Með fjáraukalögum 2015 fékk fjármálaráðuneytið heimild til að skuldbinda ríkissjóð um 2,3 milljarða (USD 17.6 milljónir) vegna kaupa á hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu (IFBA). Í þingræðu um fjáraukalög mælti ég eindregið gegn þessari ráðstöfun enda er ávinningur af henni mjög óviss en auk fjárframlagsins krefjast samþykktir bankans þess að IFBA og starfsmenn fái sérstök fríðindi og undanþágur frá lögum og eftirliti. Vandséð er að veita megi slíkar undanþágur án sérstakrar heimildar Alþingis og slík heimild hefur ekki enn verið veitt. Þrátt fyrir heimildarleysi er Ísland í hópi 50 ríkja sem undirrituðu samþykktir IFBA í júní 2015.
Starfssvið Innviðafjárfestingabanka Asíu (IFBA)
IFBA er fjölþjóðlegur fjárfestingabanki sem mun lána til uppbyggingar á innviðum í Asíu og Eyjaálfu eingöngu. Höfuðstöðvar bankans eru í Kína.
Kostnaður Íslands og hlutdeild í IFBA
Heildarskuldbinding Íslands verður USD 17,6 m (um 2,3 milljarðar króna). Fimmtungur skuldbindingarinnar greiðist á fimm ára tímabili, um 100 m kr á ári en við það bætist kostnaður vegna ferðalaga embættismanna. IFBA getur hvenær sem er kallað eftir því að fá hin 80% af framlaginu til sín. Hlutdeild Íslands verður 0,0179% en atkvæðavægi 0,2778%. Ísland mun hvorki fá fulltrúa í bankaráði né framkvæmdastjórn bankans og hefur lítil sem engin áhrif á stefnu og ákvarðanir.
Rök sem færð eru fyrir þátttöku Íslands í IFBA
Ráðuneytið telur að þátttaka í IFBA muni efla góð samskipti Íslands og Asíuríkja. Ísland verði sýnilegra í Asíu. Aðild Íslands geti skapað aukin tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf í Asíu. Þessu til viðbótar kemur fram í svari fjármálaráðherra við spurningu minni í þingsal að „á móti þessari fjárfestingu myndast eign, framseljanleg eign, seljanleg eign. Það eru öll merki þess að með því að taka þátt í stofnun bankans, verða stofnaðili að bankanum, muni menn enn frekar geta horft fram á að virði fjárfestingarinnar vaxi en ef þeir vildu reyna að eiga aðild að bankanum á síðari stigum.“
Standast rökin nánari skoðun?
Í grein 7.2 í samþykktum bankans er tekið fram að eignarhlutir séu ekki framseljanlegir nema til bankans sjálfs og IFBA kaupir eigin hluti á bókhaldslegu virði eigin fjár skv. gr. 39. 2. Markmið bankans er ekki að hámarka arðsemi hluthafanna, heldur að efla innviði í ríkjum Asíu og Eyjaálfu. Bankinn getur tapað peningum en það er ólíklegt að hann græði mikið.
Ísland hefur ótal leiðir aðrar til að styrkja góð samskipti við ríki Asíu en að eiga hlut í IFBA. Það er mjög óljóst á hvaða hátt það bætir samskipti íslands og asíuríkja að Ísland eigi agnarlítinn hlut í IFBA. Einnig er mjög óljóst hvernig IFBA aðild skapar tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf sem ekki eru þegar til staðar. Í Samþykktum bankans gr. 13.8. er sérstaklega tekið fram að í þeim verkefnum sem bankinn fjármagnar skuli ekki útiloka lausnir frá neinu ríki. Aðild að IFBA er því ekki skilyrði þess að íslensk fyrirtæki geti komið að verkefnum hans. Það er ótrúlegt að menn ímyndi sér að 0,0179% eignarhlutur í IFBA ráði einhverju um það hvort íslensk fyrirtæki nái árangri í Asíu eða ekki.
Hafinn yfir lög, eftirlit og dómstóla
Í samþykktum IFBA er farið fram á mjög sérstakar heimildir og fríðindi til handa bankanum og starfsfólki hans. IFBA greiðir enga skatta, né starfsmenn hans eða ráðgjafar í fullu starfi (50. gr. og 51gr.) IFBA fær að hafa reikning í Seðlabankanum (33.2. gr.). Bannað verður að rannsaka starfshætti bankans (46.1.gr.). Bannað að haldleggja eignir bankans (47.1 gr.). Bannað að hindra millifærslur á vegum IFBA (19.1. gr.)
Þetta eru víðtækar heimildir sem verða ekki veittar án beinnar ákvörðunar Alþingis. Verði þær veittar er IFBA kominn með heimild til að færa fjármuni til og frá landinu án þess að hægt sé að sporna við því á nokkurn hátt. Ekki verður hægt að kanna uppruna eða tilgang fjármagnsflutningana eða leggja á þá skatt af nokkru tagi. Hvers vegna ætti Ísland að veita nokkurri stofnun slíkar undanþágur frá lögum? Til þess að réttlæta slíkar undanþágur þurfa að vera miklir almannahagsmunir, en þeir eru afar óljósir eins og fram hefur komið.
Spurningar vakna
Af hverju er framlag Íslands 30 falt stærra en Portúgals m.v. íbúafjölda?
Af hverju taka bara 50 af um 200 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þátt í IFBA?
Af hverju vilja Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Japan, Tævan, Argentína, Marokkó og fleiri ríki ekki vera með?
Hvers vegna ættu íslenskir skattgreiðendur að leggja til hliðar 2,3 milljarða til að styðja útrás íslenskra fyrirtækja í Asíu?
Hafa einhver íslensk fyrirtæki þrýst á aðild Íslands að IFBA?
Að lokum
Líklega mun IFBA gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu innviða í Asíu í framtíðinni en árangurinn mun trauðla ráðast af því hvort Ísland verður með eða ekki. Erfitt er að sjá að aðild að IFBA muni hafa nokkuð að segja fyrir íslenskt atvinnulíf. Ávinningur Íslands af þátttöku er vægast sagt óljós. Hitt er alveg skýrt, að 2,3 milljarðar króna eru miklir fjármunir sem gætu runnið til mikilvægari verkefna og Ísland þarf að fara mjög gætilega í því að veita stofnunum undanþágur frá lögum, sköttum og eftirliti ekki síst stofnunum þar sem áhrif Íslands eru engin.