Á upplýsingafundi 20. apríl sagði sóttvarnalæknir frá því að hann hefði lagt til við ráðherra að allir sem komi til landsins fari í sóttkví. Fram til þessa hafa einungis þeir sem búsettir eru hér á landi farið í sóttkví við komuna til landsins.
Tillögu sóttvarnalæknis má vonandi túlka þannig að nú sé ekki lengur stefnt að þvi að „hægja á faraldrinum“ en þess í stað skuli stöðva hann. Fögnum því!
Lagt var upp með mildunarleið
Þann 27. janúar upplýsti sóttvarnarlæknir að ekki væri mögulegt að hindra að veiran kæmi til landsins. Því var ekki talin þörf á að setja þá sem komu til landsins í sóttkví fyrr en 9. mars og sú aðgerð náði aðeins til heimamanna en ekki erlendra ferðamanna.
Sóttvarnalæknir nefndi einnig í nokkrum viðtölum að ef gengið væri of langt í að stöðva útbreiðslu faraldursins þá kæmi bara önnur bylgja síðar. Í Silfri RÚV sagði hann „Við verðum eiginlega að fá eitthvað smit í samfélagið“ (15. mars.)
Stefna sóttvarnalæknis var því greinilega ekki sú að stöðva faraldurinn, heldur milda hann: gripið var til aðgerða til að hægja á útbreiðslu, reyna að hlífa viðkvæmum hópum og koma í veg fyrir of mikið álag á sjúkrahúsin, á meðan upp byggðist hjarðónæmi hjá þjóðinni. Sóttvarnarnlæknir nefndi að 60% landsmanna þyrftu að smitast áður en hjarðónæmi fengist. Ráðamenn í Bretlandi, Svíþjóð, Noregi, Hollandi og víðar töluðu á svipuðum nótum.
Veruleikinn knýr að dyrum
Þann 15. mars kom út skýrsla Imperial College þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri verjandi að reyna að milda útbreiðslu faraldursins, það yrði hreinlega að stöðva hann, því annars blasti við að sjúkrahúsin myndu yfirfyllast og mannfallið yrði gríðarlegt.
Um svipað leiti reis skelfileg flóðbylgja dauðsfalla á N-Ítalíu. Stjórnvöld flestra ríkja virtust nú átta sig og fóru í mjög harðar aðgerðir til að stöðva faraldurinn.
Þann 24. mars óskuðu tveir læknar á norð-austur horni landsins eftir heimild til að loka af viðkvæmt og afskekkt bæjarfélag. Sóttvarnalæknir mælti þá gegn því og taldi að slík lokun „myndi aðeins fresta vandanum„. Stefnan var greinilega ekki enn orðin sú að stöðva faraldurinn.
Í byrjun apríl, sýndi úrtaksskimun Íslenskrar Erfðagreiningar að einungis 0,6% íbúa á höfuðborgarsvæðinu væru smitaðir. Þótt niðurstaðan afmarkaðist við einn tímapunkt og höfuðborgina, mátti samt álykta af niðurstöðunni að mjög lítið hlutfall landsmanna hefði fram að þessu smitast af Covid-19. Líklega hafði minna en 5% þjóðarinnar smitast. Þrátt fyrir að útbreiðsla faraldurins væri komin svona stutt á veg, voru sjúkrahúsin samt kominn að þolmörkum, margir voru illa haldnir á gjörgæslu og fimm látnir.
Það mátti því vera ljóst, að með sama hraða yrði hjarðónæmi ekki náð fyrr en eftir rúmlega eitt ár í allra fyrsta lagi. Fram að því, yrðu sjúkrahúsin á yfirsnúningi, mannfallið yrði líklega langt yfir 100 manns og jafnvel enn meira, hefðu sjúkrahúsin ekki undan. Allan þennan tíma yrði hagkerfið hálf-lamað vegna faraldursins.
Var þá ef til vill skárra að freista þess að stöðva faraldurinn? Var það mögulegt? Já, því Taiwan, Færeyjar og fleiri lönd virtust þegar vera á góðri leið með það. Tveir fyrrverandi þingmenn sendu sóttvarnanefnd opið bréf 1. apríl til að spyrja hver stefna ráðsins væri gagnvart Covid-19 og á hvaða forsendum hún byggðist.
Breytt stefna: Stöðva faraldurinn
Á upplýsingafundi þann 6. apríl gaf sóttvarnalæknir til kynna að samræma þyrfti reglur um sóttkví fyrir bæði erlenda og innlenda ferðamenn. „Öll þessi mál eru í endurskoðun“ og bætti við að „ekki mætti skemma þann árangur sem náðst hefur„. Þetta orðalag benti eindregið til þess að nú væri stefnt að því að stöðva útbreiðslu smits innanlands (ekki bara hægja á) og gripið yrði til aðgerða til að verjast því að nýtt smit berist til landsins.
Á næstu upplýsingafundum var ítrekað minnst á mikilvægi þess að aflétta aðgerðum gætilega til að forðast að smit breiddist út að nýju, enda ljóst að mjög hátt hlutfall íbúa landsins væri móttækilegt fyrir smiti.
Á upplýsingafundi 20. apríl sagði sóttvarnalæknir frá minnisblaði sem hann hafði sent ráðherra sama dag. Í því væri lagt til að allir fari í sóttkví við komu til landsins, ekki bara þeir sem eiga heimili hér. Þetta yrði svo endurskoðað fyrir 15. maí. Spurður hvers vegna þetta var ekki gert fyrr svaraði sóttvarnalæknir:
„Núna er staðan bara allt önnur. Núna erum við búin að grípa til mjög harðra aðgerða, Íslendingar eru búnir að grípa til mjög harðra aðgerða, íþyngjandi aðgerða hér innanlands. Við erum búin að stoppa smitið hér innanlands. Smit er mjög algengt í löndunum í kringum okkur. Þannig að það er miklu meiri hætta núna að smit berist hingað með útlendingum eða Íslendingum sem eru að ferðast erlendis heldur en áður. Og það er það sem við þurfum að verja,“
Styðjum þessa stefnu – stöðvum veiruna!
Stefna sóttvarnalæknis gegn Covid19 hefur tekið greinlilegum breytingum á undanförnum vikum. Ólíkt kollega hans í Svíþjóð, sem hvikar ekki frá upprunalegri stefnu, hefur sóttvarnalæknir okkar sýnt að hann getur breytt sinni stefnu með hliðsjón af nýrri þekkingu á faraldrinum. Það er mikið happ fyrir okkur öll.
Nú virðist stefnt að því að stöðva faraldurinn og halda honum niðri þar til lyf eða bóluefni hafa fundist. Þegar smitið er horfið úr samfélaginu, sem gæti jafnvel tekist á næstu vikum, verður mögulegt að koma mannlífi í eðlilegra mót og snúa hjólum atvinnulífsins í gang – að því marki sem hægt er á meðan umheimurinn er að komast í gegnum þetta.
Það er bara tímaspursmál hvenær lausnir finnast til að opna á ferðalög milli landa. Fréttir berast af nýrri tækni til að skima fyrir smiti og mótefnum. Ferðir gætu mögulega hafist milli Íslands og annarra landa sem tekist hefur að útrýma smiti hjá sér. Almennt aukið hreinlæti og aðgát, mun draga út smithættu og tækninýjungar munu hjálpa okkur að stöðva þessa veiru og aðrar, enn hraðar í framtíðinni.
Hlýðum Víði!