Eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld geta annast fyrir landsmenn er að halda úti traustum gjaldmiðli. Sjálfstæður og vel rekinn gjaldmiðill sem tekur mið af þörfum hagkerfisins á hverjum tíma getur aukið hagvöxt og lífsgæði í landinu verulega umfram það sem mögulegt væri ef hér væri notuð erlend mynt.
Til mikils að vinna
Þótt hér hafi orðið bankahrun og krónan bæði ofrisið og hrunið þá má ekki missa móðinn. Allt of margir vilja bara gefast upp. Ísland er ekki eina þjóðin sem hefur fengið skell. Norðmenn og Svíar lentu í bankakreppum á níunda áratugnum en hafa þrátt fyrir það náð góðum árangri í kjölfarið. Það getum við einnig og það ætti að vera okkar staðfasta markmið.
Þrátt fyrir alls kyns mistök hafa lífsgæði landsmanna tekið ótrúlegum framförum. Ísland var eitt fátækasta land Evrópu fyrir rúmum mannsaldri síðan. Í dag, jafnvel eftir efnahagshrun, eru fá lönd sem geta státað af jafn góðum lífskjörum og Ísland. Vera má að dönsk króna hafi haldið verðgildi sínu 2.000 sinnum betur en krónan okkar, en trúir því einhver að hér væru lífskjör 2.000 sinnum betri ef hér hefði verið dönsk króna? Það mætti frekar spyrja hvort framfarir hefðu ekki einmitt verið hægari ef hér hefði verið erlend mynt í stað sjálfstæðrar krónu?
Atvinnuleysi hefði verið meira
Það er óumdeilt að fastgengi leiðir til hærra atvinnuleysis. Ástæðan er sú að það getur tekið nokkur ár að lækka laun í niðursveiflu en það tekur ekki nema einn dag að lækka þau með gengisfellingu. Of há laun leiða til uppsagna eða gjaldþrota. Atvinnulaust fólk skapar engin verðmæti og það sem verra er, þeir sem hafa vinnu verða að borga hærri skatta til að greiða atvinnuleysisbætur. Krónan hefur oft fallið sem er vissulega slæmt en allir höfðu samt vinnu og hagsæld landsmanna jókst jafnt og þétt. Aukið atvinnuleysi hefði örugglega tafið framfarirnar.
Samdráttarskeið hefðu orðið dýpri og lengri
Hagkerfi sem býr við fastgengi getur ekki brugðist við niðursveiflu með því að lækka gengi myntarinnar. Fjármagn streymir þá yfirleitt úr landi og til þeirra landa þar sem betur árar og betri ávöxtun býðst. Afleiðingin er enn sárari skortur á fjármagni til framkvæmda einmitt þegar mest ríður á að auka atvinnu. Lengri samdráttarskeið hefðu án efa dregið úr langtímahagvexti.
Myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi
Myntsláttuhagnaður rennur til þess seðlabanka/ríkis sem gefur út gjaldmiðillinn. Myntsláttuhagnaður verður til þegar peningamagn er aukið til að mæta vexti hagkerfisins eða til að veikja gengið. Hér hefur hagkerfið iðnvæðst og margfaldast að stærð á einum mannsaldri. Íbúafjöldi landsins hefur líka margfaldast. Hér var þessu mætt með því að framleiða fleiri krónur. Án krónu hefði Ísland þurft að kaupa og flytja inn mikið magn af erlendri mynt til að auka peningamagn í umferð. Magnið samtals væri líklega nálægt grunnfé Seðlabankans í dag eða um 90 milljarðar. Það hefði því ekki verið hægt að fjárfesta jafn mikið í innviðum og framleiðslutækjum ef myntsláttuhagnaður hefði runnið úr landi í öll þessi ár.
Truflanir frá erlendu myntinni
Erlenda myntin hefði tekið mið af aðstæðum í útgáfulandinu. Uppsveifla í því landi hefði getað leitt til hærra vaxtastigs en Íslenska hagkerfið hefði þolað. Afleiðingin hefði getað verið gjaldþrot og minni framkvæmdir og verkefni en ella. Hagvöxtur hefði því tafist. En stundum hefðu vextir verið of lágir fyrir Ísland og það leitt til offjárfestingar, jafnvel í óarðbærum verkefnum. Þessar utanaðkomandi sveiflur hefðu verið sem steinar í götu íslenska hagkerfisins og hægt á framförunum.
Vonandi er ljóst af þessum dæmum að þrátt fyrir allt hefur krónan verið nauðsynlegt til að koma þjóðinni úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu. Hún getur haldið áfram að þjóna landsmönnum um ókomin ár.
Vissulega mætti tína til einhverja smávægilega ókosti og kostnaðarliði við að hafa sjálfstæða mynt. Um þessa hluti er mikið skrifað þessa dagana og best að vísa áhugasömum á þau skrif. En tilgangurinn með þessum pistli er að benda á nokkra af kostunum við að hafa sjálfstæða mynt.