófyrirsjáanleg. Samkvæmt athugunum Landsvirkjunar má búast við að vindorkuver í nágrenni Búrfellsvirkjunar muni skila orku 45% af tímanum, sem er vissulega skárra en í mörgum öðrum löndum.
Erlendis er algengt að gasorkuver séu notuð til að jafna framboðið. Landsvirkjun gæti útvegað allt að 30 MW af jöfnunarafli en það er bara lítið brot af því afli sem þarf ef vindorkuver komast hér á legg í einhverjum mæli.
Hugmyndir um að framleiða rafeldsneyti með sveiflukenndri vindorku eru óraunhæfar. Kostnaðarverð á hvern lítra rafeldsneytis yrði margfalt hærra en verð á jarðefnaeldsneyti. Þótt rafhlöður hafi lækkað í verði, eru þær allt of dýrar til að jafna orkuframboð frá vindorku í þeim mæli sem þyrfti.
Ókostur 2 – Vindorkuver raska stórum landsvæðum varanlega
Það er ekki rétt að vindorkuver séu afturkræf framkvæmd frá sjónarmiði umhverfisins. Samkvæmt upplýsingum á vef Landsvirkjunar um fyrirhugað Vaðölduver, mun virkjunarsvæðið fyrir 28 túrbínur ná yfir 17 ferkílómetra. Leggja þarf 22 km af vegum sem þurfa að bera þungaflutninga og eru margir metrar á breidd. Við hverja túrbínu verður 3.500 m2 vinnuplan.
Þetta er gríðarlegt rask og ummerkin standa um aldir þótt líftími orkuversins sé áætlaður aðeins 30 ár.
Ókostur 3 – Rafmagn verður dýrara
Þótt vindurinn sé ókeypis þá er vindorka ekki ódýr. Vindorkuver geta ekki framleitt nema 45% af tímanum en þau safna kostnaði allan tímann. Bilanir hafa verið tíðar, viðhaldskostnaður hærri og endingin oft töluvert skemmri en þau 25-30 ár sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Vindtúrbínur hafa orðið stærri og hagkvæmari en áður, en vegna skamms endingartíma geta vindorkuver ekki enn keppt í verðum við vatnsorkuver sem endast margfalt lengur og hafa mun betri nýtingu.
Ókostur 4 – Vindorka eykur kostnað í flutningsnetinu
Vindorka kallar á mikla fjárfestingu í flutningsneti og tengivirkjum. En sú flutningsgeta nýtist ekki til fulls nema hluta af tímanum. Þessi óhagkvæmni leiðir til þess að reikningar fyrir flutning raforku hækka.
Ókostur 5 – Vindorkuver eru umdeild og kljúfa samfélög
Reynslan frá Noregi, Svíþjóð og víðar er sú að almenningur verður sífellt andvígari vindorku. Fáir njóta beins ávinnings af vindorkuverum en mikill fjöldi verður fyrir tjóni. Tjónið getur komið fram í lækkun eignaverðs í nágrenni vindorkuvera. Kvartað er undan hljóðmengun og flöktandi skuggum. Sjónmengunin nær langt út fyrir virkjanasvæðið enda eru túrbínur oft meira en 200 metrar á hæð. Náttúruunnendur geta átt erfitt með að leiða hjá sér spaða sem snúast í landslaginu eða ljós sem blikka um stjörnubjartar nætur.
Ókostur 6 – Vindorkuver valda samfélaginu kostnaði
Vindorkuver geta ekki rekið sig án styrkja, skattfríðinda og viðskipta með losunarheimildir. Að lokum þarf almenningur að borga reikninginn. Árið 2024 greiddi breska ríkið vindorkuverum 1 milljarð punda til að framleiða ekki orku þegar flutningskerfin gátu ekki annað aflinu og 2,4 milljarða punda í verðbætur.
Í dag eru orkuver hér á landi að langmestu leiti í samfélagslegri eigu og skila góðum arði. Samkeppni frá vindorkuverum sem að mestu verða í erlendri eigu er líkleg til að draga úr arðsemi Landsvirkjunar.
Þar sem vindorka er sveiflukennd og ófyrirsjáanleg eykst hætta á orkuskorti og rafmagnsleysi í landinu. Tjón samfélagsins af slíkum tilvikum gæti orðið mjög mikið.
Ókostur 7 – Vindorka hefur neikvæð áhrif á lífríkið
Fuglar sem eiga leið um vindorkuver geta ekki forðast spaða sem fer á yfir 200 km hraða gegnum loftið. Í Noregi drepast 5-10 ernir árlega í sumum vindorkuverum. Framkvæmdir við vindorkuverin raska búsvæðum dýra á mjög stórum svæðum. Spaðar vindtúrbína eru úr plasti og þegar þeir slitna sáldrast örplast og önnur mengandi efni yfir víðerni sem áður voru ómenguð. Í vélarhúsi vindtúrbínu eru hundruð lítra af smurolíu sem skipta þarf um árlega og getur spillt grunnvatni leki hún út í jarðveginn. Brunar geta orðið í vindtúrbínum og þá berast hættuleg eiturefni út í umhverfið.
Ókostur 8 – Vindorka á forsendum erlendra fyrirtækja
Hingað til hafa virkjanir landsins að langmestu leiti verið sameign landsmanna. Landsvirkjun hefur skilað tugum milljarða í ríkissjóð sem hefði aldrei verið raunin ef fyrirtækið hefði verið í eigu erlendra aðila. Nú er hinsvegar hætt við að megnið af vindorku landsins verði virkjuð af erlendum fyrirtækjum. Verði einhver arður af vindorku mun hann því renna úr landi. Erlend orkuver munu keppa við orkuver landsmanna og draga úr arðsemi þeirra.
Ókostur 9 – Mikil óvissa um framtíð vindorku
Þar sem vindorka er bæði dýr og ófyrirsjáanleg getur hún ekki keppt við aðra betri orkukosti án verulegs stuðnings frá skattgreiðendum. Sá stuðningur verður nú sífellt óvinsælli meðal kjósenda og gæti að lokum horfið. Orkunotendur vilja ódýra og stöðuga orku.
Mikill gróska hefur verið í þróun kjarnorkuvera undanfarin ár og þau verða sífellt öruggari og ódýrari kostur. Vindorkuver sem eru að hefja starfsemi á næstu árum gætu því orðið gjaldþrota löngu áður en 25 ára líftíma þeirra er náð.
Ókostur 10 – Erfitt að tryggja að vindorkuver taki til eftir sig
Ákvæði í leigusamningi vindorkuvers við landeigendur um að orkuverið fjarlægi búnað í lok leigutíma eru orðin tóm nema traustar tryggingar hafi verið lagðar fram. Erlendis má finna fjöldi dæma um að orkuver í einkaeigu hafi látið bilaðar túrbínur grotna niður árum saman og svo farið á hausinn áður en leigutíma lauk og umsamið hreinsunarstarf átti að hefjast .
Í Bretlandi hafa verið sett lög um að traustar tryggingar um fjármögnun tiltektar skuli liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Slík ákvæði þarf að setja í lög hér, annars gætu landeigendur og sveitarfélög setið uppi með hreinsunarstarf sem kostar gríðarlega fjármuni.
Löggjafinn þarf að setja lög um vindorkuver sem tryggja að frá upphafi sé til nægt fjármagn sem dugar til að fjarlægja allan búnað og lagfæra landið eins vel og kostur er.
Byggt á erindi sem höfundur flutti á fundi samtakanna Sól til framtíðar, 20 ágúst 2025.