Formaður sóttvarnaráðs hefur f.h. ráðsins sent svar við opnu bréfi sem síðuhöfundur og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sendu ráðinu 1. apríl. Það ber að þakka fyrir svarið þótt það svari ekki öllum spurningum okkar.
Í bréfi okkar til ráðsins spurðum við meðal annars, hver væri stefna ráðsins í baráttunni við Covid-19, enda hafi þjóðir valið ólíkar leiðir.
Því miður svarar bréfið því ekki beint hvort stefna ráðsins sé að útrýma Covid-19 í landinu eða hægja á útbreiðslu. Af eftirfarandi málsgrein í svarinu má þó kannski álykta að sóttvarnaráð telji ekki hægt að útrýma Covid-19 í landinu.
„Sóttvarnarráð telur að það verði að gera ráð fyrir að kórónaveiran verði viðvarandi heilsufarsógn á Íslandi sem og annars staðar marga mánuði og jafnvel misseri og þær leiðir sem að bréfritarar nefna til að „stöðva faraldurinn“ á tveimur mánuðum óraunhæfar með öllu.“
Þess ber að geta að í Færeyjum virðist einmitt hafa tekist að stöðva faraldurinn á innan við mánuði (Sjá hér). Þar hefur sl. átta daga ekkert nýtt smit fundist. Ekki er ljóst af bréfi sóttvarnaráðs hvers vegna það sama ætti ekki að vera hægt hér.