Kjósendur fá sífellt fleiri tækifæri til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem er gott. En um leið er orðið mjög brýnt að setja lög gegn því að valdi og fjármagni verði beitt til að skekkja grundvöll lýðræðisins.
Fjársterkir aðilar hafa forskot á þá efnaminni þegar kemur að því að fjárfesta í markaðssetningu skoðana. Ef við viljum ekki að aðgangur að fjármagni geti ráðið úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslum þarf að setja lög sem jafna leikinn.
Erlend stjórnvöld og alþjóðafyrirtæki geta hæglega yfirgnæft lýðræðislega umræðu í jafn fámennu landi og okkar, nema slík inngrip verði bönnuð með lögum.
Því miður virðist þó einna brýnast að takmarka svigrúm ríkisvaldsins til að beita sér. Í aðdraganda þjóðaratkvæðis um Icesave III, fór ríkisstjórnin í mikla herferð um landið og hvatti kjósendur til að samþykkja lögin. Bæklingur var sendur á öll heimili, en áður var beiðni Advice hópsins um að bæklingurinn innihéldi bæði með- og mótrök hafnað.
Á móti ríkisvaldinu fór fámennur hópur sjálfboðaliða sem lagði nótt við dag til þess að koma andmælum á framfæri við landsmenn. Ríkisstjórnin stýrði öllum tímasetningum og sá sér hag í því að skammta sem fæsta daga til andmæla. Beiting ríkisvaldsins með þeim hætti sem hér er lýst er í raun ofbeldi gagnvart lýðræðinu í landinu.
Aðildarsamningur að ESB mun verða settur í þjóðaratkvæði. Bæði Já- og Nei-hreyfingar hafa sprottið upp og kynnt sín sjónarmið á jafnréttisgrundvelli. En ríkisstjórnin hefur nú þegar afbakað lýðræðið með því að leyfa ESB að verja hér yfir tvö hundruð milljónum til einhliða kynningar. Það er margfalt meira fé en já- og nei-hreyfingar hafa úr að spila. Ríkisstjórnin hefur greitt fyrir því að ESB veiti milljörðum inn í landið í formi aðlögunarstyrkja. Opinberir starfsmenn þiggja veglegar boðsferðir ESB til Brussel. Í ljósi þess að framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, er augljóst að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru löngu komnar út fyrir velsæmismörk. Ríkisstjórnin beitir ríkisvaldinu skefjalaust til að móta skoðanir lykilfólks og almennings í þágu aðildar.