Traust til alþingis er sáralítið. Samkvæmt viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskólans í Maí 2013 bera aðeins 14% svarenda traust til Alþingis. Meirihluti þátttakenda sem báru ekki traust til Alþingis, sögðu vantraustið beinast að samskiptamáta þingmanna. Svarendur segja að umræða á þingi sé ómálefnaleg, þingmenn sýni hver öðrum dónaskap. Þeir stundi karp, skítkast, séu í sandkassaleik, dónalegir, noti ljótt orðbragð, rífist um hver gerði hvað, þingmenn kenni öðrum um og upphefji sjálfa sig. Á öðrum vinnustöðum myndi þvílík framkoma ekki líðast.
Könnun Félagsvísindastofnunar bendir sterklega til þess að landsmenn séu búnir að fá sig fullsadda af þeirri neikvæðu og óskilvirku umræðuhefð sem hefur þróast í þingsal Alþingis.
Það er rétt að taka fram að utan þingsalarins eru samskipti þingmanna með allt öðru og betra sniði. Nefndarstarfið fer fram fyrir luktum dyrum og þá er framkoma og samvinna þingmanna yfirleitt til mikillar fyrirmyndar. Þingmenn eru því greinilega færir um að eiga málefnaleg samskipti þegar þeir vilja svo við hafa.
Umræður í þingsal eru hins vegar í beinni útsendingu, þar er hvert einasta orð tekið upp og birt. Ætla mætti að fyrir opnum tjöldum myndu þingmenn leggja kapp á að sýna sínar bestu hliðar en því miður er reyndin önnur. Þingmenn virðast líta á þingsalinn sem vettvang fyrir einhverskonar pólitískar burtreiðar. Áherslan er lögð á að koma höggi á pólitíska andstæðinga og keppast um athygli fjölmiðla. Átök eru talin ná betur til fjölmiðla en friðsamleg samskipti. Uppbyggileg og málefnaleg rökræða víkur þannig fyrir karpi og deilum.
Nú verða þingmenn allir sem einn að vinna að því að endurheimta traust almennings til Alþingis. Könnun félagsvísindastofnunar sýnir hve mikilvægt er að þingmenn vandi framkomu sína og samskipti í þingsal. Þingforseti gæti þurft að beita meiri aga en hingað til og ávita þingmenn ef þeir fara út af sporinu í ræðustól. Setja þarf fram leiðbeiningar til þingmanna svo þeir þurfi ekki að velkjast í vafa um hvar línan er dregin, og þeim sé ljóst hvað teljist vönduð og málefnaleg framsetning.