Pólitískir pistlar og hlutlægni RÚV

Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur flutt pistla í menningarþættinum Víðsjá á RÚV. Pistlar Hallgríms þann 15. júlí (Nýr Framsóknaráratugur) og 22. júlí (Fulltrúi hagsmuna verður fulltrúi þjóðar). Pistlarnir eru óvægin ádeila á Framsóknarflokkinn sem Hallgrímur segir vera spillingarflokk.

Í þættinum Vikulokin á RÚV 20. júlí, þar sem ég og Hallgrímur vorum meðal gesta kom meðal annars til tals hvort RÚV væri heppilegur vettvangur fyrir pólitíska pistla af þessu tagi. Hallgrími fannst RÚV heppilegur vettvangur, nefndi meðal annars málfrelsi og þörf fyrir ádeilu á stjórnvöld, en ég benti á að gæta þyrfti jafnræðis hjá RÚV í pólitískum áróðri.

Í lögum um RÚV stendur að RÚV skuli í starfháttum sínum „Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.“

Samkvæmt því mætti álykta að ef einum gestapenna er boðið að flytja pistla um sín pólitísku sjónarmið á RÚV, þá eigi fulltrúum annara pólitískra sjónarmiða að veitast jöfn tækifæri hjá RÚV. Hallgrími leist bara vel á það.  Kannski er það líka skásta lausnin úr því sem komið er, þótt eflaust kunni einhverjir að sakna pistla um menningu og listir þegar pólitíkin tekur öll völd í menningarþættinum Víðsjá.

Svo fór spjallið að snúast um fréttir RÚV sem mörgum finnast ekki alltaf nógu hlutlægar. Í lögum um RÚV segir að Ríkisútvarpið skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að „Veita víðtæka, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar“. Talsvert hefur borið á efasemdum um að RÚV takist nógu vel að gæta hlutlægni. Á Facebook er umræðuhópur sem veitir RÚV aðhald í þessu efni. Í hópnum eru hátt í 400 meðlimir sem setja inn færslur nánast daglega.

Andi laganna um RÚV er alveg skýr, gæta skal hlutlægni í fréttum og fréttaskýringum. Vandinn er hinsvegar sá að það er alls ekkert eftirlit með því að svo sé. Enginn formlegur farvegur hjá RÚV fyrir kvartanir. Það er auðvitað ekki viðunandi.

Hjá BBC og víða á norðurlöndum er faglegt eftirlit með hlutlægni í fréttum- og fréttaskýringum. Slíkt eftirlit miðar hvorki að ritskoðun né skoðanakúgun heldur að hlutlægni í fréttamennsku. Markmiðið er að fyrirbyggja að þjóðarfjölmiðli sé misbeitt í þágu sérhagsmuna eða pólitískra afla.

Það hlýtur að vera í verkahring stjórnar RÚV að tryggja að stofnunin fari að lögum um RÚV og farið sé að lögum hvað varðar hlutlægni. Stjórn RÚV ber því að koma á virku eftirliti í því efni. Stjórnin gæti byrjað á að skoða hvernig slíku eftirliti er háttað t.d. hjá BBC og öðrum fjölmiðlum í þjóðareign. Um það fjallar til dæmis þessi skýrsla frá BBC Trust.

 

Fréttum er hagrætt

Í aðdraganda Icesave kosninga gat verið erfitt fyrir kjósendur að finna hlutlausar fréttir og upplýsingar til að byggja atkvæði sitt á. Fréttablaðið og Morgunblaðið voru augljóslega á öndverðum meiði og það skilaði sér í fréttaflutningi þeirra af málinu. Jafnvel RÚV, sem á samkvæmt lögum að gæta fyllstu hlutlægni, tókst ekki að uppfylla skyldu sína að því leiti.

Það getur verið erfitt að koma auga á það hvenær fréttamiðill hagræðir fréttum og hvenær ekki. Sé það gert á augljósan hátt missir fréttin trúverðugleika og þar með áhrifamátt sinn. Þess vegna þurfa fréttamiðlar að fara fínt í allt slíkt. Aðferðirnar eru nokkuð vel þekktar. Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem hérlendir fréttamiðlar hafa beitt til að “hagræða” fréttum í því skyni að fá fram “rétta” niðurstöðu í Icesave og ESB málum: Lesa áfram „Fréttum er hagrætt“

Hlutleysi Ríkisútvarpsins

ruvlogoÍ lögum um Ríkisútvarpið ohf er á þremur stöðum kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Þjóðin þarf að geta treyst því að RÚV fari að lögum og sé í raun hlutlaus fjölmiðill. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að RÚV bregðist ekki trausti þjóðarinnar í þessu enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til stórmála eins og ESB og ICESAVE. RÚV má alls ekki taka afstöðu í þessum hitamálum.

Þær raddir verða nú háværari að umfjöllun RÚV um ESB og ICESAVE uppfylli ekki ákvæði útvarpslaga um óhlutdrægni. Hlutdrægni getur leynst víða t.d. í vali á fréttum, vali á viðmælendum, gildishlöðnum spurningum, tónlist, myndefni ofl. Lesa áfram „Hlutleysi Ríkisútvarpsins“